Morgunblaðið minntist aldarafmælis síns á dögunum, og óskuðu allir því til hamingju með daginn nema Egill Helgason, bókmenntagagnrýnandi Ríkisútvarpsins, sem hneykslaðist á því, að Pósturinn gæfi út frímerki af þessu tilefni.
Morgunblaðið minntist aldarafmælis síns á dögunum, og óskuðu allir því til hamingju með daginn nema Egill Helgason, bókmenntagagnrýnandi Ríkisútvarpsins, sem hneykslaðist á því, að Pósturinn gæfi út frímerki af þessu tilefni. Egill sagði ekkert, þegar Pósturinn gaf út frímerki á hundrað ára afmæli Vísis þremur árum áður, og hafði þó það dagblað hætt að koma út löngu áður! Skemmtilegt var í afmælishófinu að hitta gamla ritstjóra Morgunblaðsins , sem tóku mig í fóstur rösklega tvítugan, þá Styrmi Gunnarsson og Matthías Johannessen, þótt ekki hafi fóstursonurinn fylgt þeim í einu og öllu. En ekki er úr vegi á slíkum tímamótum að minnast Valtýs Stefánssonar, sem var ritstjóri Morgunblaðsins frá 1924 og allt til dánardags 1963. Valtýr var um leið einn aðaleigandi blaðsins og vakinn og sofinn í að bæta það og efla. Hann skildi við það stórveldi á íslenskan mælikvarða, eins og fram kemur í fróðlegri ævisögu hans eftir Jakob F. Ásgeirsson rithöfund.

Valtýr var búfræðingur að mennt, og fræg varð skýring hans í júní 1924 á því, hvers vegna hann sneri sér frá búnaðarstörfum. „Orsakir þessa verða aðallega raktar til starfsemi Jónasar Jónssonar frá Hriflu,“ skrifaði hann. „Þá er bændum landsins unninn mestur greiði, ef arfaflækja Hriflumannsins verður upprætt úr akri íslenskrar bændastéttar og bændamenningar.“ Þótt Jónas frá Hriflu væri um margt snjall og stórhuga, má ekki gleyma því, að eitur draup úr penna hans, auk þess sem hann misbeitti valdi sínu herfilega, um leið og hann fékk til þess tækifæri. Nauðsynlegt var það aðhald, sem Valtýr veitti honum í Morgunblaðinu .

Valtýr kom líka snemma auga á hættuna af kommúnismanum. Hann þýddi til dæmis og endursagði þegar árin 1924 og 1926 merkar greinar Antons Karlgrens, prófessors í slavneskum fræðum við Kaupmannahafnarháskóla, um kúgunina í Rússlandi strax eftir valdarán Leníns. Valtýr þýddi einnig frásagnir breska blaðamannsins Malcolms Muggeridges af hungursneyðinni í Úkraínu 1932-1934, og réðust íslenskir kommúnistar með Halldór Kiljan Laxness í fararbroddi á hann fyrir það. Þá birtist skáldsaga Ayns Rands um Rússland byltingarinnar, Kíra Argúnova , í íslenskri þýðingu í Morgunblaðinu 1949. En allt það, sem þau Karlgren, Muggeridge og Rand skrifuðu um Rússland Leníns og Stalíns, stóðst og hefur verið staðfest, meðal annars í Svartbók kommúnismans .

Þótt Valtýr ætti í hörðum deilum við þá Jónas Jónsson frá Hriflu og Halldór Kiljan Laxness, sem báðir voru ósjaldan stóryrtir í garð hans, komst hann óskemmdur á sálinni frá þeim deilum, enda gat hann sagt með Páli postula: „Ég hef barist góðu baráttunni, hef fullnað skeiðið, hef varðveitt trúna.“

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is