8. júní 2013 | Pistlar | 224 orð

Fróðleiksmolar úr sögu og samtíð

Íslensk fyndni eða erlend?

Margar skemmtisögur íslenskar eiga sér erlendar fyrirmyndir, og er erfitt að skera úr um það, hvort þær séu flökkusögur, sem borist hafi til Íslands, eða hvort íslenskum háðfuglum hafi dottið hið sama í hug við ýmis tækifæri og fyndnum útlendingum áður.
Margar skemmtisögur íslenskar eiga sér erlendar fyrirmyndir, og er erfitt að skera úr um það, hvort þær séu flökkusögur, sem borist hafi til Íslands, eða hvort íslenskum háðfuglum hafi dottið hið sama í hug við ýmis tækifæri og fyndnum útlendingum áður.

Í Íslenskri fyndni 1953 er til dæmis fræg saga af Árna Pálssyni prófessor. Á hann að hafa spurt í samtali við kvenfrelsiskonur, sem töldu, að konur nytu hvergi forréttinda: „Hvenær hefur það heyrst, að konu væri kenndur krakki, sem hún á ekki?“ En óneitanlega minnir þetta snjalla svar Árna á það, sem írski fornfræðingurinn Sir John Pentland Mahaffy, sem uppi var 1839 til 1919, veitti, þegar kvenfrelsissinni spurði hann, hvaða eðlismunur væri í karli og konu: „I can't conceive“ – Ég get ekki orðið þungaður.

Sverrir Hermannsson er svarkur í orðum, og fleygt varð, þegar hann sagði um þáverandi flokksbróður sinn: „Þegar Eggert Haukdal fer frá Rangárvöllum til Reykjavíkur, lækkar meðalgreindarvísitalan á báðum stöðum.“ En þetta er afbrigði af gamalli fyndni. Kvenskörungurinn kunni Clare Booth Luce, sem uppi var frá 1903 til 1987 og sat í öldungadeild Bandaríkjaþings fyrir Lýðveldisflokkinn (Repúblikana), sagði eitt sinn, þegar annar öldungadeildarþingmaður hafði vistaskipti og gekk úr Lýðveldisflokknum og í Lýðræðisflokkinn (Demókrata): „Í hvert skipti sem lýðveldissinni fer yfir ganginn og sest hinum megin, hækkar meðalgreindarvísitalan í báðum flokkum.“

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.