Skot Landsliðskonan Fanndís Friðriksdóttir spyrnir knettinum gegn Haukavörninni. Fanndís skoraði eitt mark í gær.
Skot Landsliðskonan Fanndís Friðriksdóttir spyrnir knettinum gegn Haukavörninni. Fanndís skoraði eitt mark í gær. — Morgunblaðið/Ófeigur
Fótbolti Kristófer Kristjánsson Stefán Stefánsson Breiðablik lék sér að leikmönnum Hauka eins og köttur að mús í viðureign liðanna í 14. umferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu á Kópavogsvelli í gærkvöldi.

Fótbolti

Kristófer Kristjánsson

Stefán Stefánsson

Breiðablik lék sér að leikmönnum Hauka eins og köttur að mús í viðureign liðanna í 14. umferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu á Kópavogsvelli í gærkvöldi. Leiknum lauk með markatölunni 7:2 og var sigurinn síst of stór hjá Blikum sem léku á als oddi í sóknarleiknum. Berglind Björg Þorvaldsdóttir, Selma Sól Magnúsdóttir og Fanndís Friðriksdóttir skoruðu allar eitt mark hver en stjarna kvöldsins var fyrirliðinn Rakel Hönnudóttir sem skoraði fernu í leiknum og tvöfaldaði þar með markafjölda sinn í sumar. Vienna Behnke og Alexandra Jóhannsdóttir skoruðu mörk Hauka.

Leikurinn virtist vera búinn um leið og hann byrjaði þegar Blikakonur skoruðu tvö mörk á upphafsmínútum leiksins. Gestirnir reyndu að klóra í bakkann og náðu reyndar að minnka muninn í eitt mark í upphafi síðari hálfleiks en þó að þeir hafi skorað tvö mörk í gær var ekki hægt að hylma yfir stórfelld vandamál liðsins í varnarleiknum. Marjani Hing-Glover, einum skæðasta sóknarmanni liðsins og þeim markahæsta, var stillt upp sem miðverði í þriggja manna vörn og var það væntanlega til að stemma stigu við frábærum sóknarmönnum Breiðabliks. Þetta útspil hafði hins vegar þveröfug áhrif þar sem Svava Rós Guðmundsdóttir fór ítrekað afar illa með þá bandarísku og lagði upp fyrstu tvö mörk kvöldsins.

Rakel Hönnudóttir átti frábæran leik á miðjunni hjá Breiðabliki eins og svo oft áður og er það er í raun ótrúlegt að hún hafi ekki spilað eina einustu mínútu á mislukkuðu móti Íslands á EM í sumar. Stjarnan í Kópavoginum er þó auðvitað Fanndís Friðriksdóttir sem sneri aftur í liðið eftir smávægileg meiðsli. Þó að Fanndís hafi skorað glæsilegt mark hafði hún nokkuð hægt um sig og það er styrkleikamerki að Breiðablik hafi spilað góðan leik án þess að hún væri allt í öllu. Liðið hefur einmitt tapað stigum í leikjum þar sem Fanndís komst ekki á flug og þau töpuðu stig eru ástæða þess að titilvonin er afar veik ef einhver í Kópavoginum. Það má ekki alltaf treysta á að sömu leikmennirnir taki af skarið leik eftir leik og það var svo sannarlega ekki þannig í gærkvöldi.

Valur marði sigur

Enn stríða Árbæingar hátt skrifuðu liðunum en í kvöld dugði það ekki alveg því Valskonur náðu sigurmarki í 3:2 sigri undir lok leiks, sem var ekki bara bragðdaufur, heldur bragðlaus þar til 5 mínútur voru eftir. Þetta var í 14. umferð efstu deildar kvenna í knattspyrnu – Pepsi-deildinni – og sigurinn dugði Val til að komast upp um tvö sæti og er liði nú jafnt ÍBV að stigum.

Jafnt var að loknum fyrri hálfleik, 1:1, og margt benti til þess að ekki yrði meira skorað. En mörkin komu á færibandi síðustu tíu mínúturnar, þar af tvö á síðustu tveimur mínútum venjulegs leiktíma. Valur er þar með tíu stigum á eftir Þór/KA sem trónir á toppi deildarinnar.