[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÚR BÆJARLÍFINU Skapti Hallgrímsson Akureyri Akureyringurinn Káinn, Kristján Níels Jónsson, verður í brennidepli á málþingi í hátíðarsal Háskólans á Akureyri á laugardaginn. Hann fæddist 1860 og flutti 18 ára vestur um haf, þar sem hann lést 1936.

ÚR BÆJARLÍFINU

Skapti Hallgrímsson

Akureyri

Akureyringurinn Káinn, Kristján Níels Jónsson, verður í brennidepli á málþingi í hátíðarsal Háskólans á Akureyri á laugardaginn. Hann fæddist 1860 og flutti 18 ára vestur um haf, þar sem hann lést 1936. Kímniskáldið Káinn orti á efri árum:

Mér er eins og öðrum fleiri,

ættjörð týnd og gleymd,

samt er gamla Akureyri,

enn í huga geymd.

Skáldið gleymdi sem sagt aldrei gamla heimabænum. Sneri Káinn þó aldrei aftur heim, ekki fyrr en nú, þegar afsteypa af amerískum minnisvarða um hann verður afhjúpuð nálægt æskuheimili Káins í Innbænum, í Fjörunni eins og svæðið var jafnan kallað og sumir gera enn.

Málþing um Káin verður svo sem fyrr segir í Háskólanum og þar er margt spennandi á dagskránni. Allir eru velkomnir og enginn aðgangseyrir. Að þinginu stendur Þjóðræknisfélag Íslendinga í samvinnu við Amtsbókasafnið á Akureyri og Háskólann á Akureyri.

Samkoman hefst kl. 10 með ýmsum ávörpum og fyrir hádegi koma m.a. fram mæðginin Eleanor Geir Biliske og Ed Biliske, en Eleanor er sennilega eina núlifandi manneskjan sem hafði persónuleg kynni af Káin. Hann var ráðinn vinnumaður á bæ ömmu hennar, ekkju með fjögur börn, árið 1894 og starfaði þar í fjóra áratugi. Eleanor var tíu ára þegar Káinn lést.

Á málþinginu flytja erindi sagnfræðingarnir Jón Hjaltason og Jónas Þór, Viðar Hreinsson bókmenntafræðingur, Böðvar Guðmundsson rithöfundur, Hulda Karen Daníelsdóttir, sérfræðingur hjá Menntamálastofnun, Helgi Freyr Hafþórsson, verkefnastjóri við HA, Egill Helgason dagskrárgerðarmaður, Sunna Pam Furstenau, forseti Icelandic Roots og forseti Þjóðræknisfélags Íslendinga í Norður-Ameríku, og Bragi Valdimar Skúlason, Baggalútur, sem gert hefur lög við ýmsa texta skáldsins og mun hljómsveitin flytja nokkur þeirra.

Minnisvarðinn um Káin verður afhjúpaður að málþinginu loknu, um kl. 17.15. Er það afsteypa af minnisvarða í Eyford í Norður-Dakóta.

Akureyrarvaka verður á föstudag og laugardag, en hún er jafnan haldin sem næst afmælisdegi bæjarins, 29. ágúst.

Formleg setning er að venju í rökkurró og rómantík í Lystigarðinum á föstudagskvöld og hefst kl. 21.00. Úr rómantíkinni verður hægt að halda yfir í Hryllingsvökuna í Íþróttahöllina þar sem þemað er svart, og ungt og efnilegt tónlistarfólk á Norðurlandi heldur uppi fjörinu.

Fjöldi listsýninga er á Akureyrarvöku. Ein þeirra, Fólkið í bænum sem ég bý í , verður opnuð á Ráðhústorgi kl. 20.30 á föstudagskvöld, en þar er sjónum beint að átta manns, fjórum konum og fjórum körlum. Þar verða sýndar átta ör-heimildarmyndir.

Hvert atriðið rekur annað á laugardag. Nánar upplýsingar um dagskrá Akureyrarvöku er að finna á síðunni www.akureyrarvaka.is