Dr. Trausti Sigurður Einarsson verkfræðiprófessor fæddist í Reykjavík 14.11. 1907. Hann var sonur Einars Runólfssonar, trésmíðameistara í Reykjavík, og k.h., Kristínar Traustadóttur húsfreyju.

Dr. Trausti Sigurður Einarsson verkfræðiprófessor fæddist í Reykjavík 14.11. 1907. Hann var sonur Einars Runólfssonar, trésmíðameistara í Reykjavík, og k.h., Kristínar Traustadóttur húsfreyju.

Trausti var kvæntur Nínu Thyru Þórðardóttur og eignuðust þau eina dóttur, Kristínu Höllu líffræðing.

Trausti lauk stúdentsprófi frá MR og doktorsprófi í stjörnufræði frá Háskólanum í Göttingen 1934. Trausti var kennari við MA 1935-44, kennari við verkfræðideild HÍ 1944-84 og prófessor þar í aflfræði og eðlisfræði 1945-1977. Auk þess hélt hann fjölda fyrirlestra og námskeiða í öðrum deildum, s.s. í jarðeðlisfræði.

Trausti stundaði margvíslegar rannsóknir á jarðmyndunum Íslands, s.s. á hverum, hveragosum, eldfjallagosum, móbergsmyndunum og bergsegulmagni og stundaði þyngdarmælingar. Hann hélt háskólafyrirlestra víða í Evrópu, s.s. í Hollandi, Köln í Þýskalandi, St. Andrews í Skotlandi og í London.

Trausti sinnti fjölda félagsstarfa á sviði vísindafélaga, sat í stjórn Verkfræðingafélags Íslands, var forseti Vísindafélags Íslendinga, stofnfélagi Jöklarannsóknarfélags Íslands og formaður þess, sat í stjórn raunvísindadeildar Vísindasjóðs, í Geysisnefnd og var stofnfélagi og annar formaður Jarðfræðafélags Íslands. Hann var kjörfélagi VFÍ, var veitt heiðursmerki félagsins, var heiðursfélagi Jarðfræðafélags Íslands, sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu og stórriddarakrossi.

Trausti var eljusamur, fjölmenntaður, fjölhæfur og oft umdeildur vísindamaður og afar áhugasamur kennari. Hann lagði ríka áherslu á sjálfstæði, efasemdir og gagnrýni vísindamanna og átti því stundum til að andæfa viðurkenndum kenningum, s.s. jarðflekakenningunni, til þess eins að vekja efasemdir og skapa rökræður sem svo aftur gætu styrkt kenninguna.

Trausti lést 26.7. 1984.