FÆREYSKA landstjórnin missti meirihluta sinn á Lögþinginu í gær er Jafnaðarmannaflokkurinn ákvað að hætta þátttöku í stjórn Edmunds Joensens, lögmanns. Stjórnarsamstarfið hefur gengið brösulega undanfarna mánuði og mikill ágreiningur verið milli Joensens og Jóhannesar Eidesgaard, fjármálaráðherra, er fyrir skömmu var kjörinn formaður jafnaðarmanna.
Færeyjar Jafnaðar-

menn úr stjórn

Þórshöfn. Morgunblaðið.

FÆREYSKA landstjórnin missti meirihluta sinn á Lögþinginu í gær er Jafnaðarmannaflokkurinn ákvað að hætta þátttöku í stjórn Edmunds Joensens, lögmanns.

Stjórnarsamstarfið hefur gengið brösulega undanfarna mánuði og mikill ágreiningur verið milli Joensens og Jóhannesar Eidesgaard, fjármálaráðherra, er fyrir skömmu var kjörinn formaður jafnaðarmanna.

Stjórn Joensen hafði 18 þingmenn af 32 á bak við sig á Lögþinginu er hún var stofnuð í september 1994. Í fyrra lét einn þingmanna Verkamannahreyfingarinnar af stuðningi við stjórnina og einn þingmaður Sambandsflokksins. Eftir að jafnaðarmenn hættu stuðningi styðja einungis 11 þingmenn stjórnina.

Joensen sagði í gærkvöldi að hann myndi kanna hvort annar flokkur væri reiðubúinn að koma inn í stjórnarsamstarfið og kemur líklega einungis Fólkaflokkurinn, er hefur 6 þingmenn, til greina. Annfinn Kallsberg, formaður hans, vildi í gær ekki tjá sig um þennan möguleika.

Ef ekki tekst að tryggja stjórninni meirihluta segist Joensen ætla að stjórna áfram með minnihlutastjórn. Yrði það í fyrsta skipti sem minnihlutastjórn fer með völdin á Færeyjum.