Einn merkasti áfanginn í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna, sem er auðvitað órofaþáttur í frelsi einstaklinganna, var árið 1911, þegar Alþingi samþykkti frumvarp Hannesar Hafsteins um jafnan rétt kvenna og karla til menntunar, námsstyrkja og embætta.

Einn merkasti áfanginn í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna, sem er auðvitað órofaþáttur í frelsi einstaklinganna, var árið 1911, þegar Alþingi samþykkti frumvarp Hannesar Hafsteins um jafnan rétt kvenna og karla til menntunar, námsstyrkja og embætta. Voru Íslendingar ein fyrsta þjóðin til að tryggja þennan mikilvæga rétt. Hann skipti hæfileikakonur miklu meira máli en sá réttur, sem konur fengu 1915 til að kjósa þingmenn á fjögurra ára fresti.

Hannes Hafstein var sannfærður jafnréttissinni og flutti frumvarpið í samráði við vinkonu sína Bríeti Bjarnhéðinsdóttur. Hann hafði raunar líka látið það verða eitt sitt fyrsta verk sem ráðherra 1904 að opna Lærða skólann í Reykjavík fyrir konum. Í Ritmennt 2005 segir Auður Styrkársdóttir stjórnmálafræðingur, að Hannes verðskuldi „nafngiftina leiðtogi fyrir að hafa greitt kvenréttindum götu á Íslandi — þótt Bríet sé auðvitað Leiðtoginn“.

Auður veltir fyrir sér, hvaðan Hannesi hafi komið áhugi á jafnrétti kynjanna, og bendir á, að hann var „umkringdur sterkum konum“ og sjö dætra faðir. En svipað mátti segja um marga aðra karla þeirrar tíðar, og aðhylltust þeir þó ekki jafnrétti. Sennilegri skýring blasir við. Á námsárum sínum í Kaupmannahöfn sat Hannes við fótskör hins víðkunna rithöfundar Georgs Brandesar, sem hafði snarað riti Johns Stuarts Mills, Kúgun kvenna (The Subjection of Women), á dönsku sama ár og hún kom út á ensku 1869 og aukið við formála, þar sem hann tók afdráttarlaust undir með Mill.

Brandes hafði mikil áhrif á marga aðra Hafnarstúdenta, þar á meðal eflaust á Sigurð Jónasson frá Eyjólfsstöðum í Vatnsdal, sem íslenskaði bók Mills um 1885, og kom hún út árið 1900, en þá var Sigurður látinn af slysförum. Svo illa vildi til, þegar íslenska þýðingin var endurútgefin 1997, að misfarið var með nafn Sigurðar og hans að engu getið, en bætt var úr því í endurprentun 2003.

Svanur Kristjánsson stjórnmálafræðiprófessor gerir líka minna úr afreki Hannesar Hafsteins með lögunum 1911 en efni standa til, því að hann segir í Ritinu 2008, að Hannes hafi þá verið ráðherra. Hann var þá í stjórnarandstöðu, eins og prófessorinn ætti að vita. Hannes var ráðherra 1904-1909 og 1912-1914.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is