Sigurlaug Guðrún Gunnarsdóttir, Silla Gunna, fæddist 9.10. 1933 að Víðivöllum í Blönduhlíð. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Skagafjarðar 8.7. 2014.

Foreldrar hennar voru Gunnar Jóhann Valdimarsson, f. 16.6. 1900, d. 18.10. 1989 og Amalía Sigurðardóttir, f. 25.5. 1890, d. 14.6. 1967. Systkini hennar sammæðra voru Sigrún frá Flugumýri, Árni frá Viðimel, Hólmfríður frá Úlfsstöðum og Gísli frá Viðivöllum, öll eru þau látin. Faðir þeirra var Jón Kristbergur Árnason en hann lést 1926. Þann 31.12.1953 giftist Silla Gunna, Sigtryggi Bergþóri Pálssyni, f. 13.5. 1931, d. 5.1. 1964. Foreldrar Sigtryggs voru þau Marvin Páll Þorgrímsson, f. 25.3. 1893, d. 5.5.1965 og Pálína Bergsdóttir, f. 17.4. 1902, d. 3.7.1985.

Þau eignuðust þrjár dætur: 1) Ingibjörg, f. 1955, gift Gunnari S. Steingrímssyni, f. 1948, synir þeirra eru Garðar Víðir, f. 1981, unnusta hans er Marie-Odile Désy, Hjörtur f. 1991 og Sigþór f. 1991, unnusta hans er Sara Líf Óðinsdóttir, dóttir þeirra er Rebekka Lárey, f. 2014. 2) Brynhildur, f. 1957, gift Ómari Kjartanssyni, f. 1958, börn þeirra eru Anna María, f. 1979, gift Hermanni Halldórssyni, synir þeirra eru Patrik, f. 2002 og Henrik, f. 2005, Kjartan, f. 1982, unnusta hans er Jóhanna Lilja Hólm, sonur þeirra er Ómar Jón, f. 2013. 3) Guðrún, f. 1959, gift Þorsteini Ólasyni, f. 1953, börn þeirra eru Sylvía Rut, f. 1982 og Tryggvi Rúnar, f. 1990, unnusta hans er Helena Konráðsdóttir, sonur þeirra er Júlían Ari f. 2013. Þann 23.12. 1967 giftist Silla Gunna eftirlifandi eiginmanni sínum, Garðari Víði Guðjónssyni, f. 23.8. 1932. Foreldrar hans voru Guðjón Jónsson, f. 27.1. 1902, d. 30.7. 1972 og Valborg Hjálmarsdóttir, f. 1.5. 1907, d. 27.9. 1997. Dóttir Sigurlaugar og Garðars Víðis er Vala Jóna, f. 1969, gift Viðari Þórðarsyni, f. 1972, börn þeirra eru Lilja Sól, f. 2000 og Dagur Ingi, f. 2003.

Silla Gunna var alin upp á kirkjustaðnum Víðimýri og á Víðimel í Skagafirði. Að lokinni hefðbundinni barnaskólagöngu fór hún til náms á Húsmæðraskólann á Löngumýri. Hún starfaði hjá Kaupfélagi Skagfirðinga, sjúkrahúsinu á Sauðárkróki og á saumastofu. Árið 1979 hóf hún störf hjá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, fyrst sem aðstoðarkona í mötuneyti og síðar sem matráðskona allt til ársins 2001 þegar hún fór á eftirlaun. Hún sinnti ýmsum félagsstörfum þ.á m. var hún ein af stofnendum Lionessuklúbbsins Bjarkar, starfaði í kvenfélagi Seyluhrepps og var félagi í kór eldri borgara. Silla Gunna tók virkan þátt í kirkjustarfi, var um árabil í sóknarnefnd Sauðárkrókskirkju og vann ötult starf meðal safnaðarkvenna.

Útför Sillu Gunnu fer fram frá Sauðárkrókskirkju í dag, 22. júlí 2014, kl. 14.

Í dag kveðjum við mömmu okkar með sorg í hjarta.

Við systurnar og fjölskyldur okkar erum svo lánsöm að hafa átt þig að. Þú varst einstök kona og það sem einkenndi þig var dugnaður, ósérhlífni og hjálpsemi, þú hugsaðir alltaf fyrst um aðra.

Þú lagðir mikið upp úr því að halda fjölskyldunni saman og fastur liður í því var sunnudagskaffið hjá þér þar sem borðið svignaði undan kræsingum. Þegar þið komuð suður var alltaf kaffi eða matarboð í Fensölum fyrir sunnanfólkið.

Elsku mamma, síðastliðið ár var þér erfitt vegna veikinda, þú kvartaðir ekki mikið en við vissum að oft varstu mjög kvalin. Við reyndum eftir fremsta megni að styðja þig og Garðar var eins og klettur þér við hlið.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt.

Þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta,

þá sælt er að vita af því

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti,

þá auðnu að hafa þig hér

og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer.

Þó þú sért horfin úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Hvíldu í friði, elsku mamma.

Þínar dætur,

Ingibjörg, Brynhildur,

Guðrún og Vala Jóna.

Í dag kveð ég með söknuði elskulega tengdamóður mína. Kynni okkar hófust fyrir röskum fjörutíu árum er ég kom norður á Sauðárkrók með elstu dótturinni. Var mér tekið eins og Silla Gunna tók öllum, með hlaðborði af mat, kaffi og meðlæti. Er við hjónin síðan fluttum norður 1981 urðu samskipti okkar eðlilega mikil og góð. Fórum við talsvert með þeim hjónum í ferðalög, ýmist í tjaldútilegur og eða í sumarhús. Þegar þau hófust handa við byggingu sumarbústaðar í landi Víðiness í Hjaltadal var mikið dvalið þar við byggingu hússins og var aldrei skortur á mat og drykk. Var oft glatt á hjalla, bæði í ferðalögunum og í bústaðnum. Helgaði hún sig uppgræðslu og umhirðu landsins í kringum bústaðinn Lyngás og er unun að koma og sjá afrakstur starfs hennar og Garðars. Er það nú komið í hendur yngstu og elstu dætranna að fylgja eftir því góða starfi. Mun hún vafalaust fylgjast með að því verði haldið áfram. Hvíl þú í friði, Silla Gunna, og hafðu þökk fyrir allt og allt.

Dal einn vænan ég veit,

verndar Drottinn þann reit.

Allt hið besta þar blómgast hann lætur.

Þar er loftið svo tært,

þar er ljósblikið skært. –

Þar af lynginu er ilmurinn sætur.

(Hugrún)

Gunnar.

Elsku amma.

Við söknum þín mjög mikið og eigum oft eftir að hugsa til þín. Við gerðum svo margt skemmtilegt saman og þú varst alltaf svo góð við okkur. Þú varst alltaf að gera eitthvað, alveg ótrúlega dugleg og góðhjörtuð kona. Við elskum þig og skulum vera dugleg að hjálpa afa.

Nú ert þú sofnuð elsku amma mín

og andi þinn til Drottins hæða liðinn

og nú er komin kyrrð um hvílu þín

með hvíld og ró og þráða hjartans

friðinn.

En þegar allt er orðið kyrrt og hljótt

og aðeins tárin hrynja mér af hvörmum

þá sit ég ein og segi góða nótt

og sé þig hvíla á Drottins náðarörmum.

(Höf. óþ.)

Þín

Lilja Sól og Dagur Ingi.