Vilmundur Víðir Sigurðsson fæddist 5. maí 1944. Hann lést 26. júlí 2016.

Útförin fór fram 4. ágúst 2016.

Vilmundur Víðir Sigurðsson var einstaklega vandaður maður. Við vorum bræðrasynir og vinir frá fyrstu tíð. Við ólumst upp saman austur á Eskifirði í hópi leikglaðra barna sem fléttuðu saman íþróttir og leik, erfiði og sköpun. Víðir var þar jafnan fremstur í flokki, fullur áhuga, yfirvegaður og útsjónarsamur. Heimili Víðis að Víðivöllum var eins konar félagsmiðstöð fyrir börnin í nágrenninu. Þar bjuggu heiðurshjónin Halldóra Guðmundsdóttir og Sigurður Magnússon. Þau hvöttu okkur til dáða og fylgdust með því sem við vorum að bralla, full áhuga. Börnin á heimilinu, Viðir og Björg, sáu til þess að alltaf var líf og fjör – aldrei dauð stund.

Víðir hafði sérlega gaman af að glíma við verkefni sem kröfðust færni. Hann var flinkur að smíða og teikna, góður í íþróttum og áhugasamur um alla tækni. Það var þó fótboltinn sem átti hug hans allan. Hann var óþreytandi að leika sér með bolta enda snemma allra manna leiknastur. Hann áttaði sig ungur á því að leikskilningur og staðsetning skipta öllu máli í fótbolta.

Svo kom síldin. Við frændur byrjuðum í tómu tunnunum, staðráðnir í því að vinna okkur upp.Víðir var aðeins 15 ára gamall þegar hann gerðist fullgildur háseti hjá Sigurði föður sínum á aflaskipinu Víði SU 175. Þar varð hann snemma sérfræðingur í notkun asdiksins, en leikni í meðferð þess réði úrslitum um það hvernig fiskaðist á síld á þessum árum.

Víðir var gæfumaður. Hann var lánsamur að eiga langa og farsæla sambúð með konu sinni, Jóhönnu Þorvaldsdóttur, í meira en hálfa öld. Þar rugluðu saman reytum tvær sjálfstæðar öðlingsmanneskjur sem sitt í hvoru lagi stóðu svo sannarlega fyrir sínu, en saman voru þau ómótstæðileg.

Víðir hafði gaman að því að pæla í hlutunum og velta því fyrir sér hvernig best væri að standa að verki. Hann sökkti sér ofan í verkefnin, óþreytandi að ræða málin í leit að bestu lausn. Hann átti auðvelt með að leggja persónulega hagsmuni og sjónarmið til hliðar, draga fram ólík sjónarhorn og greina kjarna hvers máls. Við þetta bættist að Víðir var hreinskiptinn og traustur drengskaparmaður sem kastaði aldrei hendi til nokkurs verks. Því þarf engan að undra hversu vel hann leysti öll verkefni af hendi.

Kennsla hans í Stýrimannaskólanum í meira en 30 ár var viðfræg. Víðtæk þekking hans og góðir hæfileikar til þess að útskýra erfið viðfangsefni gerðu hann að afburða kennara. Hann lét sér annt um nemendur, gerði til þeirra kröfur og hvatti þá til dáða.

Í Namibíu unnu Víðir og samstarfsfólk hans ómetanlegt starf í uppbyggingu sjávarútvegs. Namibía var fátækt land með auðug fiskimið, sem ekki voru nýtt, enda sjómennska lítið stunduð atvinnugrein. Íslendingarnir lögðu sitt af mörkum til þess að breyta Namibíu í öfluga fiskveiðiþjóð.

Nú er aldan hnigin, leiknum er lokið. Við kveðjum góðan dreng með söknuði. Hins er rétt að minnast að það voru forréttindi að eiga samleið með Víði. Ég sendi Jóhönnu, Sigurði, Vilborgu, Þorvaldi og fjölskyldum þeirra sem og Björgu og fjölskyldu hennar mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Þórólfur Þórlindsson.