LÍFRÆNAR VARNIR GEGN MEINDÝRUM TÓBAK, ÞANG, KÚAHLAND OG JURTASEYÐI KIPTAR skoðanir eru um hvort úða á garðinn til að eitra fyrir ýmsum meindýrum.

LÍFRÆNAR VARNIR GEGN MEINDÝRUM TÓBAK, ÞANG, KÚAHLAND OG JURTASEYÐI

KIPTAR skoðanir eru um hvort úða á garðinn til að eitra fyrir ýmsum meindýrum. Ef fólki er illa við ýmis eiturefni, sem notuð eru til slíkra úðana, er engin ástæða til að sitja með hendur í skauti og horfa á meindýr éta garðinn upp til agna, því ýmsar lífrænar varnir standa til boða.

Í bókinni Trjáklippingar eftir Stein Kárason eru nefnd ýmis ráð gegn meindýrum, en algengust þeirra eru fiðrildalirfur, svokallaðir haustfetar og ýmsar blaðlúsategundir. Þá getur ranabjalla, sem er áþekk járnsmiðum, valdið skaða á rót og laufblöðum. Best er að klippa trén áður en úðað er, því meindýrum fækkar með færri greinum.

Meðal þeirra mörgu ráða, sem Steinn gefur í bók sinni, eru m.a. að nota seyði af klóelftingu gegn ýmsum sveppasjúkdómum, til dæmis riðsvepp og rótarhálsrotnun. Notaður er einn bolli af elftingunni í 4 lítra vatns og soðið í 20 mínútur. Kældur vökvinn er síðan notaður til vökvunar og úðunar. Vökvinn verkar einnig fyrirbyggjandi við sáningu.

Gegn blaðlús og öðrum skordýrum sem sjúga er notað seyði af stórunetlu. Notaður er einn bolli af netlu, 4 l af sjóðandi vatni hellt yfir og kældur vökvinn notaður til úðunar, einkum á neðra borð blaða.

Tókakslög má einnig brúka gegn blaðlús. Þá er einn pakki af píputóbaki soðinn í 15 mínútur í 3 l af vatni. Að því loknu er tóbakið sigtað frá og allur vökvi kreistur vel úr því. Lögurinn er svo blandaður með vatni í hlutföllunum 1 hluti tóbakslögur á móti 9 hlutum vatns.

Þangvökvi, sem fæst í verslunum, hefur einnig gefist vel gegn blaðlúsum og er notaður í hlutföllunum 1 á móti 200-400. Þegar þangvökvi er notaður má búast við að þurfa að endurtaka úðun á 10 daga fresti yfir vaxtarskeiðið. Auk þess að verka sem lúsafæla inniheldur þangvökvinn aragrúa snefilefna og annarra næringarefna sem nýtast plöntunni til viðurværis, bæði með úðun og við íblöndun í vökvunarvatn á hefðbundinn hátt. Notkun þangvökvans eykur einnig frjómyndun og frostþol plantna og þær verða harðgerðari.

Við langvarandi notkun þangvökvans dregur úr sveppasýkingum og ásókn meindýra.

Kúahland, 1 hluti á móti 10 hlutum vatns, hefur verið notað gegn blaðlús með úðun og hlandfor og kúamykja hefur verið notuð kringum rótarháls kálplantna sem vörn gegn kálmaðki.