Það er orðið nokkuð langt um liðið síðan ég hef, eins og sá sómakæri ritstjóri Reynir Traustason myndi orða það, pönkast á Jóni Gnarr, sem kallaður er borgarstjóri en er náttúrlega ekkert annað en lélegur brandari.

Það er orðið nokkuð langt um liðið síðan ég hef, eins og sá sómakæri ritstjóri Reynir Traustason myndi orða það, pönkast á Jóni Gnarr, sem kallaður er borgarstjóri en er náttúrlega ekkert annað en lélegur brandari.

Því stenst ég ekki mátið að deila með ykkur, lesendur góðir, lítilli reynslusögu okkar íbúanna í Bryggjuhverfi við Grafarvog.

Í þessu ágæta hverfi hef ég búið undanfarin sjö ár og þegar ég á morgnana stefni hingað í Hádegismóa tek ég vinstri beygju upp litla tengigötu sem tengir Sævarhöfða og Stórhöfða. Götukrílið hefur ekkert nafn. Svo einkennilega sem það kann að hljóma, þá hafa um 250 metrar tengigötunnar, miðbik hennar, ekki verið malbikaðir, en fyrstu árin fór þó veghefill yfir þann hluta hennar nokkuð reglulega og hélst hún því ágætlega fær.

En síðan Besti flokkurinn og guðmóðir hans, Dagur B. Eggertsson, tóku við í borgarstjórn hefur það vart gerst, enda hefur þessi kafli verið verra þvottabretti en verstu fjallvegir. Íbúar hverfisins hafa kvartað mjög við þar til bær yfirvöld, með engum árangri. Svo gerðust þau undur og stórmerki að borgaryfirvöld ákváðu í júní í sumar að malbika spottann og tengigötunni var lokað og á stóru skilti mátti lesa áformin um framkvæmdirnar og að verklok væru áætluð hinn 1. ágúst sl. Þau gáfu sér sem sé einn og hálfan mánuð til þess að malbika 250 metra!

Varla sást nokkurn tíma að einhverjar framkvæmdir væru í brekkunni á þessum tíma, en mikið var þó af stórvirkum kyrrstæðum vegavinnutækjum og varla nokkurn tíma maður þar á ferð. Hvað kostaði það borgina að geyma vinnutækin ónotuð í brekkunni svo vikum skipti?

Þegar loksins sást einhver hreyfing var farið að gæla við að aftur yrði hægt að komast styttri leiðina í og úr vinnu og horft með tilhlökkun fram til 1. ágúst. Hann rann upp og ekkert gerðist. Ekki heldur næstu þrjár vikurnar þar á eftir. Nú er tengigatan litla hins vegar komin í gagnið á nýjan leik og styttri leiðin því fær. Það tók Gnarrinn og hans fólk tvo mánuði að malbika 250 metra. Geri aðrir betur í slóðaskap.

Þessi litla frásögn er bara eitt lítið dæmi af getuleysi Gnarrsins og hans pótintáta, því alls staðar í okkar fyrrum fallegu borg blasir við sorglegur vitnisburður um hversu mjög skortir á að viðhald sé sem skyldi: það á við um götur bæjarins, sem margar eru afar illa leiknar; það á við um opin útivistarsvæði, sem eru beinlínis týnd í arfa, illgresi, njóla og öðrum leiðindum; það á við um hús í niðurníðslu; það á við um grasið meðfram götum, sem hefur í mörgum tilvikum verið óslegið í allt sumar. Allt er þetta Gnarr og guðmóður hans til háborinnar skammar. Hvaða augum ætli þeir sem kusu Gnarrinn, Besta flokkinn (Versta flokkinn) og góðan Dag til valda í borginni hugsi þegar þeir sem ráða láta borgina bara halda áfram að drabbast niður. agnes@mbl.is

Agnes Bragadóttir