20. júlí 1995 | Forsíða | 505 orð

Serbar segjast hafa náð Zepa á sitt vald

Frakkar vilja eitt þúsund manna herlið til Gorazde

BOSNÍU-Serbar lýstu því yfir í gærkvöldi að þeir hefðu náð bænum Zepa á sitt vald og að fulltrúar íbúa bæjarins, sem flestir eru múslimar, hefðu gefist upp á fundi með Ratko Mladic hershöfðingja. Zepa er annað griðasvæði múslima í Bosníu, sem Serbar hertaka, en þeir hafa sótt að bænum frá því á föstudag. Talið er að á bilinu 10-16 þúsund óbreyttir borgarar séu í Zepa.
Serbar segjast hafa

náð Zepa á sitt vald

Frakkar vilja eitt þúsund manna

herlið til Gorazde

Pale, París, London. Reuter, The Daily Telegraph. BOSNÍU-Serbar lýstu því yfir í gærkvöldi að þeir hefðu náð bænum Zepa á sitt vald og að fulltrúar íbúa bæjarins, sem flestir eru múslimar, hefðu gefist upp á fundi með Ratko Mladic hershöfðingja. Zepa er annað griðasvæði múslima í Bosníu, sem Serbar hertaka, en þeir hafa sótt að bænum frá því á föstudag. Talið er að á bilinu 10-16 þúsund óbreyttir borgarar séu í Zepa.

Í yfirlýsingu Serba sagði að 30 særðir stjórnarhermenn yrðu fluttir til Sarajevo, höfuðborgar Bosníu. Þeir íbúar Zepa, er vildu yfirgefa bæinn, yrðu fluttir til Kladanj, sem er á yfirráðasvæði Bosníustjórnar. Þúsundir flúðu frá Srebrenica eftir að Serbar náðu bænum á sitt vald í byrjun síðustu viku.

79 úkraínskir skæruliðar áttu að gæta griðasvæðisins Zepa en síðdegis í gær var greint frá því að þeir yrðu fluttir á brott.

Sameinuðu þjóðirnar sögðust í gærkvöldi ekki geta staðfest að Zepa hefði fallið og sagði breska útvarpið, BBC , að fulltrúar Bosníustjórnar vísuðu slíkum fregnum á bug.

Radovan Karadzic, leiðtogi Bosníu-Serba, sagði í gær að múslimar í bænum Gorazde, sem Sameinuðu þjóðirnar hafa einnig lýst griðasvæði, ættu að gefast upp ella yrði á þá ráðist. Þá yrðu vestrænar herþotur er reyndu að skipta sér af málum skotnar niður.

Beita þarf herafli

Alain Juppé, forsætisráðherra Frakklands, sagði að ekki væri hægt að ná málamiðlun um griðasvæðin. Nauðsynlegt væri að vernda þau með herafli. Í sjónvarpsviðtali í gærkvöldi sagði hann að senda ætti um þúsund manna herlið til Gorazde er væri nægilega vel vopnum búið til að verja bæinn. Frakkar þyrftu hins vegar á aðstoð Bandaríkjamanna, Breta og Þjóðverja að halda.

Hann sagðist hafa rætt við John Major, forsætisráðherra Bretlands, síðdegis í gær og hvatt til að þegar í stað yrði komið á fundi hernaðarsérfræðinga til að gera áætlun um hvernig stöðva mætti sókn Serba. Um 300 breskir og úkraínskir friðargæsluliðar eru nú á griðasvæðinu.

Breskir fjölmiðlar sögðu þarlenda hernaðarsérfræðinga í auknum mæli hallast að því að beita hótunum um loftárásir til að stöðva átökin. Þeir hafi hins vegar varað ráðherra við því að verði sú leið farin verði alvara að liggja að baki.

Þingmenn í öldungadeild Bandaríkjaþings ræddu í gærkvöldi, tillögu Bob Doles forseta öldungadeildarinnar, um að aflétta vopnasölubanninu á Bosníu. Bill Clinton Bandaríkjaforseti hefur lagst hart gegn tillögunni en búist var við að hún yrði samþykkt í atkvæðagreiðslu í nótt.

Ráðast á Bihac

Króatíu-Serbar og múslimskir bandamenn þeirra, réðust í gær á vígi Bosníustjórnar í Bihac. Fulltrúar SÞ sögðu Króatíu-Serba hafa ráðist á héraðið úr vestri en sveitir múslimska uppreisnarmannsins Fikret Abdic úr norðri. Enn væri þó of snemmt að segja til um hvort markmið Serba væri að ná griðasvæðinu á sitt vald. Alls búa um 180 þúsund manns í Bihac en griðasvæði SÞ nær einungis til sjálfrar borgarinnar Bihac en ekki svæðisins í heild.

Afstaða Úkraínu/16 TVEIR breskir hermenn úr hinum nýstofnuðu hraðsveitum SÞ stíga á land í hafnarborginni Ploce í Króatíu. Skipið kom með 3.000 tonn af hergögnum fyrir hraðsveitirnar.Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.