Auðmýkt Viðbrögð Gianni Infantino þegar kjör hans lá fyrir í Sviss í gær.
Auðmýkt Viðbrögð Gianni Infantino þegar kjör hans lá fyrir í Sviss í gær. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
FIFA Kristján Jónsson kris@mbl.is Knattspyrnuforystan á heimsvísu valdi sér í gær nýjan leiðtoga.

FIFA

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Knattspyrnuforystan á heimsvísu valdi sér í gær nýjan leiðtoga. Svisslendingurinn Gianni Infantino var kjörinn forseti FIFA, Alþjóðaknattspyrnusambandsins, næstu fjögur árin og tekur við af landa sínum Sepp Blatter sem gegndi embættinu í átján ár.

Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, greiddi atkvæði fyrir hönd Íslands í kjörinu og var hinn ánægðasti með niðurstöðuna þegar Morgunblaðið náði tali af honum í gær. „Mikilvægt er að umbótatillögunum, sem samþykktar voru í morgun, verði fylgt eftir af nýjum forseta og Gianni er rétti maðurinn,“ sagði Geir og vísaði þar í breytingatillögu sem snýr að ýmsu verklagi hjá FIFA og var samþykkt á þinginu.

Geir hefur haft kynni af Infantino á vettvangi UEFA og ber honum vel söguna. „Í starfi UEFA hefur sýnt sig að hann er frábær stjórnandi. Klókur, útsjónarsamur og nær til allra enda er hann frábær tungumálamaður. Hann er ótrúlega vel liðinn og er mikill framkvæmdamaður. Mín kynni af honum hafa verið ánægjuleg enda bera honum allir vel söguna. Okkar samskipti hafa verið mjög góð.“

Geir er bjartsýnn á að Infantino verði forseti sem margir geti sætt sig við og segir stemninguna á þinginu benda til þess. „Tvímælalaust. Ég skrifaði sjálfur á Twitter að kjörið væri sigur fyrir fótboltann. Hann kveikir nýja von fyrir fótboltann og ímynd fótboltans. Mikilvægt er að taka á málum og hann er inni í öllum málum. Hann hefur komið að þróun til hins betra sem UEFA hefur gengið í gegnum. Starfsemin hefur eflst alveg gríðarlega og hann er maðurinn á bak við margt í þeim efnum þó ekki sé hægt að þakka honum einum fyrir. Hann og Platini hafa starfað frábærlega saman,“ sagði Geir við Morgunblaðið.

Tæpt í 1. umferð

Infantino hafði betur gegn Salman bin Ebrahim al Khalifa frá Barein, 88 atkvæði gegn 85, í fyrstu umferð kosningarinnar í Zürich í gær, en þá hefði þurft 138 atkvæði til að sigra. Ali bin-al Hussein fékk 27 atkvæði og Jérome Champagne 7.

Í annarri umferð nægði hreinn meirihluti, 104 atkvæði, en þá fékk Infantino 115 gegn 88 hjá Salman en fjórir kusu Ali. Það er því ljóst að 27 af þeim 34 sem höfðu kosið Ali og Champagne í fyrstu umferð voru með Infantino sem valkost númer tvö.

Gianni Infantino er 45 ára Svisslendingur sem kom fyrst til starfa hjá UEFA árið 2000 og hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra þar undanfarin ár.