Það er merkilegt að meirihlutinn í borginni skuli svo dáðlaus að tillögu frá minnihlutanum þurfi um jafn sjálfsagðan hlut og viðhald gatna

Viðhald gatna borgarinnar ætti að vera sjálfsagður hlutur en það er öðru nær. Svo virðist sums staðar sem göturnar séu hreinlega að leysast upp og víða er að finna holur sem geta beinlínis skemmt bíla hafi ökumenn ekki varann á. Á nokkrum stöðum hefur verið gripið til holufyllinga til bráðabirgða þegar helstu umferðaræðar hafa verið orðnar of varasamar. Annars staðar drabbast göturnar niður smám saman.

Nú hafa Sjálfstæðisflokkur og Framsókn og flugvallarvinir lagt fram á borgarstjórnarfundi tillögu um að þegar í stað verði farið í viðgerðir á þeim holum í gatnakerfinu sem talið er að myndi slysa- og tjónahættu. Í tillögunum eru nefndar djúpar holur við Austurberg, Álfabakka, Neshaga og Tungusel og sagt að mörg dæmi séu um að þær hafi valdið tjóni á bifreiðum og skapað slysahættu.

„Það hefur allt of lítið fé verið sett í endurbætur á kerfinu,“ sagði Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, í frétt sem birtist á mbl.is í gær. „Það hefur þær afleiðingar að það verða vandræði eins og við fengum að kynnast síðasta vetur og aftur núna.“

Stjórn borgarinnar er ekki skemmtisigling. Frumskylda meirihlutans er að sjá til þess að grunnþjónustu sé sinnt í borginni. Mikill misbrestur hefur orðið á því í tíð núverandi meirihluta og virðist sama hvar borið er niður; borgin stenst ekki samanburð við önnur stór sveitarfélög en ætti þó að hafa fjárhagslega burði til þess að standa sig vel í krafti stærðarinnar. Þegar borgin vermdi botninn annað árið í röð í könnun á þjónustu stærstu sveitarfélaganna var ákveðið að hlusta ekki á óánægjuraddirnar, heldur gera aðra könnun. Sama afneitunarhyggja virðist ráða ríkjum þegar kemur að götum borgarinnar. Þær eru látnar drabbast niður í stað þess að gera við þær.