Lifandi Pálmar segir gaman að rölta um Hafnarfjörð og margt að sjá á aðventunni.
Lifandi Pálmar segir gaman að rölta um Hafnarfjörð og margt að sjá á aðventunni. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á Pallett Kaffikompaníi í Hafnarfirði má meðal annars smakka sætar breskar kökur í desembermánuði.

Hafnfirðingar eignuðust á dögunum nýtt kaffihús. Pallett Kaffikompaní var opnað á Strandgötu 75 í haust en áður var kaffihúsið til húsa á Norðurbakkanum. Á nýja staðnum eru áherslurnar ögn breyttar. „Það má segja að Pallett Kaffikompaní sé afkvæmi tveggja staða: kaffihússins sem var á Norðurbakkanum og svo kaffihússins Litla bóndabæjarins sem kærasti minn David rak lengi vel á Laugaveginum,“ útskýrir Pálmar Þór Hlöðversson, annar eigenda fyrirtækisins.

Á Pallett Kaffikompaníi eru gæðin í fyrirrúmi. Leitast þeir Pálmar og David t.d. við að nota hráefni sem rekja má beint til bónda og velja kjötvörur af dýrum sem hafa verið alin á mannúðlegan hátt. „Við notum velferðarkjúkling í kássuna og fáum nautakjötið okkar beint frá Hálsi í Kjós,“ segir Pálmar.

Kaffihúsið er í byggingu sem kennd er við skipasmíðastöðina Dröfn, við gamla slippinn. Þaðan er fagurt útsýni yfir hafnarsvæðið og stutt að labba niður í miðbæ Hafnarfjarðar. Áður var rekin á sama stað verslun með tjaldvagna.

Minced pie sem enginn stenst

Í desember mun jólaandinn svífa yfir vötnum og ættu sælkerarnir að taka hús á þeim Pálmari og David. „David hefur lag á að elda breskar kjötbökur, pasties, en núna fyrir jólin gerir hann hefðbundnar breskar ávaxtabökur, minced pies. Þetta eru sætar bökur fylltar með rúsínum og ávöxtum og kryddaðar með kunnuglegu jólakryddi.“

Heitu súkkulaði er líka gert hátt undir höfði og hægt að panta fjórar mismunandi útfærslur sem eru gerðar samkvæmt réttum hefðum úr súkkulaðiperlum sem bræddar eru í heitri mjólk eftir pöntun.

„Fyrst ber að nefna hefðbundna heita súkkulaðið sem gert er úr súkkulaðibitum með 45% styrkleika og er bragðmikið og gott fyrir þá sem vilja heitan sopa. Síðan má fá bolla með súkkulaði frá Sri Lanka, sem er með 36% kakóhlutfall og rjóma- og karamellukennt frá náttúrunnar hendi. Einnig erum við með tvær dökkar sortir; heitt súkkulaði frá Mexíkó með 66% kakóhlutfalli, með ávaxtakenndum keim, og 64% súkkulaði frá Madagaskar sem er það þurrasta og bragðmesta sem við bjóðum upp á.“

Þeir sem eru alveg að farast úr súkkulaðiþörf geta jafnvel nartað í súkkulaði-brownie með bollanum. „Við erum með breytilegt úrval af bakkelsi á kaffihúsinu en súkkulaði-brownie er alltaf á sínum stað, bakað með hrísmjöli í stað hveitis.“

Vitaskuld má líka panta bolla af úrvalskaffi og smakka jólablöndur framleiðendanna sem Pallett Kaffikompaní verslar við. „Gaman er líka að nefna að við verðum með heita jólaglögg á boðstólum í desember. Framan af mánuðinum verður glöggin í boði á föstudögum og laugardögum en oftar þegar nær dregur jólum og daglega vikuna fyrir jól. Einnig höfum við breitt úrval af jólabjór íslensku handverks-brugghúsanna fyrir þá sem eru á þeim buxunum,“ segir Pálmar.

Jólaþorpið breiðir úr sér

Það er gaman að heimsækja Hafnarfjörð í desember og skartar bærinn sínu fegursta þegar hann er klæddur í vetrarskrúða. Jólaþorpið í miðbænum hefur fyrir löngu fest sig í sessi sem ein af áhugaverðari jólauppákomum landsins en Pálmar segir að í ár sé fyrirhugað að dreifa úr markaðinum yfir stærra svæði. „Í stað þess að afmarkast við Thorsplanið mun jólaþorpið nú teygja sig alla leið að Íshúsinu hérna í næsta nágrenni við kaffihúsið. Þessu gamla frystihúsi hefur verið breytt í vinnusmiðjur og gallerí listamanna. Býður þetta nýja skipulag upp á skemmtilega gönguferð meðfram höfninni, þar sem litið er inn til listamannanna, kíkt á kaffihúsin og veitingastaðina, máski farið í messu í kirkjunni, sýningu í leikhúsinu, eða leitað að jólagjöfum í Firðinum og verslununum í miðbænum.“ ai@mbl.is