[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Baldur Arnarson baldura@mbl.is Margir nemendur af erlendum uppruna í grunnskólum landsins eiga í erfiðleikum með að ná fullum tökum á íslensku og kemur það niður á árangri þeirra.

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Margir nemendur af erlendum uppruna í grunnskólum landsins eiga í erfiðleikum með að ná fullum tökum á íslensku og kemur það niður á árangri þeirra.

Um þetta eru skólastjórar þriggja grunnskóla sammála en þeir starfa allir í hverfum þar sem hlutfall fólks af erlendum uppruna er hátt.

Haft var eftir Guðmundi Sighvatssyni, skólastjóra Austurbæjarskóla, í Morgunblaðinu í gær að hann hefði þungar áhyggjur af því að börn sem alast upp á heimilum þar sem íslenska er ekki töluð fengju ekki stuðning til jafns við nýbúa. Sagði Guðmundur að fjórði hver nemandi í skólanum byggi við tvítyngi á heimilinu en til samanburðar er hlutfall innflytjenda í hverfinu um 19%.

Spurð um hlutfall nemenda af erlendum uppruna í Fellaskóla segir Kristín Jóhannesdóttir, skólastjóri, að ríflega helmingur 323 nemenda búi við annað móðurmál á heimili en íslensku. Spurð hvernig þeim gangi í náminu, samanborið við nemendur sem hafa íslensku að móðurmáli, segir Kristín að mörgum þeirra reynist erfitt að læra íslensku.

Skortir dýpri skilning

„Sem vonlegt er reynist íslenskan mörgum erfið, ekki síst m.t.t. hugtakaskilnings. Nemendur geta verið fljótir að tileinka sér einfaldan orðaforða til að bjarga sér í daglegum samskiptum en skortir oft dýpri skilning á tungumálinu. Svo má heldur ekki gleyma því að einstaklingarnir eru jafn ólíkir hvort heldur um er að ræða innflytjendur eða innfædda,“ segir Kristín.

Innt eftir því hvort dæmi séu um að nemendur af erlendum uppruna standi höllum fæti í náminu vegna lítillar íslenskukunnáttu segir hún að „vissulega séu dæmi um það“.

„Við þurfum að leggja ríka áherslu á íslensku og læsi og beita fjölbreyttum aðferðum við kennsluna. Þá þarf nemendum að standa til boða góður stuðningur og fjölbreytt námsefni. Allir kennarar í Fellaskóla eru móðurmálskennarar en þurfa einnig að búa yfir aðferðum sem nýtast við að kenna íslensku sem annað mál. Góð íslenskukunnátta er grundvöllur þess að innflytjendur geti staðið jafnfætis innfæddum í námi og geti með góðu móti tekið virkan þátt í íslensku samfélagi. Hér vinnum við að því að mæta þörfum nemenda eins vel og kostur er svo hver og einn finni sig á heimavelli. Það er í raun sameiginlegt verkefni allra í skólasamfélaginu,“ segir Kristín.

Tíundi hver nemandi

Fram kom í Morgunblaðinu fyrr í vikunni að hlutfall fólks af erlendum uppruna í Reykjavík er hæst á Kjalarnesi eða um 31%.

Þorkell Daníel Jónsson, skólastjóri Klébergsskóla á Kjalarnesi, segir aðspurður að 12 nemendur af 124 séu af erlendum uppruna.

„Það er misjafnt hvernig þeim gengur í náminu. Það er háð því hversu góðum tökum þeir hafa náð á íslensku. Það er allur gangur á því. Seint myndi ég svara því að það væri nægur stuðningur við þessa nemendur. Það þarf enda svo mikinn stuðning til þess að hann sé eins og við myndum vilja hafa hann í hinu fullkomna þjóðfélagi. En við reynum að styðja þessa nemendur eins og við mögulega getum miðað við þær forsendur sem við höfum til þess.“

– Er hætta á að hluti þessa nemendahóps dragist aftur úr?

„Já, það er vissulega hætta á því.“

Sum börnin eru flugfær

Þótt mörg börn af erlendum uppruna lendi í erfiðleikum með að læra íslensku eru líka mörg dæmi um börn af erlendu bergi brotin sem eiga auðvelt með að læra málið. Þorkell Daníel Jónsson, skólastjóri Klébergsskóla, segir mörg barna af erlendu bergi í skólanum orðin svo fær í íslensku að það komi ekki í ljós að þau eigi sér annað móðurmál fyrr en nöfn þeirra eru lesin upp í kladdanum. Hann segir að í mörgum tilvikum sé íslenska ekki töluð á heimili nemenda í skólanum.