Árið 2011 gaf Bjartur út skáldsöguna Brotin egg eftir enska rithöfundinn Jim Powell í þýðingu Guðrúnar Vilmundardóttur og Arnars Matthíassonar. Þetta er afbragðsbók, sem hefst rólega, en verður því forvitnilegri sem á líður.

Árið 2011 gaf Bjartur út skáldsöguna Brotin egg eftir enska rithöfundinn Jim Powell í þýðingu Guðrúnar Vilmundardóttur og Arnars Matthíassonar. Þetta er afbragðsbók, sem hefst rólega, en verður því forvitnilegri sem á líður. Hún er full af óvæntum atvikum og jafnvel spaugilegum. Hún er ekki beinlínis um kommúnismann, heldur um hitt, hvað gat komið fyrir venjulegt fólk við kommúnisma. Heiti sögunnar vísar til þess, að kommúnistar sögðu jafnan, þegar þeir þurftu að réttlæta ódæði sín, að til þess að gera eggjaköku þyrfti að brjóta egg. Saga Powells er um brotnu eggin, miðaldra kommúnista, sem ættaður var frá Póllandi, hafði flust til Sviss rétt fyrir stríð og síðan sest að í Frakklandi, en eftir fall Berlínarmúrsins kynntist hann óvænt aftur fjölskyldu sinni.

Fyrst hef ég fundið þessa líkingu hafða eftir Peter Ludwig von Pahlen, þýsk-rússneskum herstjóra í Pétursborg, sem þá var höfuðborg rússneska keisaradæmisins. Hann átti aðild að samsæri um að steypa af stóli þáverandi keisara, Páli I., en á fundi 23. mars 1801 spurði annar samsærismaður, hvað gera skyldi, ef keisarinn vildi ekki segja af sér mótþróalaust. Þá svaraði von Pahlen: „Eigi að baka eggjaköku, þá verður að brjóta egg.“ Þetta er líka franskur málsháttur: „On ne fair pas d'omelette sans casser des oeufs.“ (Ekki er unnt að baka eggjaköku án þess að brjóta eggin.)

Agnar Þórðarson, rithöfundur og leikskáld, segir í ferðasögu sinni frá Rússlandi, Kallað í Kremlarmúr , sem kom út 1978: „Stalín á eitt sinn í viðræðum við Búkharín að hafa gripið til þeirrar líkingar, að ekki væri unnt að baka eggjaköku án þess að brjóta egg. Þá á Búkharín að hafa svarað: Já, ég sé öll brotnu eggin, en hvar er eggjakakan? Svo liðu nokkur ár, og Búkharín var sjálfur orðinn eitt af brotnu eggjunum.“

Og aldrei birtist eggjakakan.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is