Jón fæddist að Háagerði í Austur-Húnavatnssýslu þann 15.8. 1882, sonur Björns Jónssonar, hreppstjóra á Veðramóti, og Þorbjargar Stefánsdóttur frá Heiði í Gönguskörðum. Meðal systkina Jóns voru Haraldur Björnsson leikari og Björg, móðir Sigurðar, alþm.

Jón fæddist að Háagerði í Austur-Húnavatnssýslu þann 15.8. 1882, sonur Björns Jónssonar, hreppstjóra á Veðramóti, og Þorbjargar Stefánsdóttur frá Heiði í Gönguskörðum. Meðal systkina Jóns voru Haraldur Björnsson leikari og Björg, móðir Sigurðar, alþm. og ritstjóra Morgunblaðsins. Meðal móðursystkina Jóns voru Sigurður, pr. í Vigur, og Stefán skólameistari, faðir Valtýs, ritstjóra Morgunblaðsins, og Huldu skólastjóra.

Fyrri kona Jóns var Geirlaug Jóhannesdóttir og eignuðust þau tíu börn: Stefán, arkitekt í Reykjavík; Jóhönnu Margréti lengi húsfreyju í Noregi; Þorbjörgu, skólastjóra Hjúkrunarkvennaskóla Íslands; Sigurgeir skrifstofumann; Björn, héraðslækni í Kanada; Ragnheiði Lilju, húsfreyju í Bandaríkjunum; Gyðu, húsfreyju í Reykjavík; Jóhannes Geir listmálara; Ragnheiði, húsfreyju í Reykjavík, móður Óskars, útgefanda Morgunblaðsins, og Geirlaug bókbindara í Reykjavík. Fósturdóttir Jóns er Geirlaug Björnsdóttir meinatæknir.

Seinni kona Jóns var Rósa Stefánsdóttir.

Jón lauk gagnfræðaprófi frá Möðruvöllum 1899, kennaraprófi frá Jonstrup á Sjálandi 1908 en sótti jafnframt námskeið við Kennaraháskóla Kaupmannahafnar 1905 og fór síðar utan í námsferðir.

Jón var skólastjóri Barnaskóla Sauðárkróks frá 1908-52, og skólastjóri unglingaskóla þar 1908-46. Hann vann ötullega að málefnum góðtemplara, sinnti ýmsum trúnaðarstörfum fyrir regluna og var heiðursfélagi Stórstúku Íslands.

Þá hlóðust á Jón almenn trúnaðarstörf enda maður virtur og vinsæll með afbrigðum. Hann var hreppsnefndarmaður í tvo áratugi og oddviti lengst af, sóknarnefndarformaður í 40 ár, formaður Ungmennafélagsins Tindastóls, sat í stjórn Rauða kross félags Skagafjarðar og Dýraverndunarfélags Skagafjarðar, var heiðursfélagi ýmissa samtaka og félaga og fyrsti heiðursborgari Sauðárkróks.

Jón lést 21.8. 1964.