Bríet fæddist í Reykjavík 14.10. 1935 og ólst þar upp. Hún var dóttir Héðins Valdimarssonar, alþm., forstjóra og formanns Dagsbrúnar, og þ.k.h., Guðrúnar Pálínu Pálsdóttur, söngkennara í Reykjavík.
Bríet fæddist í Reykjavík 14.10. 1935 og ólst þar upp. Hún var dóttir Héðins Valdimarssonar, alþm., forstjóra og formanns Dagsbrúnar, og þ.k.h., Guðrúnar Pálínu Pálsdóttur, söngkennara í Reykjavík.

Systir Héðins var Laufey Valdimarsdóttir sem lauk stúdentsprófi fyrst íslenskra kvenna, formaður Kvenréttindafélags Íslands, en meðal bræðra Guðrúnar voru Hreinn, óperusöngvari og forstjóri BP, og Gestur, lögfræðingur og leikari.

Dætur Bríetar og Sigurðar Arnar Steingrímssonar: Sigríður Laufey fiðluleikari og Guðrún Theódóra sellóleikari, en dóttir Bríetar og Þorsteins Þorsteinssonar er Steinunn Ólína leikkona.

Bríet lauk stúdentsprófi frá MR 1954, stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík, nám í enskum og þýskum bókmenntum og leiklist í Vínarborg og lauk prófum frá Leiklistarskóla Þjóðleikhússins 1962.

Bríet lék á níunda tug hlutverka á leikferli sínum, langflest við Þjóðleikhúsið. Þangað réðst hún 1966 og var þar lengst af fastráðin, auk þess sem hún var þar leikstjóri um skeið. Meðal þekktari hlutverka hennar má nefna Sonju í Vanja frænda eftir Tjekhov, og Maríu í Þjófar, lík og falar konur, eftir Dario Fo, bæði hjá LR. Hjá Þjóðleikhúsinu lék hún m.a. Holgu í Eftir syndafallið, eftir Miller, Katrínu í Mutter Courage, eftir Bertolt Brecht, og Elísabetu drottningu í Maríu Stuart. Auk þess lék hún hjá frjálsum leikhópum, lék í fjölda útvarpsleikrita og nokkuð í sjónvarpsmyndum og kvikmyndum. Hún var leikstjóri um árabil, setti upp verk hjá öllum atvinnuleikhúsunum og stjórnaði útvarpsleikritum og hjá Íslensku óperunni.

Bríet samdi leikgerðir eftir íslenskum skáldverkum, s.s. Atómstöðina, eftir skáldsögu Halldórs Laxness, Jómfrú Ragnheiði, eftir Skálholti Kambans og Svartfugl, eftir skáldsögu Gunnars Gunnarssonar. Þá samdi hún Strá í hreiðrið, bók um ömmu sína, Bríeti Bjarnhéðinsdóttur.

Bríet lést 26.10. 1996.