Sauðfjárslátrun Mikill annatími er framundan í sauðfjársláturhúsum landsins. Fjöldi erlendra starfsmanna bætist í hópinn og tekur á því.
Sauðfjárslátrun Mikill annatími er framundan í sauðfjársláturhúsum landsins. Fjöldi erlendra starfsmanna bætist í hópinn og tekur á því. — Morgunblaðið/RAX
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Sauðfjárslátrun haustsins hefst næstkomandi mánudag. Þá verður fyrsti dagurinn í svokallaðri sumarslátrun hjá Sláturhúsi KVH á Hvammstanga. Almenn haustslátrun hefst 1.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Sauðfjárslátrun haustsins hefst næstkomandi mánudag. Þá verður fyrsti dagurinn í svokallaðri sumarslátrun hjá Sláturhúsi KVH á Hvammstanga. Almenn haustslátrun hefst 1. september hjá Norðlenska á Húsavík en mörg stærstu sláturhúsin hefja slátrun 12. september.

Búist var við hræringum á markaðnum vegna þess að Norðlenska tilkynnti í fyrra að sláturhúsinu á Höfn í Hornafirði yrði lokað í haust. Það átti að gera í hagræðingarskyni og auka á móti slátrun á Húsavík. Á Höfn var slátrað yfir 30 þúsund fjár í fyrra. Vegna taps af sauðfjárslátrun og sölu kindakjöts breytti Sláturfélag Suðurlands skipulagi slátrunar og hafði ekki áhuga á að bæta miklu við sig að þessu sinni. Staðan hefur breyst því Norðlenska hefur ákveðið að slátra 18-19 þúsund fjár á Höfn en flytja meira fé til slátrunar á Húsavík.

Dreifa slátrun betur

„Það hefur orðið breyting á aðstæðum frá fyrri tíð. Þá voru sláturleyfishafar að slást um innlegg og keyrðu um allt land til að sækja lömb. Ekki er mikið vit í því vegna kostnaðar og dýravelferðar,“ segir Steinþór Skúlason, forstjóri Sláturfélags Suðurlands. Hann bendir á að mikill taprekstur sé á sauðfjárslátrun og sölu kindakjöts og við því verði að bregðast. Sláturfélagið gerir það meðal annars með því að lengja sláturtíð og minnka slátrun á hverjum degi, til að minnka yfirvinnu. Í þessu skyni hefur verðhlutföllum verið breytt, hærra verð er greitt í upphafi sláturtíðar og í lok hennar, en verið hefur, en lægra um miðbikið. Markmiðið er að gera bændur jafnsetta, hvenær sem þeir slátra.

Sláturfélagið reiknar með lítilsháttar aukningu í slátrun, miðað við síðasta ár. Þeir bændur sem hafa verið í viðskiptum munu hafa forgang og fá að panta slátrun áður en tekið er við nýjum viðskiptavinum. Þá verður innheimtur flutningskostnaður af nýjum viðskiptavinum, sem eru utan félagssvæðis SS.

Mikill taprekstur

Sláturleyfishafar hafa ekki gefið út hvaða verð þeir ætla bjóða fyrir innleggið. Búast má við að fyrstu verðskrár verði birtar í næstu viku. Sauðfjárbændur krefjast hækkunar vegna kostnaðarhækkana og aukinnar sölu og hafa gefið út viðmiðunarverð.

Stjórnendur sláturhúsa benda aftur á móti á mikinn taprekstur af greininni. Steinþór telur að á síðasta ári hafi verið 10-12% tap af sauðfjárslátrun og sölu kindakjöts, miðað við veltu. Það þýðir að 160-180 milljóna króna tap hefur verið á sláturhúsi sem slátrar 100 þúsund fjár. Steinþór segir að tapið verði meira í ár, að óbreyttu. Ýmsar aðstæður hafi versnað og óvissa ríki um aðrar.

Ágúst Torfi Hauksson, framkvæmdastjóri Norðlenska, segir að menn þar séu að velta verðinu fyrir sér en það hafi ekki verið ákveðið. Bendir hann á að tap hafi verið á sauðfjárslátrun og eitthvað þurfi að gera til að bregðast við því. Það sé meðal annars verið að gera með breytingum á skipulagi í sláturhúsinu á Húsavík.