Fyrir nokkru skrifaði ég hér um hin fleygu orð Jóns Þorlákssonar forsætisráðherra, að bylting væri lögleg, ef hún lukkaðist, og reyndi að rekja uppruna þeirra. Af því tilefni skrifaði Örn Ólafsson bókmenntafræðingur smágrein í Morgunblaðið þar sem hann hélt því fram, að eðli málsins samkvæmt væru byltingar alltaf ólöglegar, því að þá væri stjórnvöldum kollvarpað. Ég er ekki viss um, að fremstu stjórnspekingar Vesturlanda séu sammála Erni. Til dæmis taldi enski heimspekingurinn John Locke, að byltingar væru löglegar, þegar stjórnvöld hefðu rofið þann sáttmála, sem gilti milli þeirra og borgaranna. Konungur, sem bryti rétt á þegnum sínum, væri hinn raunverulegi uppreisnarmaður, ekki þeir, sem tækju að sér að reka hann frá völdum.
Hvað sem því líður, rifjaðist við þetta upp fyrir mér vísa, sem Magnús Ásgeirsson þýddi fyrir löngu:
Af landráðum vex ekki vegsemd!
Hve verður það sannað?
Ef landráðin hafa heppnast,
þá heita þau annað.
Í ritsafni Magnúsar, sem Kristján Karlsson bókmenntafræðingur gaf út fyrir Helgafell 1975, er þessi vísa sögð eftir ókunnan höfund.
Hún er hins vegar augljóslega eftir enska aðalsmanninn og skáldið Sir John Harington, sem orti í Epigrams árið 1618:
Treason doth never prosper,
what's the reason?
For if it prosper,
none dare call it treason.
Hér segir Sir John svipað og hinn íslenski nafni hans Þorláksson, að munurinn á glæp og hetjudáð getur stundum oltið á leikslokum. Alþekkt dæmi er, þegar danski sendiherrann í Washington-borg, Henrik Kauffmann, óhlýðnaðist ríkisstjórn sinni eftir hernám Danmerkur vorið 1940 og samdi upp á sitt eindæmi um, að Bandaríkjastjórn tæki að sér hervernd Grænlands. Hann var rekinn úr stöðu sinni og fundinn sekur um landráð, en strax eftir stríð var sá dómur ógiltur, og varð Kauffmann raunar ráðherra í fyrstu dönsku stjórninni eftir hernámið. „Sekur er sá einn, sem tapar,“ orti Einar Benediktsson.
Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar
Hannes H. Gissurarson
hannesgi@hi.is