Alice Rogoff á fundi Arctic Circle, en hún situr í ráðgjafaráði Pt Capital.
Alice Rogoff á fundi Arctic Circle, en hún situr í ráðgjafaráði Pt Capital. — Morgunblaðið/Golli
Ólafur Fáfnir Sigurgeirsson olafur@mbl.is Venture North leitar fjárfestingartækifæra á Íslandi, en forsvarsmaður þessstarfaði áður á vettvangi fyrirtækisins sem keypt hefur símafélagið Nova.

Fyrirtækið Venture North Group, sem rekið er frá Anchorage í Alaska, hefur á undanförnum misserum skoðað fjárfestingartækifæri á Íslandi og Grænlandi. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hefur forsvarsmaður fyrirtækisins, Robert Sheldon, haft augastað á tækifærum hérlendis allt frá árinu 2010. Hann starfaði áður á vettvangi Pt Capital, sem í liðinni viku keypti fjarskiptafélagið Nova.

Á þessari stundu liggur ekki fyrir hvar Venture North Group mun drepa niður fæti í íslensku efnahagslífi og þá hafa ekki fengist upplýsingar um fjárfestingargetu þess.

Umtalsverð fjárfestingargeta

Pt Capital er, eins og Venture North Group, með höfuðstöðvar sínar í Anchorage í Alaska. Fjárfestingar eignastýringarfélagsins fara í gegnum framtakssjóð sem nefnist Pt Arctic Fund I og samkvæmt skjölum sem Pt Capital lagði inn hjá Bandaríska fjármálaeftirlitinu (SEC) í nóvember síðastliðnum er áætluð stærð sjóðsins um 300 milljónir Bandaríkjadala. Stjórnarformaður Pt Capital, Mead Treadwell, sagði hins vegar á fundi á Akureyri í september síðastliðnum að sjóðurinn yrði 0,5 til einn milljarður Bandaríkjadala að stærð þegar hann yrði fullfjármagnaður og að fjöldi fjárfestinga yrði á bilinu 8 til 12.

Pt Capital hefur tengsl við stóra fjárfestingarsjóði í Bandaríkjunum. Meðal stofnenda félagsins er Alice Rogoff, en hún situr í ráðgjafaráði Pt Capital og er gift David Rubinstein sem er einn stofnenda Carlyle Group, fjárfestingarsjóðs með 176 milljarða Bandaríkjadala í stýringu. Einnig er Guggenheim Partners meðal fjárfesta í sjóðum Pt Capital, samkvæmt frétt er birtist í DV í vikunni. Í blaðagrein sem birtist í Washington Post í fyrra er fjallað um tengsl Rogoff við Ísland. Um það leyti sem hún keypti dagblaðið Alaska Dispatch News varð hún fyrir áhrifum af skrifum Scott Borgerson, sem er fyrrverandi liðsforingi hjá Bandarísku strandgæslunni og fræðimaður hjá Council of Foreign Relations en er nú forstjóri Carcometrics, fjárfestingarfyrirtækis sem nýtir sér upplýsingar um skipaferðir til að spá fyrir um hugsanlegt flæði skipsfarma og áhrif þess á verð hrávara og gjaldmiðla. Borgerson hefur bent á mikilvægi norðurslóða í kjölfar hnattrænnar hlýnunar og að siglingaleiðir séu að opnast yfir norðurpólinn. Í grein sem hann skrifaði í tímaritið Foreign Affairs árið 2013 og nefnist The Coming Arctic Boom segir hann meðal annars að Anchorage og Reykjavík geti orðið Dúbaí og Singapúr norðursins þegar þessar skipasiglingaleiðir opnist.

Tengsl við Arctic Circle

Árið 2001 skipulagði Rogoff ráðstefnu um innviðafjárfestingar og efnahagsleg tækifæri í Alaska undir yfirskriftinni Arctic Imperative Summit. Meðal fundargesta var þáverandi forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, en hann hafði hitt Rogoff í móttöku í New York. Ári síðar stóð Rogoff fyrir annarri ráðstefnu, en meðal gesta var Ólafur Ragnar, sem samkvæmt grein Washington Post var mjög áhugasamur um að koma að norðurslóðamálefnum. Árið 2013 flugu Rogoff og Ólafur Ragnar til Washington, þar sem þau tilkynntu stofnun Arctic Circle-ráðstefnunnar. Alice Rogoff, Scott Borgerson og Hugh Short, forstjóri Pt Capital, sitja öll í ráðgjafaráði Arctic Circle.