Leikhús Leiksýningin Konubörn hefur slegið í gegn hjá Gaflaraleikhúsinu í Hafnarfirði.
Leikhús Leiksýningin Konubörn hefur slegið í gegn hjá Gaflaraleikhúsinu í Hafnarfirði.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eiga sögur kvenna ekki alveg jafn mikið erindi við karla og sögur karla eiga erindi við konur? Ef konur gætu bara skrifað fyrir konur og karlar gætu bara skrifað fyrir karla hefðu konur varla farið í leikhús eða horft á kvikmynd frá upphafi vega. Að sjálfsögðu er sýningin líka fyrir stráka og karla.

Viðtal

Vilhjálmur A. Kjartansson

vilhjalmur@mbl.is

Mótlæti er til að sigrast á og það hafa vinkonurnar Ásthildur Sigurðardóttir, Ebba Katrín Finnsdóttir, Eygló Hilmarsdóttir, Sigurlaug Sara Gunnarsdóttir, Þórey Birgisdóttir og Þórdís Björk Þorfinnsdóttir svo sannarlega gert. Eftir að hafa verið hafnað af Listaháskóla Íslands skrifuðu þær, settu upp og léku í eigin leikriti, Konubörnum , í Gaflaraleikhúsinu, sem staðsett er móts við Fjörukrána í Hafnarfirði.

Leikstjórinn í hláturskrampa

„Við urðum hópur út frá því að hafa fengið höfnun frá Listaháskóla Íslands og ákváðum að gera eitthvað sjálfar í stað þess að láta þessa höfnun hindra okkur. Við erum allar á svipuðum aldri, 20-25 og náðum strax mjög vel saman. Núna eru fjórar okkar á leikarabraut og ein á sviðshöfundabraut í Listaháskóla Íslands og ein býr erlendis,“ segja þær en verkið var fyrst sett upp í fyrra og er á sínu öðru leikári enda fengið góða dóma og aðsóknin verið mikil.

Björk Jakobsdóttir sem leikstýrir verkinu segir að stelpurnar hafi fyrst komið til sín með hugmynd sem þær hafi allar verið sammála um að væri gaman að gera. Hún sendi þær þó með verkið til baka eftir fyrstu tilraun.

„Fyrsta uppkast gerðist í sumarbústað og var í ætt við hefðbundna leikritauppbygginu með mónólógum. Ég verð að viðurkenna að ég kveikti ekki á þeirri pælingu. Við ákváðum að brjótast út úr þessu hefðbundna leikritunarformi. Mónólógarnir sem þær komu með voru hins vegar yndislega sannir og skemmtilegir,“ en Björk bað stelpurnar að fara heim og gera senur úr mónólógunum. „Tveimur vikum síðar kom yndislegt handrit frá þeim sem ég lá í hláturskrampa yfir og það var í fyrsta skipti sem ég hugsaði með mér að þetta gæti orðið dálítið vinsælt.“

Spurðar um hvað verkið sé um segja stelpurnar sjálfar að það sé sitt lítið af hverju.

„Verkið er samsett úr mörgum sögum, senum og sketsum. Við erum auðvitað aðallega að grínast en á bak við grínið er sannleikur sem endurspeglar konubörn nútímans.“

Flæðandi verk í stöðugri vinnslu og þróun

Konubörn var í stöðugri vinnslu á æfingatíma verksins og segir leikstjórinn verkið enn í þróun.

„Verkið var svo í vinnslu allt æfingaferlið. Við til dæmis ákváðum lokasenuna viku fyrir frumsýningu og skelltum inn lagi sem þær voru nýbúnar að semja. Enn er verkið í þróun og við vorum að tala um það seinast í gær að það væri gaman að setja „Reykjarvíkur rómans“ lagið þeirra inn í sýninguna,“ segir Björk en stelpurnar hafa þurft að gera nokkrar breytingar á verkinu í ár. Ásthildur Sigurðardóttir hefur yfirgefið hópinn en hún er flutt til Kaupmannahafnar til að læra leiklist.

„Það var vissulega leiðinlegt að missa hana til Danmerkur en við ákváðum samt láta það ekki stoppa okkur í því að taka sýninguna upp að nýju. Við ákváðum að skipta hennar texta okkar á milli í stað þess að fá einhvern nýjan inn. Það hefði ekki passað vegna þess að enginn getur komið í staðinn fyrir hana Ásthildi okkar,“ svara stelpurnar.

Fyrir bæði konur og kalla

Líkt og stelpurnar segja sjálfar endurspeglar verkið konubörn nútímans, en hvað er konubarn ?

„Ekki stelpa, ekki kona...eitthvað þar á milli. Eða er maður kannski alltaf bara stelpa sem verður aðeins eldri og þarf að bera meiri ábyrgð? Við vitum ekki hvort maður verður einhvern tímann fullorðinn í raun og veru. Við erum það allavega ekki.“

Sýning um stelpur, sem eru að takast á við aukna ábyrgð og ný verkefni og vandamál í lífinu, getur svo sannarlega verið áhugaverð en geta strákar líka haft gaman af sýningunni og gætu þeir kannski lært hlut eða tvo af henni?

„Við erum oft spurðar þessarar spurningar og skiljum hvaðan hún kemur. Hins vegar höfum við mikið pælt í því hvort strákar yrðu spurðir að því sama. Eiga sögur kvenna ekki alveg jafn mikið erindi við karla eins og sögur karla eiga erindi við konur? Ef konur gætu bara skrifað fyrir konur og karlar gætu bara skrifað fyrir karla hefðu konur varla farið í leikhús eða horft á kvikmynd frá upphafi vega. Að sjálfsögðu er sýningin líka fyrir stráka og karla. Efnið sprettur upp úr raunveruleikanum. Hvort áhorfandi dragi lærdóm af þessari sýningu er undir honum sjálfum komið, sama af hvaða kyni viðkomandi er.“

Grínið og glensið aldrei langt undan hjá konubörnum

Allt virðist ganga í haginn hjá konubörnunum en verða aldrei árekstrar þegar sami hópurinn skrifar, setur upp og leikur í sama verki?

„Það gengur alltaf mjög vel þegar við hittumst. Við förum alltaf á flug og peppumst upp í nokkurs konar gríngalsa. Þannig unnum við eiginlega handritið, upp úr okkar reynsluheimi. Við vinnum vel saman sem hópur en auðvitað erum við ekkert alltaf sammála. Það er samt bara jákvætt að við séum ólíkar og með mismunandi skoðanir því þá fær sýningin meiri breidd. Það er stundum gott að vera ósammála, það kemur okkur lengra,“ segja þær og leikstjórinn tekur undir með þeim og segir alveg frábært að hafa fengið að vinna með þeim.

„Alveg frábært. Þetta var einstaklega opið, skapandi og skemmtilegt æfingaferli. Við tókum okkur ekki of hátíðlega og það var fullkomið traust í hópnum. Þetta var nú eiginlega bara eitt langt hláturskast þetta æfingaferli. Tilvera ungra kvenna í dag með allar sínar vangaveltur, komplexa og kröfur er efni í drepfyndið leikverk með beittum undirtóni og ég held að við höfum náð að skila hvoru tveggja. Við vildum ekki taka okkur of hátíðlega en á sama tíma alls ekki gera lítið úr konum.“

Skólinn tekinn við en nóg framundan

Þrátt fyrir að ferlið á bak við sýninguna hafi verið skemmtilegt hefur það líka verið erfitt. Ekki samstarfið eða samskipti stelpnanna né sköpunarvinna þeirra heldur allt sem tengist því að setja upp nýtt íslenskt verk í ungu leikhúsi.

„Já, á vissan hátt er það erfitt, sérstaklega verk eins og þetta sem er unnið með ungu fólki meira og minna án styrkja.Við reyndar fengum 100.000 kr. frá Bónus og 150.000 kr. frá Nova og viljum þakka þeim kærlega fyrir það en þetta er ekki há upphæð til að gera leiksýningu. Við erum með nýtt íslenskt verk sem er alltaf aðeins meiri lífshætta og hér eru engar deildir sem að sjá um hlutina og engin markaðsvél. Þetta þýðir að ég er ekki bara leikstjóri og dramatúrg, ég er líka leikmynda- og búningahönnuður og svo þurfum við stelpurnar að sjá um markaðssetningu líka og redda öllum praktískum hlutum,“ segir Björk en bendir auk þess á að vegna þess hvað mikið sé í húfi sé árangurinn þeim mun sætari.

„Fyrir stelpurnar er þetta því ekki bara frábær skóli í leiklist og skrifum heldur líka í að vera sjálfstæðar listakonur og framleiðendur.“

Eftir allan árangurinn hljóta stelpurnar að vera að hugsa um næstu verkefni?

„Við erum í skóla eins og það tekur nánast allan okkar tíma þessa dagana en stefnum á að vinna meira saman í framtíðinni. Við erum með margar hugmyndir í pokahorninu. Ekkert endilega aðra leiksýningu, ekki endilega grín, okkur langar allavega að halda áfram þessu frábæra samstarfi. Og breyta heiminum.“