Bráðfyndin Stíllinn í bók Guðna Líndal er sagður skemmtilegur og söguþráðurinn prýðilegur. „Útkoman er ljómandi gott flæði og góð skemmtun, bæði fyrir börn og fullorðna.“
Bráðfyndin Stíllinn í bók Guðna Líndal er sagður skemmtilegur og söguþráðurinn prýðilegur. „Útkoman er ljómandi gott flæði og góð skemmtun, bæði fyrir börn og fullorðna.“ — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Guðna Líndal Benediktsson. Vaka-Helgafell, 2014. 184 bls.
Það er kúnst að skrifa knappan stíl en víst er að enn meiri kúnst er að skrifa knappan stíl í barnabók. Það tókst þó með eindæmum vel hjá hinum unga höfundi, Guðna Líndal Benediktssyni, í bókinni Leitin að Blóðey . Þetta er fyrsta bók höfundar og varð bókin sú tuttugasta og áttunda í röð barnabóka til að hljóta Íslensku barnabókaverðlaunin. Bókin er vel að verðlaununum komin því sem fyrr segir er ritstíllinn skemmtilegur og söguþráðurinn prýðilegur. Útkoman er ljómandi gott flæði og góð skemmtun, bæði fyrir börn og fullorðna.

Sagan segir frá Kristjáni, ungum dreng sem er sendur í rúmið snemma kvölds, Kristjáni til mikils ama og almennra leiðinda. Inn í herbergið laumast þá afi Kristjáns sem er sammála drengnum um að það sé bölvaður dónaskapur að vera sendur svo snemma í háttinn. Þess vegna trúir afi barnabarninu fyrir sögu sem eiginlega ekki má segja upphátt. Svo svakaleg er sagan af því þegar ömmu var rænt um árið!

Strax á fyrstu síðum bókarinnar tekst höfundi að byggja upp spennu í ótrúlegu ævintýri. Við sögu koma ýmsar furðuverur sem búa til dæmis undir gamla hesthúsasvæðinu í Kópavogi, já, fyrir neðan Glaðheima. Fullorðnir kveikja ef til vill á perunni þegar hestur trítlar fram á sögusviðið á þessum umdeilda stað og fer með afa gamla undir yfirborð jarðar. Þó er ekki pólitískur undirtónn í bókinni, sem ætluð er börnum á aldrinum 7-12 ára heldur er glaðlegur tónn í þessu öllu saman og lífsgleðin sjálf skín í gegn.

Persónusköpunin er einkar góð og vel tekst höfundi að gefa til kynna efa barnsins sem hlustar með óttablandinni virðingu á sögur afans. Segja afar ekki alltaf satt? Það er kannski aukaatriði, aðallega í skáldsögu. Samt er gaman að sjá hvernig fræjum efasemdar er sáð án þess þó að það komi fram með berum orðum. Bókin er bráðfyndin og skellti undirrituð oft upp úr þegar sagan var lesin upphátt fyrir 6 ára pilt – fyrir háttinn. Sá stutti hló ekki síður, þó svo að við hlægjum ekki alltaf á sömu stöðum.

Teikningarnar í bókinni eru fáar. Aðeins er ein teikning fyrir ofan hvern kafla og er það alveg nóg því frásagnarstíllinn örvar ímyndunaraflið verulega. Þá hlýtur einu markmiðinu nú að vera náð – að lesendur hafi atburðarásina fyrir hugskotssjónum án mikillar hjálpar. Heiðurinn af myndskreytingunum á Ítalinn Ivan Cappelli. Eftir lestur bókarinnar má segja að hægt sé að sjá höfuðborgarsvæðið í nýju ljósi og það getur maður gert með blik ævintýra í auga, sem er sannarlega nauðsynlegt að geta gert hvort heldur sem maður er fullorðinn eða barn.

Malín Brand