Almenningur les í ísinn í Perlunni um helgina Síðasta hlýindaskeið skiptist í þrjá hluta Rannsóknir á borkjörnum úr Grænlandsjökli hafa veitt mikilvægar upplýsingar um náttúru- og veðurfar til forna.
Almenningur les í ísinn í Perlunni um helgina Síðasta hlýindaskeið

skiptist í þrjá hlutaRannsóknir á borkjörnum úr Grænlandsjökli hafa veitt mikilvægar upplýsingar um náttúru- og veðurfar til forna. Almenningi gefst kostur á að feta í fótspor vísindamanna og lesa í ísinn í Grænlandsjökli á sýningu í Perlunni 29. mars til 14. apríl.

SÝNINGIN kemur frá Danmörku og gefur lifandi mynd af dansk/ íslensku borununum í Grænlandsjökli í byrjun tíunda áratugarins. Með rannsóknum á borkjörnunum hefur verið hægt að fá mikilvægar upplýsingar um náttúru- og veðurfar til forna. Sigfús J. Johnsen, stjórnandi borananna, segir að komið hafi á óvart að síðasta hlýindaskeið hafi ekki verið stöðugt heldur hafi hiti fallið um 4 til 5 gráður milli þriggja styttri hlýindaskeiða. Í framhaldi af því hafi verið ákveðið að bora norðar í jökulinn til að kanna möguleikana á því að sama mynstur endurtaki sig.

Sigfús hefur yfirgripsmikla þekkingu á ísborunum í Grænlandsjökul enda hefur hann verið virkur í þeim nánast frá upphafi. Honum var t.a.m., ásamt prófessor Willi Dansgaard, falið að mæla fyrsta langa ískjarnann úr jöklinum árið 1966. Bandaríkjamenn áttu heiðurinn af því að hafa náð ískjarnanum úr jöklinum við Camp Century á Norðvestur-Grænlandi um sumarið. Ísinn reyndist vera 1.390 m þykkur og neðsti og elsti hluti kjarnans taldist 130 þúsund ára gamall.

Rannsóknirnar urðu Sigfúsi hvatning til að hanna nýjan og fullkominn ísbor og var hann fyrst notaður við Dye 3, radarstöð Bandaríkjamanna á Suðaustur-Grænlandi, árið 1979. Borinn reyndist með afbrigðum vel og upp náðist 2.038 m langur ískjarni. Borstaðurinn reyndist hins vegar ekki eins góður vegna skriðs við botn jökulsins og bráðnunar á yfirborði hans yfir sumartímann. Þó tókst úrvinnsla gagna með ágætum og nýjar og öflugar mæliaðferðir voru þróaðar.

Með framlagi frá Belgíu, Frakklandi, Íslandi, Ítalíu, Sviss, Stóra Bretland og Þýskalandi ásamt Evrópu gekkst Vísindasjóður Evrópu (ESF) svo fyrir samvinnu um þriðju borunina á hábungu jökulsins árið 1989. Hábungan er ákaflega heppilegur borstaður enda verður engin lárétt hreyfing á ísnum á hábungunni. Meðalhiti er -32 gráður og nánast aldrei þíða og því ekki sumarbráð eins og á Dye 3. Verkefninu var gefið nafnið Grip og kostaði um 550 milljónir íslenskra króna. Framlag Íslendinga nam um 0,7% af heildarkostnaði. Danir greiddu mest eða 23,6% og Svisslendingar komu næstir með 22%.

Fjórir Íslendingar unnu við rannsóknirnar á Grænlandi. Sigfús stjórnaði sjálfri boruninni, Pálína M. Kristinsdóttir, eiginkona hans, sá um kjarnagæslu og sýnatöku, Þorsteinn Þorsteinsson vann við borun og rannsóknir á kristöllum og Árný E. Sveinbjörnsdóttir vann við kjarnagæslu og samsætur. Einnig vinna við rannsóknirnar Guðbjörg Aradóttir, Karl Grönvold og Níels Óskarsson. Skemmst er frá því að segja að takmarkinu um að komast niðurúr jöklinum var náð hinn 12. júlí árið 1992. Kjarninn reyndist rúmlega 3.028 m langur og gæðin frábær ef frá er talinn kafli á 800 til 1.300 m dýpi.

Köldu skeiðin 20­25 gráðum kaldari

Sigfús segir að með rannsóknum á borkjörnunum megi m.a. fá upplýsingar um veðurfarsbreytingar og orsakir þeirra, samsetningu andrúmslofts, eldvirkni og skógarelda. Hann segist ekki hafa orðið fyrir vonbrigðum með kjarnann úr hábungunni í því sambandi því úr ísnum hafi verið hægt að lesa afar mikilvægar upplýsingar. Af því markverðasta nefnir Sigfús að hægt hafi verið að komast að því að hitastig hinna svokölluðu köldu skeiða hafi ekki verið 10 gráðum kaldara heldur 20 til 25 gráðum kaldara en í dag.

Botnsrannsóknir renna stoðum undir niðurstöðurnar

Ekki segir hann síður hafa komið á óvart að síðasta hlýindaskeið hafi ekki verið stöðugt heldur hafi hiti fallið um 4 til 5 gráður milli þriggja styttri hlýindaskeiða. Hann nefnir í því sambandi að á svipuðum tíma og Grip-hópurinn náði takmarki sínu hafi Bandaríkjamenn náð öðrum kjarna á svipuðum slóðum. Sá kjarni hafi ekki sýnt sömu vísbendingar um óstöðugleika og hafi í framhaldi af því komið upp efasemdir um niðurstöður Grips. Nú hafi hins vegar hafsbotnsrannsóknir í sjónum kringum Grænland og í Suður-Atlantshafi rennt stoðum undir niðurstöðu hópsins. Hjá honum kom fram að í framhaldi af niðurstöðunni hafi verið ákveðið að fara aftur af stað og kanna möguleikann á því að sama mynstur endurtaki sig með því að bora í jökulinn norðan við hábunguna í sumar.

Sigfús vildi lítið segja um hugsanlegar afleiðingar af því að hitastig lækkaði skyndilega um 4 til 5 gráður á jörðinni eins og gerst hefði á síðasta hlýindaskeiði. Aðeins að væntanlega mætti rekja slíka hitabreytingu til breytinga á golfstraumnum og hugsanlega mætti miða við að veðurfar á Íslandi yrði eins og veðurfar á Grænlandi og veðurfar í Danmörku eins og veðurfar á Íslandi en þess má geta að niðurstöður borananna sýna fram á að loftslag hefur farið stöðugt kólnandi á jörðinni síðustu 8.000 ár. Hið svokallaða landnámsöskulag er samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar frá árinu 871. Nýja verkefninu, sem er til þriggja ára, hefur verið gefið nafnið Nordgrip og sagðist Sigfús vona að Íslendingar sæju sér fært að vera með í fjármögnun á því eins og fyrra verkefninu.

Markmið sýningarinnar í Perlunni er að kynna Grip-verkefnið á aðgengilegan hátt fyrir almenningi. Á sýningunni eru m.a. myndband, myndir, teikningar og líkan af litlu samfélagi vísindamannanna á hábungunni. Sýningin hefur verið sett upp í níu stórborgum í Evrópu og alltaf fengið mikla athygli. Hún er opin milli kl. 15 og 20 virka daga og um helgar og hátíðisdaga milli kl. 11 og 18.

SIGFÚS hampar elsta hluta borkjarnans af hábungunni. Hann er tveggja til þriggja milljóna ára gamall.