Steinunn Sigurðardóttir fæddist í Garði við Keflavík á Hellissandi 24. ágúst 1917. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Garðvangi í Garði 13. apríl 2013.

Foreldrar hennar voru hjónin Stefanía S. Stefánsdóttir, f. 1879, d. 1947, og Sigurður Jónatansson, f. 1872, d. 1961. Fyrri maður Stefaníu var Kristján Kristjánsson, f. 1877, d. 1902. Systkini Steinunnar voru Lovísa, f. 1899, d. 1954, Kristján Sigurjón, f. 1902, d. 1989, Hallgerður, f. 1908, d. 1931, Gísli, f. 1912, d. 1914, Rósbjörg, f. 1910, d. 2005, og Þórleif, f. 1914, d. 1989.

Steinunn ólst upp með foreldrum sínum á Snæfellsnesi til átta ára aldurs er þau fluttu í Hafnarfjörð. Þar gekk hún í Lækjarskóla og Flensborgarskóla og síðar í héraðsskólann á Laugarvatni. Eftir að skólagöngu lauk réð hún sig í vinnu í Sandgerði þar sem hún kynntist tilvonandi eiginmanni sínum, Vilhjálmi Kr. Halldórssyni, f. 1913, d. 1997. Foreldrar hans voru hjónin Kristjana P. Kristjánsdóttir, f. 1885, d. 1975, og Halldór Þorsteinsson, f. 1887, d. 1980, frá Vörum í Garði.

Foreldrar mínir giftu sig 1. desember 1938 og fluttu í nýtt hús sem þau byggðu og stofnuðu heimili á Brekku, sem er næsta jörð vestan megin við Varir, þar sem þau bjuggu til æviloka.

Steinunn og Vilhjálmur eignuðust sjö börn sem eru: Kristján Vilberg, f. 1938, maki Ásta Vigdís Böðvarsdóttir, f. 1943, Sigurður Stefán, f. 1939, maki var Ástríður Svala Svavarsdóttir, f. 1944, Kristjana Þorbjörg, f. 1941, maki Friðrik Ágúst Pálmason, f. 1941, d. 2016. Steinunn, f. 1945, d. 1995, maki Guðmundur Sveinbjörnsson, f. 1945. Halldór, f. 1947, maki Gunnhildur Ásgeirsdóttir, f. 1948. Vilhjálmur, f. 1949, maki var Kristín Hulda Óskarsdóttir, f. 1957. Stefanía, f. 1956, maki Kristinn Kristinsson, f. 1959.

Móðir mín tók lengi virkan þátt í félagslífinu í Garðinum, starfaði með kvenfélaginu Gefn, kvennadeild Slysavarnafélagsins, barnastúkunni Siðsemd og stórstúkunni Framför.

Á Brekku ráku þau búskap með kýr, hænsn og hesta. Vilhjálmur átti góðan áttæring sem nú er á byggðasafninu á Garðskaga, oft var fiskað vel á hann í Garðsjónum fyrr á árum. 1943 til 1948 ráku þau einnig matvöruverslun á Brekku. Eftir að þau hættu með búskap 1954 keypti hann oft saltfisk á vorin, sem var vaskaður og sólþurrkaður á Brekku.

Steinunn var jarðsett í kirkjugarðinum á Útskálum.

Í trú, von og kærleika.

Halldór Vilhjálmsson.