— AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ef þistillinn táknar reynslu nýlenduyfirvalda af viðureignum við íslömsk ættarsamfélög þá telur pakistanski mannfræðingurinn Akbar Ahmed að drónið sé táknmynd reynslu þessara samfélaga af hnattvæðingu.

Sarah Brownsberger

sarahbrownsberger@hotmail.com

Í skáldsögu sinni Hadji Murad (útgefin 1912) um landnám Rússa í Kákasus-fjöllum, líkir Leo Tolstoj því að nema land af hefðbundnu íslömsku ættarsamfélagi við það að tína þistil: maður stendur eftir með sára hönd, lemstraðan stilk, og dáið blóm.

Ef þistillinn táknar reynslu nýlenduyfirvalda af viðureignum við íslömsk ættarsamfélög þá telur pakistanski mannfræðingurinn Akbar Ahmed að drónið sé táknmynd reynslu þessara samfélaga af hnattvæðingu: „Fyrir íslömsk ættarsamfélög bar nútíminn í skauti sér lækkun um stétt í þriðjaflokksborgara, stöðuga niðurlægingu af hendi hrokafullra og spilltra yfirvalda í þágu [fjarlægra] miðstjórna, og hjálparleysi gagnvart bælingu tungumála og menningar forfeðranna og yfirtöku ævafornra landeigna – en hnattvæðing hefur reynst þeim miklu verr.“ (342) Eftir 11. september 2001 voru þessi samfélög upp til hópa sökuð um aðild að heimssamsæri og í skugga þess hafa þau þolað mun miskunnarlausari kúgun.

Akbar Ahmed rannsakar „þistla“ um allan heim: samfélög sem hafa aldrei lotið miðlægri stjórn til fulls en haldið áfram að stjórnast af ættarhöfðingjum. Sjálfur er Ahmed sonur súfísks friðarsinna sem vann hjá breskri nýlendustjórn, en hann hefur búið m.a. í Waziristan og giftist inn í menningu puktúna. Nú er hann Ibn Khaldun-prófessor í íslömskum fræðum við American University í Washington D.C.

Bækur, sem Brookings Institution gefur út, eru stundum sagðar sniðnar fyrir önnum kafna vestræna ráðamenn en þessi bók er skrifuð frá sjónarhóli sem fáir Vesturlandabúar kunna nokkur skil á. Bókin er einmitt neyðarkall eftir skilningi: Ahmed sér fram á „raunverulegan möguleika á að heil tegund af mannlegu samfélagi sé í útrýmingarhættu“. (358)

Frá Gambíu til Filippseyja

Ahmed rissar upp sögu 40 íslamskra ættarsamfélaga síðustu 200 ár og er sú saga hörmuleg. Heimurinn hefur þegar gleymt umfangi mannskaðans í „leiknum mikla“, baráttunni milli Rússlands, Kína, og Bretlands um að ná völdum yfir Mið-Asíu á 19. öld og grimmd Frakka, Tyrkja, Ítala, Spánverja, Portúgala, Belga, Hollendinga og Þjóðverja í nýlendum sínum fram á miðja 20. öld. Margar milljónir dóu. (357) Ein ljósmynd í bókinni tekin stuttu eftir 1920 sýnir spænska hermenn sem halda á lofti afskornum höfðum manna af ættbálki Berba, en Alfons Spánarkóngur hafði fyrirskipað herferð til „útrýmingar óðra skepna“. (167) Hausarnir prýddu síðan staura til að hræða almúgann, rétt eins og ISIS samtökin eru sögð hafa gert nýlega.

Þó finnst Ahmed að „stríðið gegn hryðjuverkum“ hafi reynst þessum hópum skaðlegast.

Þótt Bandaríkin hafi áður stutt baráttu íslamskra ættarsamfélaga fyrir sjálfstjórn í ýmsum löndum, „féllu Bandaríkin í það hlutverk að vera hnattræn miðstjórn yfir íslömskum jaðarsamfélögum um alla veröld“ strax eftir 11. september og vildu aðstoða við að koma reglu á „stjórnlaus svæði“ sem gætu verið bækistöðvar hryðjuverkasveita. (259) Þetta olli hörmungum hjá íslömskum ættarsamfélögum á þrennan hátt:

1) Strax hófst glundroðakennd samvinna milli leyniþjónustna, lögreglu, og herafla margra landa um að framselja meinta hryðjuverkamenn til yfirheyrslu [rendition]. Afleiðingarnar endurspeglast vel í örlögum nokkurra flóttamanna af þjóðflokki uigura frá Xinjiang héraði í Kína sem höfðu komið sér upp þorpi í Afghanistan. Þeir stunduðu lítilsháttar herþjálfun og þótt þeir virðist ekki hafa átt nema örfáa byssuræfla héldu Bandaríkjamenn að þeir tilheyrðu al Qaeda og sprengdu þorpið. Hópurinn flúði vopnlaus til Pakistans. Þar var þeim fyrst tekið opnum örmum en svo voru 22 framseldir gegn verðlaunafé. Pakistönsk yfirvöld afhentu þá bandarískum yfirvöldum sem síðan leyfðu kínverskum yfirvöldum að „yfirheyra“ þá í Guantanamo. Það liðu nokkur ár þangað til Bandaríkin viðurkenndu að þau hefðu engar ákærur gegn þeim. Barack Obama vildi veita þeim hæli en hægri þingmenn neituðu. (276-77)

2) Árásirnar 11. september voru notaðar til að afsaka hvers kyns árásir á „þistla“ margra þjóða, með aðgerðum sem vestræn ríki hefðu áður mótmælt eða hindrað. Vopnasala jókst og leiddi til spilltra samskipta. Ahmed tekur Pervez Musharraf, fyrrverandi forseta Pakistans, sérstaklega fyrir út af misnotkun hans á aðstæðunum en tekur líka dæmi frá Malaví, Líbíu, Gambíu, Alsír, Úsbekistan og fleiri stöðum. Þegar stjórnin í Kartúm, höfuðborg Súdans, vildi yfirtaka landsvæði Nuba-þjóðflokkanna til að fá yfirráð yfir olíulindum var ættarsamfélag þeirra strax orðið að „hryðjuverkamönnum“. Þó var þetta í raun opinber tilraun til þjóðarmorðs: í myndbandi sem sýnt var í al Jazeera 2011 skipar herforingi mönnum sínum: „Komið ekki til baka með lifandi fanga ... Étið þá hráa.“ (191)

3) Nú er skollið á drónastríð. Menn vonuðu að drón væru leið til að heyja stríð án mikillar eyðileggingar og mannfalls í röðum óbreyttra borgara; en með því að gangast við „aftökum“ með drónum hefur alþjóðasamfélagið leyft leyniþjónustum og leiðtogum að dæma menn til dauða án dóms og laga. Bandarískar rannsóknir hafa leitt í ljós gífurlega mikla áfallaröskun í Waziristan í Pakistan út af drónum (86) og pakistanskar heimildir gefa til kynna að í árásum með drónum falli tugir óbreyttra borgara fyrir hver einn meintan hryðjuverkamann. (85)

Leiðin til friðar?

Ahmed segir að notkun dróna veki sérstaka hneykslun hjá ættarsamfélögum: það er hræsni að senda tæki til að drepa óvin og guðlast að setja auga á himininn. (2) Hann sýnir hvernig Osama bin Laden efndi til jíhads — heilags stríðs — með því að höfða til heiðurskerfis og hefndarskyldu jemensks ættarsamfélags síns en gróf um leið undan hefðbundnum menningaröflum sem stilltu til friðar í slíkum samfélögum — stjórn öldunga sem höfðu það hlutverk að binda enda á hefndarvígaferli, íslömskum yfirvöldum sem studdu miskunnsemi og stríðsreglur, og þeim aðilum sem höfðu staðið í því að reyna að vinna með stjórnvöldum.

Ahmed finnst að leiðin til friðar liggi í því að styrkja og vinna með þessum jákvæðu öflum, öldungaráðum og klerkum. Það er sláandi að í einu tilfelli í stríðinu í Afganistan þar sem Bandaríkjaher lagaði sig að heiðurskerfi hefðbundinna íslamskra ættarsamfélaga, náðist mikill árangur í því að stilla til friðar – meira að segja í Konar-héraði þar sem talibanar og útlenskir jíhad-hermenn af ýmsu tagi höfðu náð djúpum tökum.

Í American Spartan lýsir Ann Scott Tyson hvernig Jim Gant, major í Bandaríkjaher, fékk leyfi hersins til að fara með sérvalda sveit upp í fjöllin og mynda fölskvalaus tryggðarbönd og gera varnarsamninga við íbúa samkvæmt hefðbundnum leikreglum. Gant gekk í hefðbundnum fötum, lærði kurteisisreglur, bannaði sínum mönnum að raka sig, fékk öldunga svæðisins á sitt band og sannaði sig í mörgum erfiðum eftirlitsferðum til að vernda svæði ættarsamfélaganna.

Gant tókst að minnka verulega yfirráðasvæði talibana og annarra samtaka en þurfti að kljást við vantrú og skrifræði hjá eigin heryfirvöldum. Smátt og smátt veiktust sambönd hans innan hersins og heima fyrir var stuðningur við stríðið að dvína. Gant var þegar kominn í vandræði með að standa við loforð við bandamenn sína þegar einhver klagaði hann: Tyson, höfundur bókarinnar, var farin að búa með honum í fjöllunum og meira að segja að fara með í eftirlitsferðir. Gant var rekinn úr hernum.

Endurteknar martraðir

Það er sterk reynsla að lesa bók Ahmeds meðan samtökin ISIS heyja grimmilegt stríð í Sýrlandi, Írak og víðar og hafa lýst yfir stofnun íslamsks kalífats. Var Ahmed ekki að draga í efa að alþjóðlegt samsæri væri til staðar? Hann lýsir hvorki hatursáróðri herskárra íslamskra samtaka né blóði, sorg, og hræðslu óbreyttra borgara eftir sprengjuárásir hryðjuverkamanna, þótt mun fleiri hafi dáið af þeim en drónasprengjum. (82) Við getum virt heiður og heiðarleika íslamskra ættarsamfélaga en getum við léð máls á friðarsamræðum við hreyfingar eins og ISIS sem af ásettu ráði beina vopnum sínum að kvennaskólum eða verkamönnum í strætisvögnum?

Til samanburðar er fróðlegt að skoða umræðu Bandaríkjamanna um landnámsstríð sem fór fram þarlendis um svipað leyti og evrópskar þjóðir háðu stríð gegn ættarsamfélögum í Afríku og Asíu. Í bók sinni Heimsveldi sumartunglsins , sem tilnefnd var til Pulitzer-verðlaunanna, lýsir S.C. Gwynne því hvernig Nermernuh eða Comanche-þjóðin varð meistari í hestabardagamennsku eftir komu Spánverja um 1500 og lagði undir sig lönd annarra ættarsamfélaga þar til hún réð yfir rúmlega 600.000 km² svæði. (23) Þeir skutu 20 örvum á móti hverju byssuskoti og báru skildi úr vísundaleðri, sem voru svo vel hannaðir að flest skot komust ekki í gegn. (132) Þeir héldu því velli á móti „byssum, veirum, og stáli“ Spánverja og síðan Bandaríkjamanna í meira en 350 ár, allt fram á 1874. Þá voru komnar öflugri og hraðvirkari byssur, en endalok Nermurnuh-þjóðflokksins réðust þó af nýrri leðurvinnsluaðferð sem gerði iðnaðarmönnum í austurríkjunum kleift að vinna vísundaleður og leiddi til ofveiði. (260) Aðalfæða þjóðarinnar var brátt á þrotum og þeir sem eftir lifðu komu til byggða soltnir og illa klæddir.

Umræðan um Comanche-þjóðflokkinn var sérlega hatrömm vegna fornrar hefðar þessa afar herskáa ættarsamfélags að nauðga kvenföngum í hóp og myrða. Tortíming var háþróuð list hjá mörgum hópum en slík meðferð á konum þekktist ekki utan Sléttnanna miklu. Grimmdarverkin voru slík að manni býður við að lýsa þeim. En Gwynne segir frá því að Texas-búa hryllti sérstaklega við einu tilfelli þar sem Comanche-indíánar skiluðu ungum kvenfanga til byggða og höfðu m.a. brennt af henni nefið. (84) Sú sadíska illgerð að skera af konum nefið hefur einmitt verið notuð til að réttlæta öflugt viðbragð í yfirstandandi stríði.

Að viðurkenna hið sammannlega

Það getur enginn heilvita maður réttlætt eða samþykkt slíkar hefðir og því miður er ekki hægt að telja sér trú um að þessu hafi verið logið upp; Nermurnuh-indíánar sögðu frá slíku sjálfir, blygðunarlaust. (43) Mörg okkar berðust ákaft til að forðast slík örlög. Eins gott að hafa það í huga.

En við verðum líka að spyrja: Dettur nokkrum manni í hug í dag að þessi ljóta hefð hafi réttlætt hertöku Nermernuh-landanna?

Einkum þegar hermennirnir drápu gamalmenni, konur og börn úr Nermernuh-þjóðflokknum?

Fórnarlömb Comanche-stríðsins voru bandarískir smábændur og fjölskyldur þeirra og Nermernuh-veiðimenn og fjölskyldur þeirra. Báðir hópar hrökkluðust undan efnahagslegri útþenslu sem þeir skildu ekkert í. Hvort var þyngra á metunum – offjölgun manna í Evrópu eða græðgi?

Ætli fyrsta skref til friðar í dag sé ekki einmitt að gera eins og Akbar Ahmed segir: að viðurkenna hið sammannlega. (358) Friður verður þegar menn semja, ekki þegar þeir sigrast á „illsku uppmálaðri“ eða „skepnum“. Ef „leikurinn mikli“ í nútímanum er hnattvæðing, þá þarf friður að byggjast á viðurkenningu sammannlegrar þarfar til að geta séð fyrir sér og fjölskyldu sinni á viðunandi hátt og hafa sitt að segja um efnahagslegar aðstæður.

Hvort sem við búum í New York eða Nunavut, Quito eða Konar-héraði, Botswana, Bhutan, eða Mindanao eigum við öll þörf – og rétt – á heimkynnum.

Bækur sem fjallað er um:

• The Thistle and the Drone: How America's War on Terror Became a Global War on Tribal Islam eftir Akbar Ahmed, Brookings Institution Press, 2013

• American Spartan: The Promise, the Mission, and the Betrayal of Special Forces Major Jim Gant eftir Ann Scott Tyson, New York, William Morrow, 2014

• Empire of the Summer Moon: Quanah Parker and the Rise and Fall of the Comanches, the Most Powerful Indian Tribe in American History eftir S.C. Gwynne, New York, Scribner, 2010

Bækur sem fjallað er um: • The Thistle and the Drone: How America's War on Terror Became a Global War on Tribal Islam eftir Akbar Ahmed, Brookings Institution Press, 2013 • American Spartan: The Promise, the Mission, and the Betrayal of Special Forces Major Jim Gant eftir Ann Scott Tyson, New York, William Morrow, 2014 • Empire of the Summer Moon: Quanah Parker and the Rise and Fall of the Comanches, the Most Powerful Indian Tribe in American History eftir S.C. Gwynne, New York, Scribner, 2010