FYRIR gamla Flateyinga er vorkoman kærkomin því þá vita þeir, sem best þekkja, að sá tími nálgast að hægt verður að sækja eyjunna heim og njóta þeirrar friðsældar, sem eyjalífið býður upp á í sínu besta skarti.

MEÐ FUGLUM OG FÓLKI

í Flatey

Flatey á Skjálfanda fór í eyði árið 1967, en nokkur ár eru nú liðin síðan nokkrir gamlir Flateyingar leituðu uppruna síns á ný og hófu að byggja upp gömlu húsin, sem reyndust vera í misjöfnu ásigkomulagi. Jóhanna Ingvarsdóttir heimsótti eyjuna flötu í byrjun sumars á meðan að varptíminn var í algleymingi.

FYRIR gamla Flateyinga er vorkoman kærkomin því þá vita þeir, sem best þekkja, að sá tími nálgast að hægt verður að sækja eyjunna heim og njóta þeirrar friðsældar, sem eyjalífið býður upp á í sínu besta skarti. Vélknúnum farartækjum er ekki fyrir að fara í eynni utan ökutækis "hreppstjórans", sem svo er nefndur, en hann er þeirra forréttanda aðnjótandi að geta ekið um lendurnar á fremur lúnum Willys-jeppa, sem gengur af gömlum vana frekar en vilja. Hjólbörur eru hinsvegar eitt helsta tækniundur annarra eyjarskeggja enda má segja að tæknin sé ekki efst á forgangslista þeirra, sem kjósa friðsæld í fríum frá skarkala nútímans.

Við leggjumst að bryggjunni í Flatey að kvöldi fyrsta dags júní- mánaðar á Kvikk ÞH 112 sem er af gerðinni Sómi 800. Klukkan er að verða hálfníu og sólbjört kyrrðin tekur á móti okkur. Sjóferðin, sem tekið hafði um 70 mínútur, hafði gengið vel fyrir sig. Sjóveður reyndist hið besta, að mati kapteinsins Óla Austfjörð, norðan tvö vindstig, en vegna þess hversu mikill farangur fylgdi með að þessu sinni, var ekki keyrt nema á 13 mílum, en um fimmtán sjómílur eru á milli Húsavíkur og Flateyjar. Rauði Willys-jeppinn færist úr stað. Hann stefnir í átt til okkar þar sem við stöndum á bryggjunni enda hafði það verið fært í tal við hreppstjórann hvort nokkuð stæði í veginum fyrir því að við fengjum afnot af ökutækinu til að ferja timbur, sturtubotn, klósett, matföng og annan farangur vestur að Grund, þar sem við ætluðum að dvelja næstu fjóra dagana. Að þessu sinni er vinnuhelgi framundan á Grund, eins og svo oft áður. Til stendur að endurbæta hreinlætisaðstöðuna til muna og stækka baðherbergið um helming fram í gömlu fjárhúsin, sem eru áföst íbúðarhúsinu. Sex fílefldir karlmenn ætla að rusla verkinu af á mettíma með Guðmund smið í broddi fylkingar, en að sögn heimamanna hefur Guðmundur þessi verið æviráðinn við lagfæringar í Grund enda af nógu að taka enn þó margt hafi líka verið gert. Guðmundur segist bara hlæja að þessum fullyrðingum Grundara, sem svo eru nefndir, þó hann hafi svo sem hingað til aldrei neitað sér um eilítið eyja-ævintýri.

Þrátt fyrir að komið sé fram í júní, má enn sjá endalausan snjó í Kinnarfjöllunum og upp á Flateyjardal sér varla í dökkann díl á þessum tíma. Elstu menn muna ekki eftir öðrum eins snjó á þessum tíma árs á dalnum enda er ekki útséð með hvort hægt verður að opna Flateyjardalsheiðina nokkuð í sumar eftir allt fannfergið, sem veturinn bar með sér.

Afleit grásleppuvertíð

Grásleppukarlarnir, sem haldið hafa til í eynni síðustu tvo mánuði, eru að pakka saman enda vertíðinni að ljúka. Þeir eru óánægðir með afraksturinn og segja vertíðina að þessu sinni hvorki hafa verið fugl né fisk. Aldrei hafi þeir upplifað annan eins dauða og djöful.

Á meðan að sumir sjá um að lesta jeppann, röltum við hin af stað í átt að Grund, sem er eitt þeirra níu húsa í eynni, sem gerð hafa verið upp og löguð til með það að markmiði að nýta sem sumarbústaði. Grund var reist árið 1939 og var í eigu þeirra hjóna Hólmgeirs Árnasonar frá Knarrareyri á Flateyjardal og Sigríðar Sigurbjörnsdóttur frá Vargsnesi í Náttfaravíkum. Þau fluttu frá Flatey árið 1961 til Húsavíkur, eins og svo margir aðrir eyjarskeggjar. Nokkrum árum síðar tóku afkomendur þeirra sig til og hófu að endurbæta eða öllu heldur endurbyggja, því það er ekki nóg með að í mörg horn hafi verið að líta innanhúss, heldur hefur þurft að skipta um allar hliðar í húsinu svo og um þak og utanhússklæðningu.

Á leiðinni heim í bæ eftir gömlu slóðinni er ekki hjá því komist að stoppa nokkrum sinnum til þess eins að þefa eilítið af náttúrunni og virða fyrir sér fegurðina og fuglalífið þetta kvöld sem á þessum árstíma er í blóma. Blikarnir vappa í kringum æðarkollurnar sínar þar sem þær liggja sem fastast á eggjunum og kríurnar passa upp á sitt, taka dýfur ef að þeim er vegið og jafnvel gogga í höfuð forvitinna. Hjálmar eru því taldir bráðnauðsynlegir ef forðast á sárindi.

Það er heldur hráslagalegt að koma inn í hús í fyrstu enda nokkrir mánuðir síðan hitað var upp síðast. Okkar fyrsta verk verður því að kveikja á olíufýringunni til að fá yl í kotið. Við lítum inn í allar vistarverur hússins til að gaumgæfa hvort allt sé, eins og það á að vera, og komumst að raun um að hagamýs hafa án efa verið veisluglaðar í vetur og nýtt sér húsakostinn ef marka má viðskilnaðinn. Tiltekt er greinileg framundan þetta fyrsta kvöld. Á meðan finna krakkarnir sér fötu, klæða hana að innan með mosa, spenna síðan á sig hjálmana og halda af stað út í móa til að finna sér kríusmakk, eins og þau orða það. Það líður ekki á löngu þar til að búið er að fylla fyrstu fötuna. Eggin eru tekin og soðin strax svo hægt sé að ganga úr skugga um hvort eitthvað sé farið að stropa. Ekki er það að ráði svo að afloknu eggjasmakkinu fá börnin að tína nokkur egg til viðbótar til að hafa með morgunmatnum daginn eftir.

Nítján manns gista Grund þessa hvítasunnudaga í byrjun júní, en auk þeirra er fólk á tveimur bæjum til viðbótar. Í gestabók Grundara má lesa að fyrstu vorgestirnir hafi dvalið þar dagana 24.-25. maí, en þar stendur meðal annars, með leyfi skrifara Sævars Austfjörð: Smá leiðangur í eyjuna með olíu og smádót. Grilluðum í gærkvöldi og fengum okkur göngutúr út á eyju um lágnættið. Nokkuð gott veður en frekar svalt. Eitt kríuegg fannst og æðarfulginn er vel byrjaður. Eitt rjúpnapar sást og dálítið af gæs, en enginn gæsaregg fundust. Eitt hrossagaukshreiður fannst og varð hrossagaukurinn bráðkvaddur þegar hann sá okkur fjóra fílelfda ganga framhjá."

Ekki er að sjá að varp hafi farið neitt seinna af stað en endranær í eynni þrátt fyrir kuldatíð fyrir norðan þetta vorið enda er mér tjáð að árferði hafi ekkert með varpið að gera, heldur séu það birtuskilyrðin sem ráði mestu um hvenær varpið byrji. Það er þó ekki laust við að menn hafi nokkrar áhyggjur af fuglalífinu þegar risið er úr rekkju að morgni laugardagsins 3. júní og jörðin alhvít á að líta. Kalt er í veðri þennan dag og stíft legið á, en daginn eftir birtir bæði yfir fuglum og fólki enda hefur hinn nýfallna snjó þá tekið upp að fullu.

Sögustund í Grund

Talið er að Flatey hafi risið úr sjó. Eyjan er lítil og lágreist, aðeins 2,5 km á lengd og á annan km á breidd, öll grasi vaxin, ströndin lág með malarkömbum og víða eru lón og tjarnir fyrir innan. Snemma var eyjan talin mjög byggileg enda beitarlönd góð og fiskimiðin allt í kring. Þarna höfðu íbúarnir ofan í sig og á með bústörfum og sjósókn. Í þá daga var enginn kvóti, hvorki í landbúnaði né í sjávarútvegi. Menn, konur og börn unnu myrkrana á milli og til þurfti að kalla vinnuhjú á stundum. Þá var önnur tíð til sjávar og sveita og menn lifðu af landsins gæðum.

Við, sem yngri erum og upplifðum ekki eyjastemmninguna í atvinnulegu tilliti, látum okkur nægja ímyndanir þegar við setjumst niður að kvöldi dags í gömlu stofunni á fallegu vorkvöldi og hlustum á gamla, eða öllu heldur síunga Flateyinga, rifja upp eldgamla tíð, að því er okkur finnst. Ekkert rafmagn, enginn sími, ekkert sjónvarp, engar sjálfvirkar þvottavélar og vatnið í brunnum en ekki sjálfrennandi í krönum, eins og nútímabarninu finnst bæði sjálfsagt og eðlilegt.

Eftir sögunum að dæma er okkur ljóst að margt var brallað í Flatey í den tid" og að ungdómurinn hafi ekki síður verið galsafenginn þá og nú. Menn biðjast undan því að að bernskubrekin fái rými á síðum blaðs allra landsmanna" þó meinignin sé að pára eitthvað á blað að aflokinni dvölinni. Harðfullorðið fólk rifjar upp gamla tíma með blik í augum og státar sig af ýmsum uppátækjum, sem á þeim tíma féllu ekki jafnvel í kramið hjá hinum fullorðnu, enda þótti grallaraskapurinn takast best þegar hinir fullorðnu sýndu sem mest viðbrögð. En þá var líka eins gott að eiga sér góðan felustað.

Við fáum okkur rjúkandi kaffi, sem lagað hefur verið upp á gamla móðinn á fínu Sóló-eldavélinni, sem staðið hefur eins og klettur í einu horni eldhússins, í mörg ár. Hún nýtist ekki aðeins fyrir eldamennskuna, heldur líka til að hita upp báðar hæðir hússins. Fram er tekinn fleygur. Sögurnar magnast og hlátrasköllin berast út í gargandi kríugerið á sama tíma og sólin er við það að kyssa hafflötinn. Kveikt er á kertum og á gömlu olíulömpunum, sem enn má nýta, og sumir tíma ekki að fara að sofa fyrr en seint og um síðir.

Ball- og messufært

Íbúar voru flestir í eynni árið 1942, alls 120 talsins, og var þá hafnaraðstaða stórlega bætt. Sömuleiðis var þá komið upp barnaskóla og félagsheimili, þar sem enn er dansað um verslunarmannahelgar við undirspil harmonikuleikara. Fyrir nokkrum árum tóku eyjarskeggjar sig saman um að mála samkomuhúsið og þótti ekki vanþörf á.

Kirkja hefur verið í Flatey frá fornu fari, en árið 1894 var hún lögð niður þar og flutt til höfuðbólsins Brettingsstaða á Flateyjardal. Árið 1960 var síðan ný kirkja vígð í eynni þar sem menn hafa kosið Guðsorðið eftir að hafa endurheimt heilsu sína að afloknum hinum árlega dansleik. Prestur hefur gjarnan verið fenginn frá Húsavík til að sjá um þessa helgistund og kirkjugestir sungið hver með sínu nefi.

Viti var reistur í Flatey árið 1913 og endurbyggður árið 1963 eða um það leyti sem eyjan var að fara í eyði. Í dag er Flatey nytjuð og eru það fjölskyldur af tveimur bæjum sem það gera, Grund og Útibæ, en nytjar eru egg, æðardúnn og reki. Fyrir utan þessa tvo bæi er sjö húsum til viðbótar haldið við og nýtt sem sumarhús. Það eru: Baldurshagi, Garðshorn, Sigtún, Sæberg, Berg, Krosshús og Sólvellir. Önnur hús eru í afleitu ásigkomulagi og í raun synd að sjá hvernig fyrir þeim er komið.

Útvegsbændur fyrri tíma höfðu aðstöðu í fiskverkunarskúrum við bryggjuna, en skúrarnir eru nú í mjög misjöfnu ástandi og sumir hverjir hafa orðið hrörnun að bráð. Þar skammt hjá var líka einu sinni kaupfélag, sem brann fyrir nokkrum árum, og grunnurinn ber nú aðeins vitni um það sem einu sinni var en er ekki lengur. Það má þó með sanni segja að minningin lifi svo sannarlega góðu lífi í hugum þeirra, sem þarna eru bornir og barnfæddir og byrjuðu að vinna ungir að árum við að draga björg í bú.

Að lokum má geta þess að tveir aðilar að minnsta kosti bjóða upp á eyjasiglingar um Skjálfandann og ætti heimsókn til Flateyjar að vera vel þess virði. Svo enn sé vitnað í gestabókina í Grund, hefur gestagangur verið nokkur í áranna rás og meðal þeirra, sem komið hafa oftar en einu sinni, er núverandi samgönguráðherra Halldór Blöndal, sem jafnframt er hagyrðingur góður og lætur tækifæri til vísnagerðar sér ekki úr greipum ganga við slíkar dásemdaraðstæður. Eftirfarandi kveðskapur liggur eftir Halldór eftir síðustu dvöl hans í eynni um miðjan júlí í fyrra.

Þegar ég í Flatey fer,

og finn ég muni skemmta mér.

Fuglarnir og allt hvað er,

úti kunna að leika sér.

Kirkjan hnarreist horfir sundin yfir,

heim í dalinn þröngan þann,

þar sem ég Brettingsstaði fann.

Þessa daga þakkar bagan ykkur,

hressist lund við sól og sund,

sumarstund að vera í Grund.

Morgunblaðið/Jóhanna Ingvarsdóttir BARNASKÓLINN er nú svipur hjá sjón, gluggalaus og allslaus.

VITI var reistur í eynni árið 1913, en endurbyggður 1963 og þjónar enn sæfarendum.

Ný kirkja var vígð í Flatey árið 1960 þar sem að messufært hefur verið árlega.

GRUND.

GUNNAR Óli á marhnútaveiðum á bryggjunni.

BÚINN að fylla kríueggjafötuna.

GAMLIR fiskverkunarskúrar eru m.a. notaðir til að salta grásleppu og hengja upp fisk.