Fiskistofa hefur „að gefnu tilefni“ minnt á bann við lúðuveiði. Þorsteinn Hilmarsson, upplýsingafulltrúi Fiskistofu, sagði að reglulega væri minnt á lúðuveiðibannið.

Fiskistofa hefur „að gefnu tilefni“ minnt á bann við lúðuveiði. Þorsteinn Hilmarsson, upplýsingafulltrúi Fiskistofu, sagði að reglulega væri minnt á lúðuveiðibannið. Aðspurður taldi hann að hið gefna tilefni, sem minnst er á í tilkynningu Fiskistofu, kunni að vera það að dæmi séu um að krókabátar hafi landað lúðu.

Í reglugerð um veiðar á lúðu segir m.a. að umsvifalaust skuli sleppa lífvænlegri lúðu sem komi um borð í veiðiskip. „Við línuveiðar skal sleppa allri lúðu með því að skera á taum línunnar. Við handfæra- og sjóstangaveiðar skal losa lúðuna varfærnislega af krókum eða skera á lykkju slóðans áður en lúða kemur um borð,“ segir í reglugerðinni.

Þorsteinn benti á að megnið af lúðu sem er landað komi sem meðafli í troll eða önnur netveiðifæri. Þá lúðu sem berst á land á að selja á markaði og á andvirði sölunnar að renna í Verkefnasjóð sjávarútvegs.

gudni@mbl.is