Patríarki Bartólemeus I í heimsókn.
Patríarki Bartólemeus I í heimsókn.
Bartólemeus I, samkirkjulegi patríarkinn í Konstantínópel, og andlegur leiðtogi ríflega 300 milljóna kristinna innan Rétttrúnaðarkirkjunnar, sækir Ísland heim í næsta mánuði. Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu Biskupsstofu.

Bartólemeus I, samkirkjulegi patríarkinn í Konstantínópel, og andlegur leiðtogi ríflega 300 milljóna kristinna innan Rétttrúnaðarkirkjunnar, sækir Ísland heim í næsta mánuði. Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu Biskupsstofu.

Patríarkinn kemur hingað á vegum þjóðkirkjunnar, Alkirkjuráðsins og Arctic Circle – Hringborðs norðursins dagana 12. til 15. október næstkomandi. Patríarkinn flytur meðal annars eina af aðalræðum þings Arctic Circle, um réttlátan frið við jörðina, í Hörpu föstudaginn 13. október. Hann verður í forsæti eigin messu og viðstaddur samkirkjulega guðsþjónustu í Hallgrímskirkju sunnudaginn 15. október.

Meðan á heimsókn patríarkans til Íslands stendur mun hann hitta að máli Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands, og Bjarna Benediktsson forsætisráðherra.

„Það eru sannarlega söguleg tíðindi að „græni patríarkinn“ skuli hafa þekkst boð um heimsókn til Íslands á þeim tíma sem við höfum markað í þjóðkirkjunni sem tímabil sköpunarverksins,“ er haft eftir Agnesi M. Sigurðardóttur, biskupi Íslands. Biskup segir að rætur embættis hans megi rekja til frumkristni og þess vegna sé hann talinn fremstur meðal jafningja í Rétttrúnaðarkirkjunni og andlegur leiðtogi hennar. Hann tók við embættinu árið 1991.

Patríarkinn kemur til Íslands ásamt fimm manna sendinefnd í tilefni af ráðstefnu Alkirkjuráðsins um réttlátan frið við jörðina, sem haldin verður í Digraneskirkju og á Þingvöllum dagana 11. til 13. október.

sisi@mbl.is