Gunnar Bragi Sveinsson
Gunnar Bragi Sveinsson
Eftir Gunnar Braga Sveinsson: "Tollverndin er ætluð til að jafna samkeppnisstöðu innlendrar framleiðslu gagnvart erlendri og er þannig vernd fyrir innlenda starfsemi eins og nafnið gefur til kynna."

Tollvernd er hluti af utanríkisstefnu stjórnvalda á hverjum tíma. Þetta fyrirkomulag er ekki bundið við Ísland, heldur er þetta almennt fyrirkomulag í flestum löndum, einkanlega í Vestur-Evrópu. Meginreglan er sú að innflutningur á vörum er að jafnaði heimill, en tollar eru stundum lagðir á til að jafna samkeppnisstöðu innlendrar framleiðslu. Oftast er rætt um tolla í samhengi við innflutning á landbúnaðarvörum en tollar eru lagðir á fleiri vöruflokka. Áætlað er að þeir skili rúmlega fjögurra milljarða króna tekjum í ríkissjóð á yfirstandandi ári, eða 0,8% af ríkistekjum. Í landbúnaði geta til dæmis lagst tollar á rúm 37% af vörum í tollskrá sem skilgreindar eru sem landbúnaðarvörur. Fjölmargar landbúnaðarvörur eru samhliða fluttar inn tollfrjálst; allar kornvörur, ávextir, pasta, hrísgrjón, sykur, kaffi og margt fleira.

Eigi að endurskoða tollvernd þarf að meta fyrirfram hvaða áhrif einstakar breytingar hafa. Tollverndin er ætluð til að jafna samkeppnisstöðu innlendrar framleiðslu gagnvart erlendri og er þannig vernd fyrir innlenda starfsemi eins og nafnið gefur til kynna. Þeirri starfsemi tengist fjöldi fyrirtækja og starfa um land allt, bæði í dreifbýli og þéttbýli, og skipta íslenskt samfélag verulegu máli. Breyting á einum stað hefur áhrif á öðrum, þótt tollverndin sé misjafnlega mikilvæg fyrir einstakar greinar landbúnaðarins. Tollverndin skiptir til dæmis kjúklinga- og svínabændur mun meira máli en sauðfjárbændur ef horft er á greinarnar eins og þær standa í dag. Ef horft er á þær saman kemur hins vegar fljótt á daginn að afnám tollverndar á kjúklingi og svínakjöti hefði veruleg áhrif á kjötmarkaðinn í heild og þar með sauðfjárbændur.

Í einni af skýrslum utanríkisráðuneytisins sem unnin var í tengslum við aðildarumsókn Íslands að ESB var því spáð að innanlandsmarkaður fyrir lambakjöt myndi dragast saman um 38% ef Ísland gengi í sambandið. Ekki vegna stórfellds innflutnings á erlendu lambakjöti, heldur vegna þess að innflutt svína- og kjúklingakjöt myndi ryðja því af markaðnum. Það hefði svo aftur veruleg áhrif á afurðastöðvar og vinnsluaðila og þau störf sem þeim tengjast.

Þetta þarf að hafa í huga þegar tollverndin er tekin til skoðunar. Eðlilegt er að gera þá kröfu að þeir sem njóta hennar misnoti hana ekki og þar með traust neytenda. Hins vegar verður líka að gera þá kröfu að breytingar séu ekki gerðar án þess að nokkur tilraun sé gerð til að meta heildaráhrifin.

Rétt er að ítreka að aðstæður á Íslandi til búvöruframleiðslu eru að mörgu leyti einstakar. Landrými er mikið, gnægð af vatni og fáir sjúkdómar landlægir ef miðað er við þau lönd sem við gjarnan berum okkur saman við. Notkun hormóna er bönnuð og lyfjanotkun afar lítil. Fram kemur í nýrri skýrslu frá Lyfjastofnun Evrópu að sýklalyfjanotkun í dýrum hérlendis er sú næstminnsta í Evrópu. Aðeins Noregur er neðar. Þar sem notkunin er mest er hún 65-föld miðað við Ísland. Að þessu öllu þurfum við að gæta því ef þessari stöðu verður spillt er engin leið til baka.

Höfundur er utanríkisráðherra og 1. þingmaður NV-kjördæmis.