Jólaísinn Guðrún Kristjánsdóttir í Systrasamlaginu: „Brómberjaís er bæði einfaldur og góður og í ofanálag er hann svo fallega djúprauður; það skiptir öllu máli að næra sem flest skilningarvit, sérstaklega á jólunum.“ Mælt er með tvöfaldri uppskrift „því maður vill eiga afgang, ísinn geymist ágætlega í frysti.“
Jólaísinn Guðrún Kristjánsdóttir í Systrasamlaginu: „Brómberjaís er bæði einfaldur og góður og í ofanálag er hann svo fallega djúprauður; það skiptir öllu máli að næra sem flest skilningarvit, sérstaklega á jólunum.“ Mælt er með tvöfaldri uppskrift „því maður vill eiga afgang, ísinn geymist ágætlega í frysti.“ — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðrún Kristjánsdóttir, matgæðingur og veitingakona í Systrasamlaginu, sækir sér innblástur til annarra þjóða við matseldina. Hún er í essinu sínu þegar kemur að eftirréttum, bakar biscotti og sítrónuböku að ítalskri fyrirmynd og býður upp á jólaís frá eftirlætisveitingastaðnum River Café í London.

Mér líður alltaf vel á aðventunni. Ég kann vel við myrkrið og verð öll mýkri að innan sem utan og enda þótt sumarið og birtan séu dásamlegur hluti hringrásarinnar verður allt skáldlegra á þessum árstíma,“ segir Guðrún Kristjánsdóttir, áhugakona um matargerð og holla lífshætti og eigandi heilsuhofsins Systrasamlagsins á Seltjarnarnesi. „Ég kemst hægt og rólega í jólaskapið þegar jólabækurnar koma út. Í mínum tímaskorti í aðdraganda jóla undanfarin ár finnst mér best að byrja á ljóðabókum. Er til dæmis mjög spennt að handleika Frelsi Lindu Vilhjálmsdóttur og Tilfinningarök Þórdísar Gísladóttur.

Þær og fleiri áhugaverðar ljóðabækur munu endast mér á náttborðinu fyrst um sinn, en svo sný ég mér að stóru sagnabókunum og hlakka til dæmis mikið til að lesa nýjustu bók Jóns Kalmans Stefánssonar. Ég mun að öllum líkindum líka lesa Mikael Torfason og Hallgrím Helgason, á milli þess sem ég les og elda upp úr uppáhaldsmatreiðslubókunum mínum, Green Kitchen Travel og The Green Kitchen, eftir sænsku hjónin David Frenkeil og Luise Vindhal. Þetta eru allra bestu matreiðslubækur sem hafa komið út í mörg ár, þær eru endalaus uppspretta sælkeragrænmetisfæðu. Með bókunum ná grænmetisréttir nýjum hæðum.“

Tími smárétta

Hefðir jólanna?

„Ég er hreint ekki fastheldin á hefðir á jólum, nema kannski að því leyti að mér finnst jólatréð ómissandi og skrautið verður að vera látlaust. Ég þarf mínar jólabækur og minn kósítíma og kannski smávegis af malti og appelsíni. Í ár ætla ég að halda hvíldarjól og er að gæla við þá hugmynd að skreppa til Skotlands um áramótin og hugleiða með tíbetskum munkum.“

Matarstúss og bakstur á aðventunni?

„Ég kýs að hafa hlutina einfaldari en áður, engar 17 sortir takk, líkt og ég ólst upp við. Smákökusortirnar í ár verða í mesta lagi tvær; líklega baka ég möndlusmjörs-smákökur með kirsuberjum og mjög dökkar súkkulaðismákökur, úr 85% súkkulaði. Ég verð líka að eiga heimagert rauðkál og kannski að ég baki kjúklingalifrarkæfu. Svo má reikna með því að ég búi til bragðmikil salöt með granateplum, þau eru svo jólaleg.“

Veislumaturinn, áherslurnar í eldhúsinu, er allt á hollari nótum?

„Lykilatriði um jól, eins og alltaf, er að hráefnið sé hreint, gott og helst lífrænt. Ég hef oft gamlar uppskriftir til hliðsjónar þegar ég elda á jólum, en skipti þá óhollustu út fyrir hollara hráefni og nota óspart af ferskum, góðum kryddum og lækningajurtum.

Í mínum huga eru jólin fyrst og fremst tími forrétta, smárétta, eftirrétta og girnilegra salata því kjötið hefur stórlega minnkað á mínum diski. Þó finnst mér góður kalkúni alveg ómissandi, eins og ég hef fengið hann hjá foreldrum mínum á jóladag undanfarin 20 ár. Það eru engin jól hjá okkur mæðgunum án jóladagskalkúnans og ég geri fastlega ráð fyrir því að dóttir mín taki sjálf upp sömu hefð á sínu heimili þegar fram líða stundir.“

Grænt meðlæti

Jólasteikin þín?

„Ég ætla að bjóða í mat á aðfangadagskvöld; fæ foreldra mína, systur og fleiri úr fjölskyldunni. Ég er alin upp við purusteik á aðfangadag en myndi helst vilja rjúpur. Hins vegar fer ég ekki á veiðar þannig að þær eru úr myndinni. Ég er enn að bræða með mér hvað verður á boðstólum, það gæti orðið gæs eða hreindýr. Annars ætla ég að hafa samráð við dóttur mína sem er við nám í Prag og kemur heim rétt fyrir jól. Hún hefur sterkar skoðanir og mikinn áhuga á mat og langar örugglega að kokka veislumatinn með mér.

Sjálfri finnst mér gaman að fást við eitthvað í eldhúsinu, sem þarf að malla lengi í ofninum og ég þarf að hafa talsvert mikið fyrir. Þá stilli ég símann á snús, nota tímann á meðan til að gera eitthvað annað áríðandi eða skemmtilegt, svo sem lesa góða bók og gera nokkrar jógaæfingar, og vökva steikina öðru hverju. Meðlætið með jólasteikinni verður alveg örugglega upp úr grænu eldhúsbókunum mínum eftir sænsku hjónin og það verður án vafa gott úrval rétta því ég er mjög nýjungagjörn.“

Súkkulaðimöndlur

Hvað með sætmeti og eftirrétti?

„Á jólum verð ég nauðsynlega að eiga í ísskápnum úrval góðra osta, ásamt truffluhunangi sem ég finn í einhverri sælkeraverslun eða útbý jafnvel sjálf. Svo fylli ég skálar af fræjum, hnetum og möndlum, bæði með rósmaríni og súkkulaði, sem er auðvitað besta jólasnakk sem hægt er að hugsa sér. Ekki má gleyma dökku súkkulaði, það verður að vera til mikið af gæðasúkkulaði á heimilinu, lífrænu, frá 70 og upp í 85%.

Þegar kemur að því að útbúa eftirrétti hýrnar yfir mér, ég fæ aldrei nóg af desertum. Góð sítrónubaka hittir alltaf í mark og tilheyrir jólunum hjá mér, líka djúsí súkkulaðidesertar og svo eru það ísarnir mínir. Einn er í miklu uppáhaldi, hann er blanda af frosnu lífrænu mangói, dassi af kardimommum, kókossykri og kókosmjólk. Hér gildir að nota góðan blandara, þessi ís er mjög einfaldur, hann klárast hratt og ég veit að ég á eftir að hræra margoft í hann um jólin.

Jólaísinn sem ég gef uppskrift að hér er aftur á móti ættaður frá London, nánar tiltekið River Café sem er einn af mínum uppáhaldsveitingastöðum.

Brómberjaís er bæði einfaldur og góður og í ofanálag er hann svo fallega djúprauður; það skiptir öllu máli að næra sem flest skilningarvit, sérstaklega á jólunum. Ég mæli með því að tvöfalda uppskriftina því maður vill eiga afgang, ísinn geymist ágætlega í frysti.“

Aðalatriði systra

Jólagóðgætið í Systrasamlaginu?

„Það verður notaleg stemning þar á aðventunni hjá okkur Jóhönnu. Við erum reyndar alltaf í hálfgerðu jólaskapi systurnar, okkur finnst svo gaman í vinnunni, og leggjum áherslu á ánægjulega upplifun viðskiptavina á öllum árstímum. Við bjóðum upp á heilnæmt góðgæti fyrir jólin, svo sem heimagert chai-te úr ilmandi lækningajurtum og ómótstæðilegt ris a la mande úr chia-fræjum.

Við ætlum líka að baka okkar frægu biscotti-kökur, að sjálfsögðu eingöngu úr lífrænu hráefni, og kakóið okkar fær dass af kanil, svo ég nefni dæmi. Við einbeitum okkur annars að hæfilegu úrvali rétta og gerum hlutina vel, í stað þess að grauta í mörgu. Því eins og einn kúnninn okkar sagði nýlega þá fást bara aðalatriði í Systrasamlaginu.“

beggo@mbl.is

Brómberjaís

fyrir 4

1 kg brómber

300 g kókossykur eða hrásykur

safi úr einni sítrónu

500 ml léttþeyttur Bíóbús-rjómi

Hreinsið brómberin og látið vatnið drjúpa af þeim. Setjið þau á stóra pönnu og stráið sykrinum yfir. Hitið við vægan hita og hrærið uns berin leysast upp í þykkan vökva. Um leið og vökvinn er orðinn djúprauður takið þá pönnuna af hellunni og kreistið sítrónusafa yfir.

Þegar vökvinn hefur kólnað er honum bætt varlega út í léttþeyttan rjómann (aðalmálið er að þeyta hann ekki of mikið). Frystið í boxi eða fallegu íláti. Gott er að taka ísinn tvisvar til þrisvar úr frystinum og hræra varlega upp í honum á meðan hann er að stífna. Berið til dæmis fram með góðu biscotti og rjúkandi bolla af macchiato.