Nú liggur ljóst fyrir að Eignasafn Seðlabankans stóð að baki tugmilljarða viðskiptum í SPB sem gerð voru í nafni Morgan Stanley.

Kröfuhafaskrá SPB, slitabús Sparisjóðabankans, hefur staðfest að það var Eignasafn Seðlabanka Íslands (ESÍ) sem bauð kröfuhöfum búsins að selja kröfur sínar í skiptum fyrir kröfur á hendur slitabúi Kaupþings. Greint var frá viðskiptunum í Morgunblaðinu snemma á árinu en ESÍ hefur aldrei viljað staðfesta að það hafi staðið að baki tilboðum Morgan Stanley gagnvart kröfuhöfunum.

Þegar bandaríski fjárfestingarbankinn tók að safna kröfum á hendur búinu átti ESÍ aðeins 3% krafna. Í kjölfar viðskiptanna er ESÍ komið með 94% allra samþykktra krafna á hendur búinu.

Heimildir Morgunblaðsins herma að slitastjórnin rói nú að því öllum árum að ná nauðasamningi við kröfuhafa búsins en það þarf að takast fyrir miðjan desember, eigi búið að komast undan greiðslu 39% stöðugleikaskatts.

Í byrjun desember er niðurstöðu að vænta í tveimur dómsmálum þar sem ESÍ og SPB deila um réttmæti krafna beggja aðila á hendur hinum. Nauðasamningurinn sem unnið er að mun taka tillit til þess hvernig lyktir málanna verða fyrir dómstólum en heimtur minnihluta kröfuhafa gætu rýrnað gríðarlega, verði málstaður ESÍ ofan á.