Afmæli Að loknum fyrirlestri Hannesar Hólmsteins var haldin móttaka í Hámu, fyrir framan bóksölu stúdenta, og meðal þeirra sem heilsuðu upp á afmælisbarnið voru Jón Steinar Gunnlaugsson og Björn Bjarnason.
Afmæli Að loknum fyrirlestri Hannesar Hólmsteins var haldin móttaka í Hámu, fyrir framan bóksölu stúdenta, og meðal þeirra sem heilsuðu upp á afmælisbarnið voru Jón Steinar Gunnlaugsson og Björn Bjarnason. — Morgunblaðið/Ómar
Í tilefni sextugsafmælis síns í gær flutti dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði, fyrirlestur um frjálshyggjuna, kreppuna og kapítalismann í boði stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands.

Í tilefni sextugsafmælis síns í gær flutti dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði, fyrirlestur um frjálshyggjuna, kreppuna og kapítalismann í boði stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands. Í fyrirlestrinum brást Hannes við harðri gagnrýni sem frjálshyggjan og kapítalisminn hafa fengið eftir hina alþjóðlegu lánsfjárkreppu og bankahrunið íslenska.

Er kapítalisminn óstöðugur?

Þrátt fyrir að nóbelsverðlaunahagfræðingurinn Milton Friedman hafi talið kapítalismann nokkuð stöðugan benti Hannes á það í fyrirlestri sínum að kapítalismi væri undirorpinn hagsveiflum, þenslu og samdrætti á víxl og það væru engin ný sannindi. Á móti benti Hannes á að hvergi væri betra að búa með tilliti til hagvaxtar og velmegunar en í frjálsum kapítalískum löndum og vitnaði Hannes í frelsismælikvarða

kanadísku stofnunarinnar Fraser institute og hinnar bandarísku Heritage Foundation. Hann kom einnig inn á skaðleg inngrip ríkisvaldsins og benti á að í frjálsum ríkjum væru sveiflur tímabundnar og einstaklingar gætu brugðist við ólíkt þeim löndum sem stjórnað er af duttlungum einræðisherra eða yfirþyrmandi ríkisvalds.

Hvers vegna kom kreppan?

Í fyrirlestrinum nefndi Hannes margt til sögunnar sem orsakaði kreppuna, eins og skort á jafnvægi milli áhættu og ábyrgðar. Benti hann þar sér í lagi á galla í Basel-reglunum. Galla sem lúta að áhættugreiningu t.d. fasteigna og ríkisskuldabréfa. „Eins verður að líta til innistæðutrygginga og ýmissa ríkisábyrgða sem vöktu falska öryggiskennd hjá fjármálastofnunum,“ sagði Hannes sem telur þó nærtækustu skýringuna á kreppunni vera að finna í kenningum Ludwigs von Mises og Friedrichs von Hayek. „Þegar horft er um öxl ríma kenningar þeirra best við veruleikann. Hér varð leiðrétting á bólu sem stafaði af óhóflegri peningaþenslu sem viðskiptabankar í heiminum stofnuðu til.“

Hannes benti einnig á mikla skuldasöfnun hins opinbera, t.d. í Evrópu, og skekkjuna sem til varð með ríkisábyrgðum.

Þá goðsögn að betra sé að líta til Evrópu og þá helst Norðurlanda hrakti Hannes með einföldum hætti. „Væru ríki Evrópu mæld með ríkjum Bandaríkjanna kæmist aðeins eitt þeirra, þ.e. Lúxemborg, á lista yfir 25 efnuðustu ríkin en 16 Evrópuríki myndu raða sér á lista yfir 25 efnaminnstu.“

Hannes sagði Bandaríkin ekkert frjálshyggjuríki en þar hefði fólk þó kost á að vinna sig upp og út úr erfiðleikum. vilhjalmur@mbl.is