29. júlí 1995 | Minningargreinar | 916 orð

Frans van Hooff

Fögur er foldin, heiður er Guðs himinn, indæl pílagríms ævigöng. Fram, fram um víða veröld og gistum í Paradís með sigursöng.

Frans van Hooff

Fögur er foldin,

heiður er Guðs himinn,

indæl pílagríms ævigöng.

Fram, fram um víða

veröld og gistum

í Paradís með sigursöng.

(Ingemann - Sb.1945 - M.Joch.) Séra Frans flutti til Íslands árið 1979. Að loknu löngu og farsælu ævistarfi í Hollandi kaus hann að verja síðustu æviárunum í þjónustu við kaþólsku kirkjuna á Íslandi. Hann þjónaði fyrst á Akureyri en síðar og lengstum sem klausturprestur Karmelklaustursins í Hafnarfirði.

Ég kynntist séra Frans árið 1985 í kirkjukaffi eftir messu í Maríukirkju í Breiðholti. Hann stóð mitt í mannþrönginni og spjallaði við fólk. Þótt hann væri þá hátt á sjötugsaldri hafði hann náð að tileinka sér íslenskuna. Börnunum sýndi hann töfrabrögð, sem hann hafði ávallt á takteinum og við hina eldri ræddi hann af sinni einstöku háttprýði og einlægni sem var einkenni hans. Og alltaf var stutt í glettnina og hláturinn.

Í klaustrinu messaði hann á hverjum degi fyrir Karmelsysturnar og gesti klaustursins. Yfir messugerð hans hvíldi ævinlega mildur helgiblær, friður og rósemd. Séra Frans var framtakssamur á ýmsum sviðum. En sennilega er hann þekktastur hérlendis fyrir hið umfangsmikla hjálparstarf sem hann stundaði um árabil. Allt frá árinu 1984 stóð hann fyrir sendingum með hjálpargögn til fátækra í fjarlægum löndum. Þetta spurðist út og mikið var um að fólk kæmi með fatnað og ýmsan varning í Karmelklaustrið. Almenningur, stofnanir, fyrirtæki og samtök gáfu notaðan fatnað, eldhúsáhöld, skó, ritföng, reiðhjól og verkfæri. Varningnum var staflað í gáma sem síðan voru sendir utan. Margir gámar fóru til Afríku og sem dæmi um árangur þeirra sendinga má nefna að komið var á fót vélritunarskóla í Zimbabwe þar sem eingöngu voru notaðar handknúnar ritvélar sem séra Frans hafði safnað og sent. Skóli þessi hlaut síðar viðurkenningu stjórnvalda. Gámar voru einnig sendir til Póllands, Lettlands, Litháen og til Krasnoyarsk í Síberíu þar sem séra Róbert Bradshaw, vinur séra Frans, kom á fót kirkjulegu starfi á ný eftir áratuga hlé. Í kjölfar umfjöllunar fjölmiðla um hjálparstarfið á síðasta ári óx það talsvert og í viðtölum hefur komið fram að árið 1994 sendi séra Frans sjö gáma og á þessu ári náði hann að senda tvo áður en hann lést. Gámar þessir voru flestir af stærstu gerð (40 fet). Prestar sáu um móttöku varningsins og dreifingu á hverjum stað og var allt þetta starf því unnið í sjálfboðavinnu. Hann fékk mikla og góða aðstoð við að ganga frá varningnum og að fylla í gámana. En mörg hafa handtökin verið og öll unnin í hljóði, eins og svo oft vill verða hjá góðu fólki sem ekki væntir jarðneskra launa fyrir starf sitt. Hann var stundum spurður hvernig hann færi að því að fjármagna tíðar gámasendingar til annarra heimsálfa. Fyrst í stað sagði hann aðeins: ,Það eru margir sem hjálpa mér." Seinna sló hann á léttari strengi og sagði: ,Það verður auðveldara að svífa til himna ef vasarnir eru ekki fullir af gulli." Sagt hefur verið að honum hafi tæmst umtalsverður arfur og víst er að hann viðurkenndi eitt sinn í viðtali að hann stæði að mestu undir kostnaðinum sjálfur. Það verður ekki sagt um hann að hann hafi tekið út sín laun í þessu lífi. Hann gaf allt sem hann átti, meira að segja einkahúsgögn sín sem hann flutti til Íslands. Þó að annríkið hafi verið mikið við hjálparstarfið tók séra Frans að sér að kenna börnum sem komu í klaustrið að biðja. Og börnin voru mörg sem heimsóttu hann. Sagt er að síðustu orð fósturmóður hans, til hans, hafi verið þau að það ætti að kenna börnum að biðja og starfaði hann eftir þeim. Á honum rættust sannarlega orð Krists um að leyfa börnunum að koma til sín. Hann reyndi eftir föngum að gleðja þau á einhvern hátt og oftast leysti hann þau út með gjöfum.

Séra Frans undi vel hér á Íslandi. Þó að ævintýra- og ferðaþráin væri honum í blóð borin þá kom ekki til greina hjá honum að fara héðan. Þegar séra Róbert vinur hans skrifaði honum frá Síberíu og bað hann að koma þangað og aðstoða sig, skrifaði séra Frans um hæl og sagði að ekki þýddi að hugsa um slíkt því ekki væri pláss fyrir sig í gámnum og hann væri þar að auki orðinn of gamall fyrir svoleiðis ferðalög. Hann dáði náttúru Íslands og uppáhald hans voru fossarnir. Hann þekkti þá marga og naut þess að taka ljósmyndir af þeim.

Séra Frans var sístarfandi allt fram í andlátið. Miðvikudaginn í dymbilviku fór hann akandi frá Akureyri til Húsavíkur til að messa í heimahúsi; hann gerði það þrátt fyrir háan aldur og að veðrið væri ekki ákjósanlegt ­ mikill snjór og vont skyggni. Á annan í páskum fór hann til Siglufjarðar í sömu erindagjörðum eftir að hafa fengið upplýsingar um færð. Aftur skall á hið versta veður, snjór og blindbylur ­ en eftir erfiðan akstur komst hann á áfangastað.

Þegar hann fór í frí lá leið hans venjulega til Landsins helga í pílagríms- og trúboðsferð. Í síðustu ferðinni, sem hann fór með tíu félögum sínum, veiktist hann skyndilega og var lagður inn á spítala þar sem hann lést daginn eftir. Forsjónin réð því að hann lést í sömu borg og Frelsarinn sem hann hafði þjónað alla ævi. Við sem þekktum séra Frans hugsum til hans með söknuði en líka þakklæti að fá að hafa kynnst honum. Við trúum því að hann gisti í Paradís með sigursöng, eins og segir í sálmi Ingemanns, og virði fyrir sér foldina fögru sem hann unni svo mjög frá himnaglugganum sínum. Megi ljósið eilífa lýsa honum, hann hvíli í friði.

Ragnar Brynjólfsson.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.