"ÉG VERÐ að segja að mér finnst alveg dásamlegt hvað ITC-félagar á Íslandi eru orðnir margir. Hlutfall félaga miðað við íbúafjölda er mjög hátt," segir Renée Toolens varaformaður þriðja alþjóðasvæðis ITC- samtakanna. Renée heldur erindi á 11. Landsþingi ITC-samtakanna á Grand Hótel Reykjavík um helgina. ITC-samtökin stuðla að þjálfun í samskiptum.
11. landsþing ITC fer fram um helgina Ræða samskipti milli

ólíkra persónuleika

"ÉG VERÐ að segja að mér finnst alveg dásamlegt hvað ITC-félagar á Íslandi eru orðnir margir. Hlutfall félaga miðað við íbúafjölda er mjög hátt," segir Renée Toolens varaformaður þriðja alþjóðasvæðis ITC- samtakanna. Renée heldur erindi á 11. Landsþingi ITC-samtakanna á Grand Hótel Reykjavík um helgina. ITC-samtökin stuðla að þjálfun í samskiptum. Félagar eru tæplega 300, konur og karlar, hér á landi.

ITC-samtökin voru stofnuð í San Francisco árið 1938. Félagsskapurinn var upphaflega aðeins fyrir konur og báru samtökin nafnið International Tostmistress Club til ársins 1985. Á því ári voru samtökin opnuð körlum og nafninu breytt í International Training in Communication, skammstafað ITC. Sama ár var nafni íslensku samtakanna breytt úr Málfreyjur á Íslandi í Landssamtökin ITC á Íslandi.

Ekki hægt að breyta öðrum

Renée sagði að sitt innlegg á ráðstefnunni sneri að samskiptum ólíkra persónuleika. "Í erindi mínu leita ég til hins þekkta sálkönnuðar Jungs. Jung gerði töluvert af því að flokka fólk niður í persónuleika. Ein grófasta flokkunin felst í því að annars vegar sé fólk innhverft og hins vegar úthverft. Eins og hugtökin gefa til kynna leita hinir innhverfu inn í sig og hinir úthverfu út, t.d. með hegðun eða framkvæmd. Oft heldur fólk svo að hægt sé að breyta öðru fólki. Jung kennir okkur að svona eigi ekki að fara að. Árangursríkara sé að skilja en að reyna að breyta," segir Renée.

Hún segir að kenningar Jungs hafi verið þróaðar áfram. "Mæðgurnar Meyer-Briggs, sem voru sálfræðingar, héldu vinnu hans áfram og veltu því t.d. fyrir sér hvernig hægt væri að setja saman hópa, miðað við flokkun Jungs, til að ná sem bestum árangri."

Viðbrögð við neikvæðu áreiti

Af öðrum viðfangsefnum á ráðstefnunni nefndi Renée viðbrögð fólks við neikvæðu áreiti. "Viðbrögð fólks við neikvæðu áreiti eru mjög misjöfn. Ef við höldum áfram með flokkun Jungs myndi hinn innhverfi hverfa inn í sig þegar á honum væri brotið og ekki segja neitt á meðan hinn úthverfi gæti hugsanlega látið hendur skipta. Hvorugur gæti hins vegar komið skoðun sinni á framfæri. Við verðum að gera okkur grein fyrir hvernig persónuleiki við erum og haga okkur eftir því. Ef við erum t.d. innhverf verðum við að átta okkur á því og reyna að tjá okkur," segir Renée.

Hún segir að á þinginu verði t.d. ræðukeppni. Að koma fram og flytja ræðu sé einmitt stór þáttur í þjálfun ITC. "Að þú sért fær um að nýta þér þann lýðræðislega rétt þinn að tjá þig skiptir miklu máli. Hér er ég til dæmis að tala um að segja skoðun sína á borgarafundi vegna framkvæmda í nágrenni við húsið þitt eða á vinnustaðafundi. Þú þarft að hafa hugrekki til að standa upp og geta sagt skoðun þína á hnitmiðaðan og skýran hátt," segir hún og leggur áherslu á að ITC-samtökin séu ekki aðeins fyrir þá sem vilja ná langt í atvinnulífinu. Þjálfunin veiti fólki af öllum stéttum aukið sjálfstraust og hamingju fyrir utan frábæran félagsskap.

SÓLVEIG Ágústsdóttir viðtakandi forseti Landssamtakanna, Renée Toolens, varaforseti þriðja svæðis ITC, sem nær allt frá Íslandi til S-Afríku, og Hjördís Jensdóttir forseti Landssamtaka ITC á Íslandi.