Mark Brolin
Mark Brolin
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mark Brolin, Jan-Erik Gustafsson, Helle Hagenau, Lave K. Broch, Ulla Klötzer, Erna Bjarnadóttir,: "Ný byrjun, án ESB-spennitreyjunnar, myndi blása nýju lífi í samfélagið, sérstaklega nú þegar gullin tækifæri gefast um að stofna til nýrra hagnýtra tengsla við aðra mikilvæga samstarfsaðila á sviði viðskipta og öryggismála."

Árið 1972 gengu Danir og Norðmenn til atkvæðagreiðslu um inngöngu í EB. Já-hliðin lofaði efnahagslegum ávinningi og hélt því fram að Nei myndi leiða til atvinnuleysis, hækkaðrar leigu og gengislækkunar. Danmörk sagði já, Noregur nei. 1994 gengu Svíar, Norðmenn og Finnar til atkvæðagreiðslu um inngöngu í ESB. Tilboðið? Ekki aðeins velmegun heldur einnig friður, pólitískur stöðugleiki, nauðsynleg pólitísk samræða og verndun lýðræðis. Ekki myndi halla á sjálfstæði aðildarríkja; hvert þeirra hefði neitunarvald og innlendir stjórnmála- og embættismenn myndu standa gegn öllum tilraunum til ofþenslu ESB. „Gullnar“ meginreglur í hagfræði myndu tryggja örugga skattheimtu í öllum ríkjum sambandsins. Því meiri samruni, því betra; ríki sem stæðu utan sambandsins myndu óhjákvæmilega dragast aftur úr. Svíþjóð og Finnland gengu í sambandið, Noregur hafnaði aftur aðild.

Hver varð þróunin í raun? Neitunarvaldið er farið og Brussel fer nú með svo mikið vald að varla er hægt að líta á aðildarríkin sem sjálfstæð. Dæmi Bretlands sýnir hversu mikilli vanþóknun aðildarríki mæta sem eru á móti frekari samruna. Brussel hefur, líkt og Washington, orðið að Mekka valdamikilla lobbýista. Af hverju? Að hluta til vegna mun minna gagnsæis heldur en í landsmálum innan ríkja. Að hluta til vegna þess að býttin í Brussel henta stærri fyrirtækjum og stofnunum mun betur en þeim minni, sem hafa ekki efni á að borga fyrir ferðir til Brussel, lögfræðinga og almannatenglum til að hafa áhrif á ákvarðanir ESB. Spillt samband leiðandi stjórnmálamanna og lobbýistarisa er því kerfislægt. Því er hætt við að þeir sem standa utan við hagsmunanet ESB eigi erfitt uppdráttar, þ.ám. framsækin fyrirtæki, sem skapa atvinnu og leggja grunninn að velferð komandi kynslóða. Það ætti ekki að koma á óvart að athafnakraftur og vægi evrópska hagkerfisins sé í stöðugri hnignun. Hvar er ástandið verst? Í þeim ríkjum sem lengst eru runnin inn í sambandið.

Vegna vaxandi tortryggni kjósenda í garð ESB glíma mörg aðildarríkjanna við pólitískan óstöðugleika heima fyrir. Einnig er vaxandi núningur á milli aðildarríkja sem hafa ósamrýmanleg markmið innan sambandsins. Þannig hefur hinn meinti friðarstillir orðið að uppsprettu ágreinings. Almenn umræða er heftari en nokkru sinni frá lýðræðisvæðingu; meðferðinni á gagnrýnendum ESB virðast lítil siðferðistakmörk sett. Og fólkið? Talsmenn ESB gáfu kjósendum toppeinkunn á meðan þeir studdu sambandið. Nú, þegar hljóðið í kjósendum er blandað efasemdum, er stórum hluta Evrópubúa lýst sem þröngsýnum, gamaldags og einangrunarsinnuðum eða á valdi „myrkra afla“.

Boðskapurinn? Fólk – við – erum ekki fær um að höndla freistingarnar, sem ávallt fylgja því þegar mikið vald safnast fyrir á toppi valdapíramíta, þ.m.t. freistinguna um að baða sig í upphafinni sjálfsmynd sem samræmist pólitískum rétttrúnaði hvers tíma.

Tíundi áratugurinn var án efa gullöld Evrópuverkefnisins. Í kjölfar þess náði ESB nægilegum völdum til að byrja að þenjast út fyrir alvöru. Í dag er kerfið mjög hallt undir „skrifstofublækur“: bjúrókrata, lobbýista, fræðimenn og aðra styrkþega sem gefa frá sér rétta (pólitíska) hávaðann. Oftar en ekki á kostnað þeirra sem framsýnni og hagsýnni eru; þeirra sem raunverulega láta hjól samfélagsins snúast.

Annað atriði. ESB hampar ekki margbreytileika. Tilraun alþjóðasinna til að fella alla undir sama yfirvald og hugmyndafræði elur af sér einsleitni og undirgefni. Að vera alþjóðlegur er annað. Það þýðir að viðurkenna annað fólk og landamæri þess. Pólitískt óhreint? Algjörlega, en einnig langbesta leiðin til að varðveita stórkostlegan margbreytileika og litafjölbreytileika Evrópu.

Fyrirmyndarhugsuðir munu ávallt halda því fram að gagnrýnendur skilji ekki „sýnina“. Að fólk ætti því að láta valdið í hendur hinna „vel upplýstu“, sem tróna þá á toppi valdapíramítans. Til allrar hamingju hrífast kjósendur ekki eins auðveldlega af sófakenningum sem standast ekki í reynd. Það sýnir sig að besta pólitíska þumalputtareglan er að leyfa aldrei skerðingu lýðræðis.

Noregur og Ísland, Norðurlandaþjóðirnar sem standa utan við ESB, eru með aðild sinni að EES-samningunum föst í eins konar hálfgildingsaðild. Frelsi þeirra er hlutfallslega meira, en svigrúm löggjafans er samt sem áður takmarkað; lýðræði skerðist á sama tíma og ríkisstjórnir verða að búa við óþægilega nánd við hagsmunanet Evrópusambandsins. Við álítum löngu tímabært að Svíþjóð, Danmörk, Finnland, Noregur og Ísland hætti að binda vonir sínar – og stjórn – við tilraun sem þegar hefur hafið sinn svanasöng. Ný byrjun, án ESB-spennitreyjunnar, myndi blása nýju lífi í samfélagið, sérstaklega nú þegar gullin tækifæri gefast um að stofna til nýrra hagnýtra tengsla við aðra mikilvæga samstarfsaðila á sviði viðskipta og öryggismála. Bretland er augljósasta dæmið. Norðurlöndin myndu að sjálfsögðu leitast við að halda áfram góðum tengslum við ríki Evrópusambandsins, án allrar þrúgandi pólitískrar yfirbyggingar. Að gera ekkert myndi að okkar áliti líklega tryggja áralanga (áframhaldandi) pólitíska pattstöðu.

Talsmenn Evrópusambandsins halda gjarnan fram að ESB sé nútímalegt. Það er svo fjarri sanni. Þungar og klasturslegar yfirbyggingar sem ekki þjóna fólkinu sem þær eru hannaðar til að þjóna tilheyra fortíðinni. Það sem eitt sinn gerði Evrópu einstaka var a.m.k. það að norðurhluti álfunnar klauf sig frá þeirri þunglamalegu pólitísku og efnahagslegu samfélagsskipan. Þau tök þarf að rifja upp aftur nú. Ekkert myndi stuðla betur að velmegun og friði.

Mark Brolin er sænsk-breskur stjórnmálaspekingur og höfundur „A State of Independence: Why the EU is the Problem not the Solution“; Jan-Erik Gustafsson er stjórnarformaður Nej till EU í Svíþjóð; Helle Hagenau er alþjóðafulltrúi og fv. aðalframkvæmdastjóri Nei til E og fv. stjórnarmaður í TEAM og Trade Unions against the Single Currency; Lave K. Broch er varaþingmaður á Evrópuþinginu fyrir Folkebevægelsen mod EU og stjórnarmaður í The European Alliance of EU-Critical Movements (TEAM); Ulla Klötzer er fv. stjórnarformaður People's Movement against the EU og stjórnarmaður í TEAM og Erna Bjarnadóttir er formaður Heimssýnar og hagfræðingur Bændasamtaka Íslands.