[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Ferskfisktogarinn Engey RE kom í gær úr fyrstu veiðiferð sinni og má segja að túrinn marki veruleg tímamót.

Sviðsljós

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Ferskfisktogarinn Engey RE kom í gær úr fyrstu veiðiferð sinni og má segja að túrinn marki veruleg tímamót. Sjálfvirkt lestarkerfi frá Skaganum 3X er í skipinu, hið fyrsta sinnar tegundar, en einnig búnaður til að undirkæla fiskinn með svokallaðri „sub-chilling“-aðferð. Ís og krapi koma því ekki lengur við sögu. Trúlega eru ekki mörg skip betur útbúin en Engey.

Þá er aflinn þyngdar- og tegundargreindur með myndavélatækni. Slíkt kerfi hafði áður verið þróað í samvinnu Skagans 3X við FISK Seafood og sett upp í Málmey SK, en var nú þróað enn frekar og sett upp endurbætt um borð í Engey.

Hvergi verið gert áður

Ingólfur Árnason, framkvæmdastjóri Skagans 3X, segir að frá upphafi hafi verið hugsað stórt í þessu verkefni. „Þegar HB Grandi ákvað að láta smíða þrjá nýja ísfisktogara í Tyrklandi, systurskipin Engey, Akurey og Viðey, ákvað fyrirtækið jafnframt að fara út á nýjar brautir,“ segir Ingólfur.

„Forystumenn HB Granda vildu ekki láta smíða ný skip sem byggðu á gamalli tækni og voru með hugmyndir um sjálfvirkni í lest. Í samstarfi við HB Granda þróaði Skaginn 3X síðan nýtt sjálfvirkt lestarkerfi, en fjölmargir verktakar og ráðgjafar hafa komið að þeirri þróunarvinnu. Eftir að hafa í sameiningu skoðað þessi mál fram og til baka varð ákveðin lausn fyrir valinu, sem nú er orðin að veruleika og hefur sannað sig í fyrstu veiðiferð Engeyjar.

Auðvitað komu ýmis viðfangsefni og vandamál upp þegar uppsetning búnaðar hófst við komu skipsins til landsins upp úr áramótum. Því má þó ekki gleyma að þetta hefur hvergi verið gert áður. Menn ákváðu að taka risastökk inn í framtíðina, sem ég segi að megi mæla í áratugum. Búnaðurinn í Engey RE hefur vakið athygli um allan heim og segja má að að beðið hafi verið eftir þeim lausnum sem eru um borð í skipinu.“

Aðspurður segir Ingólfur að sjálfvirkt flutningskerfi kara af vinnsludekki og mannlaust kerfi í lest gjörbreyti meðhöndlun afla og auki gæði fisksins til muna. Aðbúnaður og vinnulag sjómanna breytist samhliða því að lestarkerfið verði mannlaust og með því fækki erfiðum og jafnvel hættulegum handtökum sjómanna.

Vandamál og áskoranir af ýmsum toga töfðu að skipið kæmist á veiðar, að sögn Ingólfs. Tíma tók að ná tökum á nýjum rafbúnaði og forritun, auk þess sem umfang uppsetningar í heild var meira en menn sáu fyrir.

„Það má segja að vinnsludekkið og lestarkerfið í Engey sé risavaxinn róbot og sennilega sá langstærsti á Íslandi. Í raun er búið að gera allt vélrænt sem hægt er í skipinu og meira en annað hvert handtak sjómanna er horfið.

Núna erum við að setja sams konar búnað um borð í Akurey og teljum við okkur betur í stakk búin til þess at takast á við það verkefni vegna reynslunnar af uppsetningu um borð í Engey. Drangey, skip FISK, kemur til okkar á Akranes í september og upp úr áramótum reiknum við með að byrja að setja búnað um borð í Viðey, þann síðasta af þremur nýjum ferskfisktogurum HB Granda,“ segir Ingólfur.