Sigrún Grendal, Baba Bangoura og Ísak Fode Bangoura, fjögurra ára.
Sigrún Grendal, Baba Bangoura og Ísak Fode Bangoura, fjögurra ára. — Ljósmynd/Akrar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Allir þekkja ungbarnasund og mömmuleikfimi en það er líka til hreyfing sem foreldrar geta stundað með eldri börnum og átt ánægjulega samveru. Inga Rún Sigurðardóttir ingarun@mbl.is

Allir þekkja ungbarnasund og mömmuleikfimi en það er líka til hreyfing sem foreldrar geta stundað með eldri börnum og átt ánægjulega samveru.

Inga Rún Sigurðardóttir ingarun@mbl.is

Læra að tryggja barnið

Klifurhúsið byrjar í haust með námskeið sem ætluð eru börnum og foreldrum. Annað námskeiðið er fyrir 5-6 ára börn og hitt fyrir 7-8 ára. „Þá er þetta hugsað þannig að það mæti allavega einn aðili með þeim en það mega vera tveir. Þeir læra að klifra saman og að fara í línuklifur. Foreldrarnir læra að tryggja barnið sitt við klifur,“ segir Stefanía Ragnarsdóttir, rekstrarstjóri Klifurhússins.

Þarna gefst líka tækifæri til að læra á salinn, klifurleiðirnar og umgengnisreglur. Klifrið skiptist í grjótglímu, en þá er klifruð leið sem er stutt en erfið, og hins vegar línuklifur.

Þetta er í fyrsta sinn sem námskeið af þessu tagi er haldið. „Krakkar sem koma sterkir inn í íþróttina byrja oft með foreldrum sínum,“ segir Stefanía og er hugmyndin ekki síst komin til vegna þess. Hún segir líka tækifæri hafa gefist fyrir svona námskeiðshald nú vegna þess að Klifurhúsið er flutt í Ármúla, í helmingi stærra húsnæði en áður, sem bjóði upp á meiri möguleika.

„Þetta er líka tilvalin íþrótt fyrir fjölskyldu að stunda saman. Það er hægt að stunda klifur bæði inni og úti, yfir sumar og vetur, á Íslandi og í útlöndum,“ útskýrir hún.

Klifur er líka hægt að stunda saman þótt fólk hafi misjafna getu. „Hérna inni eru leiðirnar allar mismunandi og þá er hægt að vera að klifra saman vegg en á mismunandi erfiðleikastigi.“

Allir prófa eitthvað framandi

Krakkaafró er nýtt námskeið fyrir börn á aldrinum 4-6 ára með foreldri í Sporthúsinu. Sigrún Grendal kennir á námskeiðinu en Baba Bangoura trommar. Fyrsti tíminn er laugardaginn 13. september. Sigrún hefur kennt afrískan dans í mörg ár, hún hefur um árabil starfrækt Afróskóla Sigrúnar Grendal en þetta er í fyrsta skipti sem hún heldur námskeið sérstaklega fyrir börn. Sigrún hlakkar mjög til þess að fá tækifæri til að kenna börnum og foreldrum saman. Hún hefur þó heimsótt leikskóla við góðar viðtökur og hefur séð hversu vel krakkarnir bregðast við tónlistinni og dansinum.

„Þetta verður mjög spennandi og ég hlakka til. Það er búið að þrýsta á okkur í mörg ár að gera þetta,“ segir Sigrún, sem hefur ekki farið út í þetta fyrr vegna anna en hún vinnur sem talmeinafræðingur á daginn og dansar á kvöldin og því ekki mikið um frítíma. Hún er ennfremur menntaður leikskólakennari, sem er líka góður bakgrunnur fyrir námskeiðið.

Hún vonast til þess að námskeiðið geti orðið gæðastund fyrir barnið og foreldri, jú eða ömmu eða afa.

„Markmiðið er að eiga gæðastund saman þar sem allir eru að prófa eitthvað framandi. Mér hefur fundist þetta vanta inn í flóruna. Við erum með lifandi trommur og dansinn og tónlistin vinna alveg saman. Börnin læra að hlusta á trommuna og duttlunga hennar og hvernig hægt er að hreyfa sig á mismunandi hátt eftir hljómfalli hennar,“ segir hún en lögð er áhersla á gleði, frelsi, sköpun og leikræna tjáningu. „Krakkarnir bæði elta mig og eru að spinna sjálf og finna gleðina. Þau fá nánd við frumdansinn og frumtónlistina. Það eru allir berfættir og þau eiga bara að gleyma sér í því að hlusta á trommarann og mig og ekkert að spá í neitt annað. Það geta allir dansað með á sínum forsendum.“