Magnús B. Jónsson
Magnús B. Jónsson
Eftir Magnús B. Jónsson: "Það er í okkar höndum hversu vel okkur nýtist þessi nýi mannauður til eflingar samfélagi framtíðarinnar."

Rótarý er alþjóðleg þjónustu- og mannúðarhreyfing sem nær til allra heimsálfa með rótarýklúbba í um tvö hundruð þjóðlöndum. Rótarýhreyfingin er félagsskapur leiðandi karla og kvenna sem sameinast um þá ósk að þjóna öðrum án tillits til trúarbragða, stjórnmála, kynþátta eða þjóðernis. Rótarý er því í reynd fjölmenningarsamfélag þar sem félagar frá mismunandi menningarheimum sameinast í einkunnarorðunum „Þjónusta ofar eigin hag“ í því að leggja lið, skapa frið og efla skilning þjóða í milli.

Þátttaka í Rótarý er þannig þjónusta, þjónusta við nærsamfélagið og þjónusta á heimsvísu. Einkunnarorð alþjóðaforseta þessa árs, „Verum veröld gefandi“, senda í þessu samhengi mikilvæg skilaboð og eru í senn hvatning til okkar rótarýfélaga um þjónustu og sömuleiðis vissa hinna þurfandi um að Rótarý muni rétta fram hjálpandi hönd. Munum að veröld í þessu samhengi er bæði heimavettvangur okkar og heimsbyggðin öll. Það er á grunni þessarar hugsjónar að Rótarýhreyfingin á Íslandi hefur ákveðið að helga einn dag á ári sérstöku átaki til þess að kynna hreyfinguna og klúbbarnir vítt og breitt um landið leggi lið ákveðnu málefni sem snertir þeirra nærsamfélag en hefur samtímis alþjóðlega skírskotun.

Í ár hefur verið lagt til að þemað verði „Fjölmenning“ í víðum skilningi þess hugtaks. Það er ánægjulegt að fleiri og fleiri einstaklingar af margvíslegu þjóðerni finni sér farveg og lífsviðurværi á okkar fagra og gjöfula landi. Þessum nýju landsmönnum fylgja ný sjónarmið, ný viðhorf og nýir menningarstraumar. En til þess að hver og einn okkar þegna geti notið sín og gefið samfélaginu af gæðum sínum, þarf þeim hinum sama að líða vel, finna að hann er velkominn, metinn að verðleikum og gert kleift að fóta sig á nýjum vettvangi. Þetta á ekki síst við þá sem hingað koma úr framandi umhverfi. Það er því í okkar höndum hversu vel okkur nýtist þessi nýi mannauður til eflingar samfélagi framtíðarinnar. Hvernig við tökum á móti þeim þegnum sem hingað koma um langvegu. Ég vil trúa því að flest okkar taki vel á móti hverjum þeim sem vill setjast að í okkar nágrenni, en því miður heyrum við of oft af því að þessum nýju landsmönnum er sýnd óvirðing og jafnvel haturskennt viðmót. Það kemur jafnvel fyrir að fólk í opinberum þjónustustörfum verður sér til skammar vegna framkomu sinnar. Þetta er blettur sem við verðum í sameiningu sem þjóð að þrífa af okkur.

Rótarýhreyfingin hefur margoft átt frumkvæði að því að hrinda af stað baráttu fyrir málefnum sem til heilla horfa. Rótarýhreyfingin leggur nú þessu málefni lið með því að beina athyglinni í dag, 27. febrúar, að þeirri auðlegð sem felst í fjölmenningu sem er til staðar í nærumhverfi hvers klúbbs og landinu sem heild. Rótarýfélagar munu halda áfram að leggja þessu verkefni lið sem aflgjafar í að bæta heiminn, hvort það er nærsamfélagið okkar eða hið alþjóðlega leiksvið. Allar upplýsingar um dagskrár rótarýklúbba er að finna á slóðinni. http://www.rotary.is/ .

Ég hvet alla rótarýfélaga og aðra áhugasama til þess að taka þátt í verkefni Rótarýdagsins og alla landsmenn hvet ég til þess að bjóða þá, sem hingað sækja sér til framdráttar og lífsviðurværis, velkomna svo við sem einstaklingar og þjóð getum með stolti sagt að hér ríki frelsi, jafnrétti og bræðralag öllum til handa.

Höfundur er umdæmisstjóri Rótarý 2015-2016