Þorvaldur Gylfason prófessor heldur því fram erlendis, að Ísland hafi löngum verið gerspillt. Auðvitað var landið ekki laust við spillingu fremur en önnur lönd. Til dæmis fengu ýmsir háskólakennarar mjög hagstæð lán úr Sáttmálasjóði (sem Danir lögðu honum til) upp úr stríði til að reisa hús við Aragötu. Og ef þeir urðu ráðherrar í þokkabót, þá gátu þeir keypt áfengi á kostnaðarverði og haldið dýrlegar veislur í hinum ódýru og þó veglegu húsum sínum. En Ísland var samt áreiðanlega ekki spilltara en flest önnur lönd í Evrópu, til dæmis Norðurlönd, þar sem ríkisvaldið virtist svo samgróið jafnaðarmannaflokkunum, að þeir beittu jafnvel leynilögreglunni til að njósna um andstæðinga.
Þorvaldur skrifar um Ísland í Milken Institute Review 2009: „Party cronies usurped the agency for major firms such as Coca-Cola and General Motors by convincing their foreigner partners that only they would be able to procure the permits needed to import foreign exchange.“ Ég skrifaði æviágrip Björns Ólafssonar, stofnanda verksmiðjunnar, í Andvara 2010, og má nálgast það á Netinu. Björn ólst upp í sárri fátækt, en var harður af sér og gerðist efnaður heildsali og fulltrúi verslunarstéttarinnar í gjaldeyris- og innflutningsnefnd til 1940, en þá sagði hann sig úr henni vegna óánægju með stefnu hennar.
Í ágúst 1941 var Björn Ólafsson á förum til Bandaríkjanna í viðskiptaerindum. Leitaði þá ríkisstjórnin til hans um að setjast í nefnd til að semja um viðskiptin við Bandaríkin, sem voru að taka við vörnum landsins. Samþykkti Björn það gegn því að fá leyfi til að sinna líka einkaerindum sínum, enda rækjust þau ekki á nefndarstörfin. Í Bandaríkjunum falaðist Björn eftir umboði fyrir Coca Cola drykkinn. Ráðamenn gosdrykkjafyrirtækisins vildu frekar, að hann fyllti á flöskurnar á Íslandi en að hann flytti þær frá Bandaríkjunum, og reisti Björn þá áfyllingarstöð í Reykjavík.
Björn Ólafsson var þá ekki í góðu sambandi við forystumenn Sjálfstæðisflokksins, enda fulltrúi verslunarstéttarinnar, sem var andvíg innflutningshöftum. Sambandið versnaði enn, þegar hann settist í utanþingsstjórnina, sem Sveinn Björnsson forseti skipaði í óþökk sjálfstæðismanna. Hann var því eins langt frá því að vera „party crony“ og hægt var að hugsa sér, og þegar hann settist á lista Sjálfstæðisflokksins 1946 sem fulltrúi verslunarstéttarinnar, féll hann um sæti vegna skipulagðra útstrikana. Björn fékk áfyllingarleyfið í Bandaríkjunum 1941 af þeirri einföldu ástæðu, að ytra leist mönnum vel á þennan dugnaðarfork. Hann sat þá hvorki í gjaldeyris- og innflutningsnefnd né var vildarvinur forystu Sjálfstæðisflokksins. Rógur Þorvaldar Gylfasonar um hann er tilhæfulaus.
Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar
Hannes H. Gissurarson
hannesgi@hi.is