Afmælisbarn Tvöfaldur í roðinu, segir Valtýr Pálsson.
Afmælisbarn Tvöfaldur í roðinu, segir Valtýr Pálsson. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Að þessu sinni er ég alveg tvöfaldur í roðinu á afmælisdeginum; verð 16 og 64 ára í senn.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Að þessu sinni er ég alveg tvöfaldur í roðinu á afmælisdeginum; verð 16 og 64 ára í senn. Sextán ára er fólk orðið þokkalega þroskað, er komið í fullorðinna manna tölu og svo verður líka alveg sérstakt tilhlökkunarefni að setja Bítlanna á fóninn og spila When I'm 64 ,“ segir Valtýr Pálsson, athafnamaður á Selfossi.

Hann er hlaupársbarn og fæddur árið 1952, einn af 208 Íslendingum sem eiga afmæli 29. febrúar, sem er næstkomandi mánudag.

Sem kunnugt er ber hlaupársdag upp á fjögurra ára fresti og er þetta í raun ákveðin leiðrétting á dagatali sólargangsins. Það er rétt – svo langt sem það nær – að í hverju ári eru 365 dagar. Það tekur jörðina hins vegar 365 daga, 5 klukkustundir, 48 mínútur og 46 sekúndur að komast umhverfis sólina og því þarf að bæta einum degi við fjórða hvert ár svo þessi fínstilling tímatalsins gangi upp. Það má svo rekja alveg aftur til menningar hins forna Rómaveldis að hlaupársdagur sé í febrúar.

Styttist í bílprófsaldurinn

„Afmælisdagurinn er nú annars nokkuð sem maður spáir ekkert mikið í. Þegar ég var strákur var alltaf boðið heim gestum í tilefni dagsins og þá vildi ég að það væri 1. mars. Mér fannst ekki annað ganga upp, enda ekki fæddur 28. febrúar. En eðlilega var stundum haft orð á þessum afmælisdegi við mig og það bara vandist. Stundum fylgdu þessi einhver létt skot en þá var bara að svara fyrir sig. Núna segi ég til dæmis að óðum styttist í formlegan bílprófsaldur, bara fjögur ár,“ segir Valtýr sem rekur gistiheimili á Selfossi.

Á Íslandi er algengast að börn fæðist frá vori til hausts. Um 52% þjóðarinnar eiga afmæli á tímabilinu apríl til september. Sérstaklega hefur 27. september komið sterkur inn, en skv. nýlegum tölum Hagstofunnar eru 992 fæddir þann dag. Í dag, 27. febrúar, eru afmælisbörnin 849. sbs@mbl.is