Sigurður fylgdist auðvitað vel með úrslitakeppni Evrópumóts kvenna í knattspyrnu í júlí og það var því ekki hægt annað en að beina sjónum okkar aðeins að kvennalandsliðinu.

Sigurður fylgdist auðvitað vel með úrslitakeppni Evrópumóts kvenna í knattspyrnu í júlí og það var því ekki hægt annað en að beina sjónum okkar aðeins að kvennalandsliðinu.

„Þetta voru auðvitað ákveðin vonbrigði, það skapaðist fullmikil bjartsýni eftir undankeppnina, riðillinn var léttur og leikirnir margir hverjir ójafnir. Við vorum í 1. styrkleikaflokki í fyrsta sinn og þar af leiðandi andstæðingarnir lakari en áður og sigur í þessum riðli gaf ekki rétta mynd af styrk liðsins,“ segir Sigurður Ragnar.

„Það var lítið uppspil í liðinu og nánast engin marktækifæri sköpuðust í þessum þremur leikjum í úrslitakeppninni. Það eru ekki þættir sem einkenna lið sem ætlar að fara alla leið eins og bæði þjálfarinn og einstaka leikmenn gáfu út fyrir mót. Mér fannst liðið einfaldlega ekki eiga innistæðu fyrir þessu. En auðvitað var stemningin góð og leikmenn höfðu trú á því sem þeir voru að gera og það er alltaf gott. Það var gaman að sjá baráttuna og stemninguna í liðinu.

Þetta byrjaði vel á móti Frökkum og það hefur hentað okkur vel á móti sterkustu þjóðunum að liggja aftur og beita skyndisóknum. En við þurfum að vera tilbúin að halda boltanum líka. Umræðan eftir Frakkaleikinn var sérstök, þar sem sumir töldu þetta vera besta leik kvennalandsliðsins frá upphafi. Það var skrýtið, þar sem það var enginn sóknarleikur í liðnu og við töpuðum leiknum,“ segir Sigurður og bætir við að atvinnumönnum hafi fækkað og fleiri leikmenn landsliðsins spili hér heima en áður.

Hann er sammála Frey Alexanderssyni, þjálfara kvennalandsliðsins, um að mikilvægt sé að fleiri leikmenn spili í sterkari deildum. „Við þurfum einfaldlega að verða betri í fótbolta. Landsliðið skorar of lítið, eitt mark í fimm leikjum fyrir EM og skorar eitt mark á EM og nær aðeins einu skoti á markið. Í félögunum er of mikil áhersla á keppni, leikmenn færðir upp of fljótt og keppa of mikið. Hlutir eins og leiðsögn frá þjálfurum gæti farið forgörðum með þessu móti,“ bætir hann við.

Danir náðu langt á þessu móti, þeir er með lið sem við höfum alltaf átt erfitt með að eiga við, hvort sem það er karlalandsliðið eða kvennalandsliðið. Sigurður segir að vert sé að skoða hvað Íslendingar geti lært af Dönum. Þeir hafi náð að byggja upp mjög sterkt lið og einn af meginstyrkleikum þess sé að halda bolta innan liðsins.

„Þeir tóku þennan þátt afmarkað fyrir og skoruðu til dæmis eitt mark á móti okkur eftir rúmlega 50 sendingar innan liðsins. Uppspil og að halda bolta eru þættir sem við verðum að vera betri í,“ segir Sigurður Ragnar.

Miðað við úrslitin á EM gæti Ísland sigið á styrkleikalista FIFA. Fari liðið niður í 21. sæti væri það lakasta staða íslenska kvennaliðsins frá upphafi mælinga.

Í kjölfarið á slakara gengi á EM en flestir höfðu vonað hafa skapast umræður um hvað betur mætti fara og hverju þarf að breyta. Um það segir Sigurður Ragnar:

„KSÍ og þjálfarateymið þurfa að spyrja sig spurninga eins og hvort við séum á réttri leið. Við erum að fara í vitlausa átt á styrkleikalistanum, atvinnumönnum fækkar og yngri landsliðin eru ekki að fara á stórmót eins og áður. En það eru líka jákvæðir þættir eins og umgjörðin, fleiri koma að liðinu en áður og meira svigrúm er til að sinna þáttum eins og til dæmis að njósna um mótherja og vinna aðra undirbúningsvinnu. Við þurfum að huga mjög vel að stefnumótunarvinnu þar sem við fjöllum um lykilspurningar eins og hvernig við ætlum að búa til góða leikmenn, hvernig fótbolta viljum við spila, hvernig högum við afreksstarfi og mótun yngri leikmanna. Það þarf líka að taka afstöðu til þess hversu mikið fjármagn við getum sett í þetta.“

Þótt hlutirnir hafi ekki farið eins og bjartsýnir sáu fyrir segist Sigurður telja að margt sé jákvætt í uppbyggingu íslenska liðsins, sem hægt sé að byggja á. „Það er gríðarlega mikilvægt að forsvarsmenn KSÍ ákveði hvernig þeir vilja hafa hlutina og það sé unnið markvisst í framtíðarstefnu. Við verðum að nýta þá kosti sem fylgja því að vera lítil þjóð, það er svo auðvelt að ná til allra með leiðirnar sem við viljum fara. Það vilja allir ná lengra og það er nákvæmlega það sem einkennir okkur Íslendinga, KSÍ og þjálfarateymið okkar,“ segir Sigurður Ragnar að lokum.