Ingibjörg Erna Sveinsson, Ingie, fæddist í Reykjavík 16. júlí 1962. Hún lést á gjörgæsludeild Landspítalans mánudaginn 24. október 2022.

Foreldrar hennar voru Þórunn Árnadóttir ljósmóðir, f. 11.6. 1941, d. 20.9. 2011, uppeldisfaðir Tómas Agnar Tómasson, fv. iðnrekandi, f. 13.4. 1939, og faðir Sveinn Torfi Sveinsson, f. 2.1. 1925, d. 20.10. 2009. Systkini hennar sammæðra eru: Agnes Vala, f. 1967, Árni Haukur, f. 1968, Helga Brynja, f. 1972, Herdís Rún, f. 1979 og Óskar Bergmann, f. 1982. Uppeldisbróðir er Tómas Heimir, f. 1961. Systur samfeðra eru Vilborg Elín, f. 1954 og Ingibjörg Ásdís, f. 1959.

Þann 9. júní 1984 giftist Ingibjörg Helga Ólafi Ólafssyni sameindalíffræðingi, f. 25. júní 1961, syni Fanneyjar Dagmarar Arthúrsdóttur, f. 15.7. 1930, d. 28.6. 2014 og Ólafs Helga Grímssonar læknis, f. 22.12. 1931. Börn Ingibjargar og Helga Ólafs eru: 1) Þórunn, f. 8.9. 1985, í sambúð með Arnóri Viðari, f. 16.3. 1986, börn þeirra eru: a) Logi, f. 2010, b) Aníta, f. 2014 og c) Karen, f. 2018.  2) Fanney Dagmar, f. 3.2. 1990, sonur hennar er Helgi Örn, f. 2016 og 3) Helgi Freyr, f. 24.11. 1995.

Ingibjörg ólst upp til ársins 1974 hjá móðurforeldrum sínum, Ingibjörgu Guðmundsdóttur, f. 1907, d. 1999 og Árna Guðmundssyni lækni, f. 1899, d. 1971. Hún flutti þá til foreldra sinna og þau fluttu síðan í Garðahrepp 1976 þar sem hún hefur síðan búið mestan hluta ævinnar með fjölskyldu sinni.

Útför Ingibjargar fer fram frá Vídalínskirkju í Garðabæ í dag, 3. nóvember 2022, og hefst athöfnin klukkan 15.

Elsku Ingie systir hefur verið kölluð til annarra verka á öðrum vettvangi allt of snemma. Ingie er búin að vera til staðar fyrir okkur systkinin öll frá því að við munum eftir, hún var næstelst okkar og talaði ósjaldan um það hversu dásamlegt henni þótti að eiga stóran systkinahóp. Hún fagnaði hverju okkar innilega og passaði upp á okkur eins og við værum hennar eigin.

Hún var mjög vinnusöm og fór snemma að vinna sem sendill á hjóli hjá Hf. Ölgerðinni, þar sem hún vann til tuga ára, en því var fljótt skipt út fyrir mótorhjól sem hún elskaði að geysast um á með dumbrauðan makkann flaksandi undan hjálminum. Það var haft á orði þegar hún var í Garðaskóla að sumar stelpur mættu með snyrtibudduna í skólann en Ingie tók með sér olíubrúsa og lyklasett svo hún gæti gert við mótorhjólið ef á þyrfti að halda. Hún hafði endalausan áhuga á bílum og þar skiptu vélastærðir stóru máli, því þeim mun hraðskreiðari því skemmtilegri fannst henni þeir, þann áhuga fékk hún beint í gegnum móðurmjólkina á sínum tíma. Hún vílaði heldur ekki fyrir sér að gera við þau tæki sem hún átti, henni fannst það sjálfsagt.

Það kom snemma í ljós hversu listfeng Ingie var, hún elskaði að skapa með höndunum. Hún lærði snemma að prjóna og hekla hjá Ingibjörgu ömmu og allt sem hún skapaði var sem það hefði verið búið til í vél, svo fallegt var handbragðið. Eftir hana liggja ótal listaverk, máluð, prjónuð, hekluð og útsaumuð og er þess skemmst að minnast að hún lagði ofuráherslu á að klára að sauma jólasokka handa yngstu barnabörnunum þannig að allir ættu þannig sokk fyrir jólin. Hún fór ung á námskeið hjá Keramikhúsinu í Hafnarfirði en eftir það námskeið var henni kippt inn í kennslu þar sem hún naut sín til hins ýtrasta. Þegar hún gat ekki lengur sinnt fullu starfi útivinnandi fór hún í nám og gerðist naglafræðingur og þar líka var hún fengin til að kenna að námi loknu á meðan heilsan leyfði.

Þegar Ingie var 14 ára fóru hún og Helgi, þá 15 ára, að draga sig saman, hún ákveðin og ör fann mótvægið í Helga sem var jarðbundinn og mikill hugsuður, fullkomið jafnvægi. Þau voru alltaf mjög samrýmd og áhugamálin voru lík, að geysast um á mótorhjólum fyrst en síðan í ótal ferðum um landið og eyddu þau miklum tíma með börnin sín í húsi fjölskyldu Helga á Flateyjardal við Skjálfanda. Í sumarhúsi mömmu og pabba, Þórunnarseli, og svo fóru þau líka alltaf einu sinni á ári og dvöldu hjá móðursystur okkar Svövu og manninum hennar Nonna við Vesturhóp í Vestur-Húnavatnssýslu. Þær frænkur deildu hinum óbilandi handavinnuáhuga enda höfðu þær alist upp saman hjá ömmu og afa. Hún var mikið náttúrubarn og að ferðast var eitthvað sem hún elskaði hvort sem var innan- eða utanlands. Ferðirnar til Flórída í þáverandi íbúð fjölskyldunnar voru líka nokkrar en þau hefðu viljað hafa þær fleiri.

Um hvítasunnuna 1984 giftu Ingie og Helgi sig og það var mikið um dýrðir, fyrsta brúðkaupið í systkinahópnum og Ingie var yndislega falleg í brúðarkjólnum með mittissítt dumbrautt hár sem geislaði í sólinni þennan fallega dag. Ári seinna á haustdögum 1985 fæddist þeim elsta dóttirin Þórunn, fyrsta barnabarnið og auðvitað með fallegt rautt hár. Fanney Dagmar fylgdi svo á eftir fimm árum seinna 1990 og þrennan var fullkomnuð með fæðingu Helga Freys 1995. Börnin þeirra hafa vaxið og dafnað og verið foreldrum sínum til mikils sóma. Þórunn og Fanney Dagmar fóru saman í hjúkrunarfræði í HÍ og hafa báðar fundið sína köllun í þeim geira og Helgi Freyr nam tölvunarfræði í HÍ.

Ingie og Helgi hafa skapað sér dásamlegt heimili að Steinási 11 í Garðabæ þar sem listfengi Ingie og óbilandi framtakssemi Helga hafa gert húsið og umhverfi þess að miklum sælureit, hún vissi ekkert betra en að sitja úti á palli með prjónana sína og drekka í sig sólargeisla þegar þeirra naut á sumrin. Hún lagði líka mikinn metnað í það ásamt Helga að skreyta húsið þeirra fallega að innan sem utan fyrir jólin, svo mjög að eftir því var tekið og fékk hún heilopnuviðtal í jólablaði fyrir nokkrum árum fyrir vikið.

Hópurinn þeirra Helga hefur líka stækkað til muna og eiga þau fjögur yndisleg barnabörn. Logi, Aníta og Karen, börn Þórunnar og Arnórs, og Helgi Örn, sonur Fanneyjar Dagmarar, voru öll augasteinar ömmu sinnar og afa og það var oft glatt á hjalla þegar þau voru á Steinásnum. Það var alltaf hægt að fá að gista líka og hún lét sjaldan veikindin standa í vegi fyrir því að leyfa börnunum að vera hjá þeim Helga.

Stórt skarð er höggvið í systkinahópinn, skarð sem aldrei verður fyllt. Við höfum verið svo lánsöm systkinin að vera mjög náin alla tíð og það var alltaf hægt að leita til Ingie og elsku Helgi mátti þola að við systkinin gætum stundum lagst upp á þau í tíma og ótíma, sem hefur örugglega ekki verið létt. En Ingie mátti bara ekki vita til þess að við værum að hangsa eitthvað niðri í bæ af því að við áttum ekki fyrir fari heim. Þegar ég var sextán ára í námi í Þýskalandi gerðist eitthvað í okkar systrasambandi sem herti tryggðaböndin svo sterkt að það brá ekki skugga á það nokkurn tímann. Við skrifuðumst á og ég treysti henni til dæmis fyrir því að mig langaði að vera lengur, en ég þorði ekki að segja það við mömmu og pabba, þá gekk hún fram fyrir skjöldu og lét þau vita og ég fékk óskina uppfyllta. Hún tók dóttur mína, Tótu, að sér vegna ítrekaðra veikinda og gerðist dagmamma. Það var svo ofur mikilvægt að hún fékk að vera hjá þeim, dætur okkar hafa síðan verið eins og þær væru allar systur.

Á undanförnum árum hefur verið erfitt að horfa á hversu hratt sá sjúkdómur sem hafði verið að plaga hana, en fékkst ekki staðfestur fyrr en fyrir þremur árum, gekk nærri henni. Hún gerði þó allt sem í hennar valdi stóð til þess að standa undir þeim kröfum sem á hana voru lagðar í þeirri von að hún mætti fá tækifæri til þess að geta fengið ný lungu. Hún hafði aldrei gert neitt sem gat hafa leitt til þessa sjúkdóms en hún barðist við hann eins og ljón. Það er mjög erfitt til þess að hugsa að nú geti ég ekki hringt, ekki sent skilaboð, ekki leitað ráða með prjónaskapinn eða deilt gleði og sorgum lengur með Ingie systur. Elsku hjartagull, takk fyrir að vera systir mín, vinkona og samherji, ég mun gera mitt besta til þess að vera til staðar fyrir Helga Ólaf og öll gullin þín. Minning þín verður hugarró okkar.

Adda systir, Agnes Vala Bryndal.