Bjarki Þór Elvarsson er fæddur 1981. Hann lauk stúdentsprófi frá MH 2000, BSc-prófi í stærðfræði frá HÍ 2003 og MSc-prófi frá Háskólanum í Warwick, Englandi. Bjarki hlaut styrk frá Hafrannsóknastofnun við doktorsnámið.
Bjarki Þór Elvarsson er fæddur 1981. Hann lauk stúdentsprófi frá MH 2000, BSc-prófi í stærðfræði frá HÍ 2003 og MSc-prófi frá Háskólanum í Warwick, Englandi. Bjarki hlaut styrk frá Hafrannsóknastofnun við doktorsnámið. Meðfram því starfaði hann sem ráðgjafi hjá tölfræðimiðstöð HÍ og á veiðiráðgjafarsviði Hafrannsóknastofnunar. Bjarki er giftur Lindu Maríu Þorsteinsdóttur og eiga þau þrjú börn, Ríkarð Flóka , Guðbjörgu Elísu og Þorstein Hilmar .

Bjarki Þór Elvarsson hefur hlotið doktorsgráðu í tölfræði frá Raunvísindadeild HÍ. Ritgerðin ber heitið Tölfræðileg líkön af fjölstofna sjávarvistkerfum (Statistical models of marine multispecies ecosystems). Leiðbeinandi var dr. Gunnar Stefánsson, prófessor við HÍ.

Efni ritgerðarinnar má í stórum dráttum skipta í tvennt: 1) Þróun á aðferðafræði til þess að meta mátgæði, fá óvissumat og aðstoða við val á líkönum og 2) beitingu aðferðanna við rannsókn á sambandi hrefnu og þorsks á hafsvæðinu í kringum Ísland. Þessum rannsóknum er lýst í fimm greinum.

Í grein I er gerð grein fyrir niðurstöðum greiningar á fæðuvistfræði hrefna á Íslandsmiðum. Helstu niðurstöður gefa til kynna að sandsíli virðist vera mikilvægur þáttur í fæðu hrefna. Þorskfiskar voru stærra hlutfall fæðu hrefnunnar en áður var talið. Niðurstöður rannsóknanna eru settar fram með óvissumati byggðu á endurvalsaðferð þar sem sérhver hvalur er meðhöndlaður sem úrtaksstærð. Í grein V er lýst tveggja stofna líkani af viðgangi hrefnu og þorks á Íslandsmiðum þar sem afrán hrefnu er metið út frá niðurstöðunum úr grein I. Í grein II er endurvalsaðferð fyrir eðlisólík gagnasett þróuð og beitt á líkan fyrir viðgang þorsks á Íslandsmiðum. Aðferðin er því næst borin saman við hefðbundnar normalnálganir á óvissu þar sem samdreifnifylkið er nálgað með andhverfu Hessian-fylkisins af neikvæðum logra sennileikafallsins fengið við lággildi. Niðurstöðurnar gefa það til kynna að endurvalsaðferðin henti betur en Hessian-nálganir við mat á óvissu fyrir þenan flokk líkana. Grein III lýsir þróun á RGadget, R pakka sem inniheldur safn tóla sem nota má við þróun líkana með Gadget. Í grein IV er prófstyrksreikningum fyrir hugsanlegar erfðamerkingatilraunir sem ætlaðar eru til samanburðar tveggja tilgátna um stofnsamsetningu á grundvelli erfðafræðilegrar sifjagreiningar lýst. Það að rannsaka sifjar, jafnframt því að beita hefðbundnum merkingaraðferðum, styrkir umtalsvert niðurstöður rannsókna á litlum stofneiningum eins og langreyðum í Norður-Atlantshafi.