Ég hef oft furðað mig á því, að eitthvert skáldanna okkar skuli ekki hafa skrifað ástar- eða glæpasögu, sem gerðist um borð í Gullfossi, til dæmis á leið til Kaupmannahafnar eitthvert haustið á sjötta eða sjöunda áratug síðustu aldar með fyrirfólk á fyrsta farrými og fátæka námsmenn á hinu þriðja. Tími og staður eru þægilega afmarkaðir, mörg tækifæri til að falla í freistni og hægt að skrifa ýmsa eftirminnilega einstaklinga inn í söguna.
Skip Eimskipafélagsins, sem báru nafnið Gullfoss, voru tvö. Hið fyrra var tekið í notkun 1915 og var þá sýnt bæjarbúum. Maður austan úr sveitum, sem staddur var í Reykjavík, notaði tækifærið til að skoða hinn nýja farkost. Hann var illa búinn með kúskinnsskó á fótum og ullartrefil um háls, ófríður og vambmikill. Um borð sá hann sjálfan sig í spegli í fyrsta skipti á ævinni. Honum varð að orði: „Sá hefur ekki kvalið sig. En andskoti er hann ljótur!“
Gullfoss hinn síðari var tekinn í notkun 1950. Einn fastagesturinn varð rithöfundurinn Halldór Kiljan Laxness. Einn laugardaginn árið 1956 hafði loftskeytamaður skipsins stillt á Ríkisútvarpið, þegar flutt voru óskalög sjúklinga. Ekki leið á löngu, þangað til Laxness mælti upp úr eins manns hljóði: „Hvernig er það, verður aldrei neinn músíkalskur maður veikur á Íslandi?“
Margir nýttu sér, að áfengisverð var lágt um borð. Þingmönnunum Barða Guðmundssyni þjóðskjalaverði og Gunnari Thoroddsen borgarstjóra þótti báðum gott í staupinu. Eitt sinn sagði Barði við Gunnar, þegar þeir voru báðir staddir í vínstúku skipsins: „Maður er bara kominn á Gunnarshólma!“ Gunnar svaraði mjúklega: „Ætli það sé ekki frekar Barðaströnd?“ Festist það nafn við vínstúkuna.
Einn fastagesturinn um borð í Gullfossi hinum síðari var Ásbjörn Ólafsson heildsali, sem jafnan tók á leigu gistiíbúð (svítu) skipsins. Hann drakk oft ótæpilega á leiðinni út. Ásbjörn var aðdáandi Einars skálds Benediktssonar og kunni utan að langa kafla úr ljóðum hans. Eitt sinn hét hann sex flöskum af viskí á Alfreð Flóka myndlistarmann, gæti hann farið með „Einræður Starkaðar“ eftir Einar. Annar heildsali í farþegahópnum vildi ekki vera minni maður og bauð öllum „einfaldan á línuna“, sem merkir einn sterkan drykk á mann. „Þá gef ég tvöfaldan á línuna,“ svaraði Ásbjörn að bragði. „Tvær flöskur á línuna,“ sagði hinn heildsalinn. Þá gall í Ásbirni: „Þrjár flöskur af viskí á línuna og kassa fyrir borð handa háköllunum!“
Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar
Hannes H. Gissurarson
hannesgi@hi.is