23. febrúar 1996 | Innlendar fréttir | 402 orð

Þriggja ára fangelsi fyrir að aka á og bana manni

HÆSTIRÉTTUR hefur dæmt Júlíus Norðdahl, 18 ára Hafnfirðing, í þriggja ára fangelsi fyrir að hafa orðið fyrrverandi sambýlismanni móður sinnar, Sigurgeir Sigurðssyni, að bana með því að aka bifreið sinni á hann í maí á síðasta ári. Hæstiréttur þyngdi dóm héraðsdóms frá því í október sl., sem dæmdi Júlíus til 15 mánaða fangelsisvistar.
Þriggja ára fang-

elsi fyrir að aka

á og bana manni

HÆSTIRÉTTUR hefur dæmt Júlíus Norðdahl, 18 ára Hafnfirðing, í þriggja ára fangelsi fyrir að hafa orðið fyrrverandi sambýlismanni móður sinnar, Sigurgeir Sigurðssyni, að bana með því að aka bifreið sinni á hann í maí á síðasta ári. Hæstiréttur þyngdi dóm héraðsdóms frá því í október sl., sem dæmdi Júlíus til 15 mánaða fangelsisvistar.

Júlíus veitti Sigurgeir, sem var á reiðhjóli, eftirför á bíl sínum og ók aftan á hann á Flatahrauni í Hafnarfirði. Þegar bifreiðin skall á hjólinu kastaðist Sigurgeir af því, skall í götuna 18 metrum framar og slasaðist svo alvarlega að hann lést skömmu síðar.

Misræmi í framburði

Hæstiréttur vísar til misræmis í framburði Júlíusar, sem sagði fyrst eftir slysið að hann hefði verið að lesa aftan á myndbandsspólu í bifreiðinni, þegar áreksturinn varð, og ekki haft hugann við aksturinn. Í formlegri skýrslutöku hjá lögreglu sagði hann hins vegar, að hann hafi vitað að Sigurgeir var á hjólinu fyrir framan hann og verið að teygja sig í rafmagnsrofa fyrir rúðu, svo hann gæti hrópað að honum. Hæstiréttur segir að fallast verði á að hann hafi ekið á Sigurgeir af ásetningi, sem myndaðist í þann mund, er hann ók á eftir honum. Hann hafi mátt gera sér grein fyrir, að veruleg hætta væri á því, að stórfellt líkams- eða heilsutjón hlytist af ákeyrslu á reiðhjólið. Á hinn bóginn bæri að meta honum til gáleysis þær afleiðingar, sem í reynd hafi orðið.

Örðugleikar í samskiptum

Hæstiréttur tekur mið af því við ákvörðun refsingar, að Júlíus er ungur og hefur ekki áður gerst sekur um refsilagabrot. Aðdragandi ákeyrslunnar hafi verið skammur og bendi ekki sérstaklega til að með Júlíusi hafi búið styrkur og einbeittur vilji. Þá sé óhjákvæmilegt að hafa nokkra hliðsjón af þeim áhrifum, sem örðugleikar í samskiptum hans við Sigurgeir hafi haft á hann, þótt þau geti ekki réttlætt framferði hans.

Þar vísar Hæstiréttur til þess að fátt hafði verið með Júlíusi og fjölskyldu hans annars vegar og Sigurgeiri hins vegar og höfðu kærur gengið á víxl. Júlíus hafði orðið uppvís að því að brjóta rúður á heimili Sigurgeirs og móðir hans hafði kært hinn látna fyrir ofsóknir og hótanir.

Auk þess sem Júlíus var dæmdur til 3 ára fangelsisvistar var hann sviptur ökurétti ævilangt og gert að greiða áfrýjunarkostnað, þar með talin saksóknarlaun, 100 þúsund krónur, og málflutningslaun skipaðs verjanda síns, Arnar Clausen hrl., 100 þúsund krónur.Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.