Þótt Jónas Jónsson frá Hriflu sæist stundum ekki fyrir, var hann ritfær og mikilhæfur stjórnmálamaður, sem kunni að velja hugmyndum sínum nöfn. Hafði hann hér mikil áhrif og jafnvel stundum víðtæk völd árin 1916-1944.

Þótt Jónas Jónsson frá Hriflu sæist stundum ekki fyrir, var hann ritfær og mikilhæfur stjórnmálamaður, sem kunni að velja hugmyndum sínum nöfn. Hafði hann hér mikil áhrif og jafnvel stundum víðtæk völd árin 1916-1944.

Frjálslyndir nútímamenn geta ekki verið samþykkir því, hvernig Jónas dró taum landbúnaðar á kostnað sjávarútvegs, en útgerðarmenn kallaði hann „Grimsby-liðið“, enda var íslenskum fiski þá oft landað í Grimsby í Norður-Englandi.

Nokkrar aðrar hugmyndir Jónasar eru merkari. Ein er „Leifslínan“, en svo kallaði hann nauðsynina á nánu samstarfi við Bandaríkin. Hún hét að sjálfsögðu eftir Leifi heppni, sem fann Vesturheim. Jónas var sannfærður um, að Íslendingum kæmi best að leita skjóls hjá Bretum og Bandaríkjamönnum, enda dáðist hann að engilsaxneskri menningu.

Jónas áttaði sig einnig snemma á hættunni, sem stafaði af ítökum kommúnista í listum og bókmenntum. Hann blandaði kommúnismanum þó saman við ýmsar tilraunir, sem listamenn gerðu til að brjóta upp lögun, snið og hrynjandi verka sinna og heppnuðust misjafnlega. Fræg urðu ummæli Jónasar um „hvíldartíma í listum og bókmenntum“, sem hann skrifaði í Tímann í árslok 1941: „Í bókmenntum og listum samtíðarinnar má greina fjórar kvíslir sömu elfu. Í bókmenntum er það kynóra- eða klámstefnan, í húsagerðarlist kassastíllinn, í höggmyndagerð klossastefnan, en í málaralist klessugerðin. Hér á landi má sjá dæmi um kynórastefnuna í ritum kommúnista og nokkurra annarra viðvaninga, sem tekið hafa þá til fyrirmyndar.“

Hér er hressilega að orði komist. Í fagurfræði var Jónas rómantískur íhaldsmaður, sem taldi listina eiga að vera leit að hinu fagra.

Jónas varaði líka við opinberri forsjá í atvinnulífinu, þegar atvinnurekendur hirða gróðann, en tapið er þjóðnýtt. Þótt sumir hafi talið þetta kunna orðalag fengið frá öðrum ritfærum manni, Vilmundi Jónssyni landlækni, er það úr ræðu, sem Jónas hélt á Alþingi 1946.

• Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is