[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
BAKSVIÐ Guðmundur Magnússon gudmundur@mbl.

BAKSVIÐ

Guðmundur Magnússon

gudmundur@mbl.is

Hundrað ára gömul teikning Guðjóns Samúelssonar arkitekts af viðbyggingu við Alþingishúsið komst í sviðsljósið fyrr á þessu ári þegar ríkisstjórnin samþykkti að frumkvæði forsætisráðherra að nota hana við stækkun þinghússins. Sitt sýndist hverjum um þau áform og var fallið frá því að leggja tillöguna fram á Alþingi – að sinni að minnsta kosti. Þetta er ekki eini ónotaði uppdrátturinn í teikningasafni Guðjóns, sem varðveitt er í Þjóðskjalasafninu. Þar er að finna margar ónotaðar teikningar frá hans hendi, mismunandi útfærslur bygginga sem risu eða hugmyndir sem ekki urðu að veruleika vegna fjárskorts verkkaupa eða stefnubreytingar. Spanna þessar teikningar allan starfstíma Guðjóns hér á landi, frá 1915 til andláts hans 1950. Samtals liggja eftir hann 380 árituð verkefni, en þau eru reyndar mun fleiri sem hann tók þátt í að móta en unnin voru af samstarfsmönnum hans hjá embætti húsameistara ríkisins. Því embætti gegndi Guðjón frá 1919 til dauðadags.

Mælir ekki með notkun

Pétur H. Ármannsson arkitekt, sem vinnur að ritun bókar um Guðjón og húsagerðarlist hans, segir að hinar ónotuðu teikningar Guðjóns séu mjög áhugaverðar og lærdómsríkar fyrir arkitekta og fræðimenn. En hann mælir ekki með því að þær verði lagðar á borð byggingarmeistara og hafist handa um framkvæmdir eins og sumir aðdáenda Guðjóns hafa látið sér detta í hug. Pétur bendir á að sérhvert tímaskeið hafi sinn arkitektúr sem ráðist af tækni, menningu og hugrænum gildum. Hugmyndir Guðjóns um húsagerðarlist og teikningar hans hafi tekið breytingum á ferli hans. Stíll hans og efnisnotkun hafi breyst í tímans rás.. Þó að hann væri menntaður í klassískri hefð húsagerðarlistar hafi hann engan veginn verið ónæmur fyrir nýjum viðhorfum og til að mynda tileinkað sér margt úr stíl og tækni módernismans sem fór að gæta í íslenskum arkitektúr um 1930. „Vissulega þekkjast dæmi um notkun gamalla teikninga. Þannig var einbýlishús reist fyrir nokkrum árum í Glasgow eftir ónotaðri teikningu þekktasta arkitekts Skota, Alexander Marshall Mackenzie, sem lést árið 1933,“ segir Pétur. Slík vinnubrögð séu hins vegar afar fátíð.

„Vanskynjahæli“ fyrir börn

Pétur sýndi blaðamanni Morgunblaðsins nokkrar teikningar í safni Guðjóns sem ekki hafa verið notaðar. Hafa myndir af fæstum þeirra komið fyrir sjónir almennings áður.

Einn þessara uppdrátta, sem er frá 1922, er merktur „Vanskynjahælið á Björgum.“ Þetta er stórhýsi sem ætlað var að vera í senn heimili og skóli fyrir heyrnarlaus börn, blind og „vitsljó“ eins og segir á teikningunni, en þar er væntanlega átt við þroskaheft börn. Skýrist þá orðið „vanskynjun“ sem ekki hefur náð að festast í málinu. Áttu allt að 7 til 9 börn að vera saman í hverjum svefnskála. Ný lög um kennslu heyrnarlausra voru sett þetta ár og Málleysingjaskólinn hóf starfsemi. Í tengslum við það virðast hafa verið uppi áform um samræmd úrræði á þessu sviði. Átti húsið að vera á tveimur hæðum auk kjallara og lofts. Ekki er ljóst hvers vegna verkefnið var blásið af, en húsinu virðist hafa verið ætlaður staður í Holtunum í Reykjavík. þar sem Málleysingjaskólinn, síðar Heyrnleysingjaskólinn, var seinna starfræktur.

Stórborgin Ísafjörður

Önnur teikning sem Pétur dró fram er uppdráttur að skipulagi Ísafjarðar frá árinu 1924. Minnir hann mjög á fræga teikningu að háborginni á Skólavörðuholti í Reykjavík frá sama tíma. Þar var dómkirkja þungamiðjan á uppdrættinum, umlukin samtengdum byggingum. Hallgrímskirkju, sem Guðjón teiknaði síðar, má rekja til þessarar tillögu. Á Ísafjarðarteikningunni er sjúkrahús miðpunkturinn og byggingarnar umhverfis það, ráðhús, banki, kirkja og íbúðarhús standa öll sér. Óhætt er að segja að bæjarmynd Ísafjarðar væri talsvert frábrugðin þeirri sem við þekkjum nú ef skipulagstillaga Guðjóns hefði náð fram að ganga. Væri Ísafjörður nær því að líta út eins og alþjóðleg stórborg. En sjúkrahúsið reis þó eftir teikningu Guðjóns og hefur þótt ein helsta prýði bæjarins. Það er nú notað sem safnahús.

Burstabæjarstíllinn

Í teikningasafninu getur einnig að líta hugmynd Guðjóns að prestssetri í Reykholti í Borgarfirði sem ekki reis. Teikningin er frá árinu 1923. Þarna áttu að vera undir einu þaki heimili og skrifstofa sóknarprestsins, fjós, hlaða, smiðja og haughús. Húsið er í svonefndum burstabæjarstíl sem var að sögn Péturs mikið hugðarefni Guðjóns á þriðja áratugnum. „Áratugurinn milli 1920 og 1930 er tímabil hinna steinsteyptu burstabæja í sveitum landsins,“ segir Pétur. Hafi Guðjón átt þar stóran hlut að máli með því að teikna embættisbústaði, skólahús og bóndabæi í þessum stíl. „Tilraun hans til að endurreisa hinn forna sveitabæjarstíl náði hápunkti í Þingvallabænum og Héraðsskólanum á Laugarvatni,“ bætir Pétur við, en segir að Guðjón hafi fallið frá þessum byggingum um 1930 þegar í ljós kom að kverkar milli bursta vildu leka auk þess sem torfþökin voru erfið í viðhaldi á svo bröttum þökum.

Mörg einbýlishús

Eftir Guðjón eru nokkur af fínustu einbýlishúsum landsins. Meðal þeirra eru Hamragarðar, sögufræg villa í fúnkisstíl við Hávallagötu í Reykjavík. Var hún byggð um 1940 fyrir Jónas Jónsson frá Hriflu, sem þá var skólastjóri Samvinnuskólans, en sat jafnframt á Alþingi og var einn áhrifamesti stjórnmálaforingi landsins. Jónas var í senn aðdáandi og velgjörðarmaður Guðjóns og beitti sér ópart fyrir því að hugmyndir hans um hús og skipulag næðu fram að ganga.

Í teikningasafninu er afar falleg teikning að einbýlishúsi sem aldrei reis. Hún er frá árinu 1917 þegar Guðjón hafði enn ekki lokið arkitektúrnámi í Kaupmannahöfn. Er hún gerð fyrir Árna Sigfússon kaupmann og útgerðarmann í Vestmannaeyjum. Í húsinu er vítt til veggja og fjöldi herbergja, m.a. „herraherbergi“ í gamla stíl fyrir húsbóndann og „stúlknaherbergi“ á loftinu fyrir vinnukonur.

Kirkjubyggingar um land allt

Loks sýndi Pétur blaðamanni smekklega teikningu Guðjóns að kirkju á Útskálum frá 1923 sem

fallið var frá að byggja af ókunnri ástæðu. Hönnun kirkjubygginga úr steinsteypu var að sögn Péturs veigamikill þáttur í starfi húsameistara ríkisins. Á því sviði hafi hann byggt á hefð sem fyrirrennari hans í embætti, Rögnvaldur Ólafsson, skóp. Rögnvaldur hafi beitt hófstilltum, nýrómönskum og nýgotneskum stíl og segja megi að allar smærri kirkjur Guðjóns, sem risu víða um land, hafi fylgt þessu fordæmi. „Smám saman þróaðist ákveðið lag sem varð einkennandi, þrískipt form með skipi, kór og forkirkjuturni, bogagluggum og topplaga turnspíru,“ segir Pétur. Sama teikning hafi verið notuð víða með smávægilegum breytingum.

Stórhugur

Óhætt er að segja að stórhugur hafi einkennt hugmyndir Guðjóns Samúelssonar um húsagerð og skipulag. Að sögn Péturs kölluðu aðstæður í íslensku þjóðfélagi á fyrstu áratugum síðustu aldar á slíka hugsun. Guðjón, sem fyrstur Íslendinga lauk háskólanámi í byggingarlist, var að mati Péturs réttur maður á réttum tíma. Með vélvæðingu bátaflotans og viðreisnarandrúmslofti sjálfstæðisbaráttunnar var íslenskt þjóðfélag að rétta úr kútnum og efnahagurinn að batna.

Byggingar þær sem risu eftir teikningum Guðjóns eru enn meðal svipmestu mannvirkja hér á landi. Þar má nefna aðalbyggingu Háskóla Íslands, Hallgrímskirkju, Akureyrarkirkju, Eimskipafélagshúsið, Landakotskirkju, aðalbyggingu Landspítalans, Hótel Borg, Sundhöll Reykjavíkur, hús Listasafns Íslands, Reykjavíkurapótek, Laugarneskirkju, Þjóðleikhúsið, barnaskóla Akureyrar og gamla sjúkrahúsið og sundhöllina á Ísafirði.

Sonur húsasmiðs

Um ævi Guðjóns og uppruna er það að segja að hann fæddist á Hunkubökkum á Síðu 16. apríl 1887. Þegar Guðjón var á þriðja ári fluttist hann með foreldrum sínum til Eyrarbakka. Þar gerðist faðir hans, Samúel Jónsson trésmíðameistari, mikilvirkur og virtur húsasmiður. Segir Pétur að hann sé m.a. kunnur fyrir tvílyft einbýlishús á staðnum sem hann smíðaði með sérkennilegu lágreistu bogaþaki.

Samúel teiknaði og byggði nokkrar timburkirkjur á Suðurlandi og var yfirsmiður við fleiri kirkjubyggingar. Vann Guðjón stundum með föður sínum að þessum verkum. Þá er tvílyft íbúðarhús úr timbri á horni Skólavörðustígs og Kárastígs í Reykjavík verk Samúels, en þangað fluttist fjölskyldan um aldamótin 1900. Var Skólavörðustígur 35 heimili Guðjóns alla tíð eftir að hann kom heim frá námi og vinnustofa hans fram til 1930, en Guðjón var eina barn foreldra sinna sem upp komst.

Tákn nýrra tíma

Frá 1908 til 1915 var Guðjón við nám í arkitektúrdeild Listaakademíunnar í Kaupmannahöfn. Hann gerði þá hlé á náminu og kom heim. Buðust honum fjölmörg verkefni, enda íslensk húsagerð mjög í mótun á þeim tíma. Reykjavíkurbruninn mikli nokkru áður markaði þáttaskil, því nú varð steinsteypa algengasta byggingarefnið í stað timburs. Meðal verkefna sem Guðjón vann að á þessum tíma var stórhýsi Nathans og Ólsens við Austurstræti 16. „Það var stærra í sniðum og veglegra en önnur hús sem höfðu áður verið reist hér á landi af einkaaðilum,“ segir Pétur. Húsið hafi verið tákn nýrra tíma í miðbæ Reykjavíkur þar sem það reis á grunni brunarústanna frá 1915. Af öðrum verkum Guðjóns frá þessum tíma má nefna íshúsið Herðubreið við Fríkirkjuveg sem nú hýsir Listasafn Íslands, verslunarhús við Austurstræti 7 og Klapparstíg 31 og íbúðarhús Geirs Zoëga að Túngötu 20 og Andrésar Andréssonar við Skólavörðustíg.

Boðið húsameistaraembættið

Þegar Rögnvaldur Ólafsson, húsameistari ríkisins, lést árið 1917 bauð Jón Magnússon forsætisráðherra Guðjóni að taka við embættinu. En hann setti það skilyrði að Guðjón færi utan að nýju og lyki prófi. „Gekk það eftir og Guðjón lauk fullnaðarprófi vorið 1919. Það sama ár var hann settur húsameistari ríkisins og skipaður í embættið ári síðar,“ segir Pétur. Það var í verkahring húsameistara að gera teikningar að öllum skólum, kirkjum, prestssetrum, sjúkrahúsum, opinberum íbúðarhúsum og öðrum byggingum ríkisins, hafa eftirlit með öllum byggingum sem reistar voru á kostnað ríkissjóðs og sjá um breytingar á þeim, stórar sem smáar.

Leitar upplýsinga

Pétur segir að frjósamasta tímabil Guðjóns hafi verið þriðji áratugurinn. En hann hafi ofreynt sig við störfin og aldrei náð fullri heilsu. Á fjórða áratugnum komu þó frá honum merkar byggingar, svo sem háskólabyggingin. „Hún var honum hugleiknust, enda var mikil alúð lögð í gerð hennar og frágang,“ segir Pétur. Þegar byggingin var vígð 17. júní 1940 var greint frá því að háskólaráð hefði einróma kjörið Guðjón heiðursdoktor í viðurkenningarskyni fyrir hið mikla starf sem hann hafði unnið í þágu skólans.

Sem fyrr segir vinnur Pétur H. Ármannsson nú að bók um Guðjón Samúelsson og verk hans. Í fyrra sendi hann frá sér rit um verk Gunnlaugs Halldórssonar arkitekts og hlaut það afar góðar viðtökur. Var bókin m.a. tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Pétur segir að bókin um Guðjón muni líklega taka einhver ár, enda verkið unnið meðfram annasömum störfum hjá Minjastofnun. Hann vill heyra frá sem flestum sem kynntust Guðjóni, þekktu til hans eða kunna að segja frá honum og verkum hans. Er netfangið petura@simnet.is fyrir þá sem lagt geta verkinu lið með einhverjum hætti.