Ásta Sigríður Eiríksdóttir hjúkrunarfræðingur fæddist 16. júní 1894 í Miðdal í Mosfellssveit.

Ásta Sigríður Eiríksdóttir hjúkrunarfræðingur fæddist 16. júní 1894 í Miðdal í Mosfellssveit. Foreldrar hennar voru Eiríkur Guðmundsson bóndi þar, síðar trésmiður í Reykjavík, sonur Guðmundar Einarssonar hreppstjóra í Miðdal og Vigdísar Eiríksdóttur, og Vilborg Guðnadóttir dóttir Guðna Guðnasonar bónda á Keldum í Mosfellssveit og Ástríðar Finnsdóttur.

Sigríður stundaði nám í Verzlunarskóla Íslands og vann skrifstofustörf 1910-1918. Þá venti hún kvæði sínu í kross og hóf hjúkrunarnám við Kommunehospital í Kaupmannahöfn og lauk því 1921. Hún stundaði síðan framhaldsnám í geðhjúkrun við Sct. Hans Hospital í Hróarskeldu veturinn 1921-1922 og síðan í sex mánuði í Vínarborg.

Sigríður varð formaður Félags íslenskra hjúkrunarkvenna árið 1924 og var formaður þess í 36 ár. Hún var einnig formaður Hjúkrunarfélags Líknar 1930-1955 og var fyrsti Íslendingurinn sem var formaður SSN sem er Samvinna hjúkrunarfræðinga á Norðurlöndunum. Sigríður var mörg ár stundakennari í heilsufræði og hjúkrun við Kvennaskólann og Húsmæðraskólann. Hún var varabæjarfulltrúi í Reykjavík 1950-1954 og fulltrúi í Heimsfriðarráðinu. Hún var sæmd Florence Nightingale-orðunni sem er heiðursmerki Alþjóða Rauða krossins og hún var einnig sæmd riddarakrossi fálkaorðunnar.

Í minningargrein um Sigríði segir: „hún var frábær atorkukona, sem vann af lífi og sál að áhugamálum sínum og lét ekkert aftra sér, er um nauðsynjamál var að ræða, sem snerti þjóð hennar“.

Eiginmaður Sigríðar var Finnbogi Rútur Þorvaldsson, f. 22.1. 1891, d. prófessor í verkfræði við HÍ. Foreldrar hans voru Þorvaldur Jakobsson, prestur í Sauðlauksdal, og Magdalena Jónasdóttir. Sigríður og Finnbogi Rútur eignuðust tvö börn, Vigdísi, f. 15.4. 1930, forseta, og Þorvald, f. 21.12. 1931, d. 2.8. 1952, stúdent.

Sigríður lést 23.3. 1986.